23.04.1938
Efri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Magnús Jónsson:

Áður en ég vík að brtt. á þskj. 210, vil ég minnast á atriði, sem hér er um að ræða, að sá hluti af hátekjuskattinum, sem átti að renna til bæjarsjóðanna, skuli renna til manna, er kynnu að vilja leggja í það að gera út nýtízku togara. Ég taldi eðlilegt, að þetta fé rynni þá fyrst og fremst til togarakaupa á þeim stöðum, þar sem mest af þessu fé er innheimt.

Hv. frsm. gat um, að ekki væri ósanngjarnt, að þetta fé rynni til fleiri staða en eins, smám saman. þó að ekki væri hægt að setja slík atriði, varðandi framtíðina, í þessi bráðabirgðal. En ef þetta verður látið ná fram að ganga, vildi ég mælast til, að féð yrði fyrst látið ganga þangað, þar sem mest af því hefir verið tekið. og vildi ég gjarnan fá yfirlýsingu hv. flm. um, að svo skuli gert.

Hv. frsm. n. taldi eðlilegt, að fé það, sem fengið er með benzínskattinum, gengi fyrst og femst til þeirra staða, sem greiða mestan skattinn, og ætti honum þá ekki síður að þykja mín till. eðlileg.

Svo að ég víki að brtt. mínni á þskj. 310, þá er þar litil prentvilla. Þar stendur „töluliðurinn“. en á að vera „töluliðirnir“. Annars vil ég geta þess í sambandi við þessa brtt., að mörgum hv. þm. finnst óeðlilegt að taka þessa skiptingu inn í l. Það var víst til þess að sætta menn við benzíntollshækkunina, að menn áttu að sjá, að hann myndi látinn fara til vega á þeim stöðum, þar sem mest af honum er innheimt. En frá upphafi hefir verið aflægislega frá þessu gengið. Meiningin er að gera þessi ákvæði frv. að hreinni og beinni vitleysu — ég segi hreinni og beinni vitleysu. Það er engin meining í því að taka þessa skiptingu upp í frv., ef þetta á aðeins að vera hliðstætt venjulegu reiptogi um fé til vegalagninga hingað og þangað um landið. Ef slíku heldur áfram, er ekki annað fyrir en að taka þetta alveg burt úr I. Ég hefi þó ekki viljað leggja það til í n., enda þótt ég telji ekki óeðlilegt að taka þetta fé frá og verja því í alveg ákveðnum tilgangi, sem hlýtur að vera tvennur. utan venjulegra vegalagninga í fjárl.: Annarsvegar sá, að malbika vegi þá, sem bifreiðar fara mest um, en hinsvegar að bæta aðalsamgönguleiðir landsins.

Nú er ekki vafi á því, að þeir vegir, sem helzt þarf að malbika, eru tveir, báðir út frá Reykjavík. Annar er vegurinn austur, þar sem svo að segja allar samgönguleiðir sameinast, og hinn er vegurinn til Hafnarfjarðar, mesta umferðabraut á landinu. Og ég hefði svo talið eðlilegt, að undir þennan lið væru teknir vegirnir út frá Akureyri.

Þegar svo er litið á það, hvaða samgönguæðar koma helzt til greina, þá verður fyrst að telja veginn milli Reykjavíkur og Akureyrar. Önnur braut, sem líka er mjög fjölfarin og notuð ef til vill af helmingi þjóðarinnar, er brautin austur til Suðurlandsundirlendisins, eina brautin, sem er svo þýðingarmikil, að þar var um skeið talin ástæða til að leggja járnbraut. Teldi ég vel farið, ef þingið vildi halda sér fast að þessum tveim brautum. Ég hefi þó látið undan með það að hafa Sogsveginn með, því að nú er verið að ljúka við hann, og er mikil þörf á þeim vegi, ekki sízt vegna ferðamanna á sumrum. En ég álít þó, að þessi upphæð til hans eigi að falla niður jafnskjótt og vegurinn er fær orðinn.

Um aðrar brtt., sem hér eru fram komnar, get ég sagt, að þar er í einu númeri um þarfa vegi að ræða, en þeir eru þó hliðstæðir ótal vegum öðrum, sem fé er veitt til í fjárl., og þeirra pláss er þar. Og þó að fram megi færa sérástæður að því er snertir Siglufjörð og Vestmannaeyjar, vegna benzínskattsins, sem þar er greiddur, mega þeir engan veginn sitja í fyrirrúmi þessum aðalsamgöngubrautum. Þó myndi ég ekki hafa á móti því, að litil fjárhæð rynni til vega á þessum stöðum.

Ég gat ekki fengið einn meðnm. minn inn á þetta, þó að flestum muni hafa fundizt það skynsamlegt. Er eins og hinn gamli Adam sé enn of sterkur í þessum hv. þm., svo að þeir líti meira á það, sem vinsælt er í þeirra héruðum, en hitt, sem er alþjóðarnauðsyn. Þó vildi ég hér með láta það í ljós í till.- formi, hvernig ég vil, að þessu fé sé ráðstafað, ef á annað borð á að fara að ráðstafa því með þessum l.