12.04.1938
Efri deild: 47. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í C-deild Alþingistíðinda. (2694)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti'. Ég sé á frv., að gert er ráð fyrir að hækka skrifstofukostnað ýmissa sýslumannsembætta landsins. Ég er sérstaklega kunnugur einni bæjarfógetaskrifstofu á landinu, sem sé í Siglufjarðarkaupstað, þar sem ég hefi unnið þar um 10 ára skeið. Ég sé, að því embætti eru aðeins ætlaðar 11 þús. kr., en á sambærilegum stöðum, eins og á Ísafirði, í Hafnarfirði, Eyjafjarðarsýslu og Akureyrarkaupstað og í Vestmannaeyjum, er skrifstofuféð ákveðið töluvert hærra. Meðan ég starfaði hjá bæjarfógetanum á Siglufirði, vorum við þrjú í skrifstofunni, og stundum fjögur, og eins og nú háttar, er ekki hægt að fá þetta fólk fyrir minna en 10800 kr. Fulltrúinn fær 4200 kr., gjaldkerinn það sama, vélritunarstúlka 2400 kr. Það er einkennilegt, að embættinu á Siglufirði skuli vera ætlað þetta minna fé en á sambærilegum stöðum. Það er að vísu rétt, að Siglufjörður hafði minna skrifstofufé áður, eða 7000 kr., en bæjarsjóður létti þá að nokkru leyti undir með ríkissjóði, því að skrifstofan hafði með höndum innheimtu vörugjalds fyrir bæjarsjóð og fékk greiðslu fyrir það. Nú hefir verið stofnað sérstakt bæjargjaldkeraembætti, og einnig hefir verið samþ. í bæjarstj. að kjósa sérstakan bæjarstjóra, og má gera ráð fyrir, að innheimta vörugjalds verði flutt þangað. Þetta hefir í för með sér, að íþyngja verður embættinu um launagreiðslur, því að það er ekki hægt að fækka starfsmönnum, vegna hinna nýju l. um innheimtu tolltekna, sem bæta á sýsluskrifstofuna meiri störfum en því nemur, sem flyzt yfir á bæjargjaldkeraskrifstofuna.

Það kann í fljótu bragði að virðast, að reka mætti Siglufjarðarembættið ódýrara en á Akureyri, í Hafnarfirði og í Vestmannaeyjum, því að þar eru umdæmin miklu stærri en á Siglufirði. En það er ekki svo, heldur næstum þvert á móti. Ég hefi fengið að sjá um þetta skýrslur hjá hagstofunni, og það sést af þeim, að 3 síðustu árin eru störf dómara og lögreglustjóra á Siglufirði fullkomlega eins mikil og á hinum stöðunum, en við það bætist, að á engum stað á landinu er eins mikil þörf á eftirliti með gjaldeyrisverzluninni og á Siglufirði. Næst á eftir Reykjavík er mestur útflutningur þaðan. Þá hefir verið tekin upp sú regla að afgreiða skip á hvaða tíma sólarhringsins sem er, og það er ekki hægt að gera nema með einhverjum kostnaði. Ég fékkst aðallega við þetta, á meðan ég var hjá bæjarfógeta. Það var farið fram á að taka gjald af skipunum, en því var neitað. Ég fékk 500 kr. aukalega fyrir þetta starf, og ég gerði það að gamni mínu að reikna út, hvað mikið þetta yrði um tímann, en það urðu 50–60 aur.

Ég vil mælast til, að hv. allshn. taki þetta til athugunar og afli sér upplýsinga um, hvort hér er ekki að öllu leyti rétt hermt. Hv. n. þarf að kynna sér, hvað starfsfrekt eftirlitið á Siglufirði er. Og það er mjög mikilsvert fyrir ríkissjóð, sem hefir þarna svo mikilla hagsmuna að gæta, að góðir menn fáist í þessi störf. Embættismaðurinn getur ekki fylgzt með öllu sjálfur. heldur verður hann að fá sem hæfasta menn, sem hann getur treyst og trúað. En menn, sem eru duglegir í sinni grein, eiga hægara með að fá pláss annarsstaðar, þar sem þeim bjóðast ef til vill betri kjör en hjá ríkinu.