04.04.1938
Sameinað þing: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (2858)

91. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Flm. (Ólafur Thors):

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að allt frá því stjórn Framsfl. og sósíalista tók við völdum í landinu á miðju ári 1934, hefir Sjálfstfl. verið mjög andvígur stefnu stjórnarinnar á sviði atvinnu- og fjármálanna. Hefir vantraustið á stj. vaxið eftir því sem hún hefir farið lengur með völdin og ávextirnir af gerðum hennar hafa komið betur í ljós.

Sú breyting hefir nú orðið á ríkisstj., að ráðherra Alþfl. hefir látið af embætti, en við tekið þriðji framsóknarráðherrann. Ríkisstj. er þannig að forminu til hrein framsóknarstjórn.

En ekki virðist nein ástæða til þess að gera sér vonir um. að sú breyt. leiði til nokkurra bóta, því að í fyrsta lagi á stjórnin líf sitt undir geðþótta sósíalista. og neyðist því að sjálfsögðu til að taka tillit til vilja þeirra og óska, en í öðru lagi tók forsrh. af öll tvímæli, er hann hér á Alþingi hinn 31. f. m. tilkynnti myndun hinnar nýju stjórnar, því í þeim boðskap sagði ráðherrann:

„Ríkisstjórnin mun fylgja þeirri meginstefnu. sem fylgt hefir verið að undanförnu“.

Þessi orð eru alveg skýr.

Þjóðin veit nú, hvað hún á í vændum, ef þessari hæstv. ríkisstj. auðnast líf og heilsa. Það er sama meginstefnan sem fylgt hefir verið að undanförnu, sem enn á að ráða.

Á fjórum árum hefir stj. tekizt að hækka útgjöld fjárl. um margar millj., að leggja sjömillj. nýja skatta á þjóðina, að taka allan gjaldeyri af löglegum eigendum, fyrir verð, sem hún sjálf ákveður, að banna mönnum að flytja nokkurn hlut til landsins, eða frá því, án leyfis, að gera það að fast að því glæp, ef foreldrar í sveit senda barni sínu í kaupstað kjötkrof eða rjómalögg, og að gerast nær einráð um atvinnu- og fjárhagsafkomu nær allra þegna þjóðfélagsins.

Á þessum fjórum árum hefir þjóðinni tekizt undir forystu þessarar stefnu og þessarar stj. að hækka skuldir sínar við útlönd um 2 til 3 millj.tugi, að lenda í svo herfilegum vanskilum um samningsbundnar greiðslur við útlönd, jafnt því, að því er snertir einstaklinga sem ríkisstofnanir, að telja má með öllu glatað erlent lánstraust ríkis, bæja, einstaklinga og jafnvel banka, að skapa hér gjaldeyrisvandræði, sem verri eru og meiri óþægindum valda en nokkurn hafði órað fyrir, svo að jafnvel sjálft ríkið getur ekki greitt erlendar brennivínsskuldir, að gera nær því alla atvinnurekendur landsins eignalausa. og allan atvinnurekstur á sviði framleiðslu að hallarekstri, svo að niður er drepinn kjarkur manna og framtak til að hefjast handa um þær framkvæmdir, sem alþjóð þó eru nauðsynlegastar, og að opna leið hinum versta fjanda dugandi manna, atvinnuleysinu, er áður mátti heita óþekkt, en nú spennir helgreipar um æ fleiri og fleiri heimili og steytir hnefa framan í nær allan æskulýð landsins.

Og nú fær þjóðin fyrirheit hinnar nýju stjórnar. Það á að fylgja sömu meginstefnu sem fylgt hefir verið á undanförnum árum. Stj. ætlar þá að hækka ríkisútgjöldin, þyngja skattana, herða fjötrana og auka einræði ríkisvaldsins. Um nýjar erlendar lántökur þýðir stj. varla að gefa fyrirheit, af góðum og gildum ástæðum.

Sjálfsagt verður þessum boðskap stj. tekið nokkuð misjafnlega í hennar eigin herbúðum. Við sjástæðismenn þekkjum að vísu, hvers er að vænta þar, sem sósíalistar ráða, en biðum þó alveg rólegir átekta. Við vitum, að stj. hefir lofað upp í ermina sína. Við vitum, að úr því sem nú er komið um hagi þjóðarinnar, verður stefnu undanfarinna ára alls ekki lengur fylgt, hvað sem hver segir. Fyrir því sér fátækt þjóðarinnar og aðrir örðugleikar. Annaðhvort hlýtur því að ske, að stjórnin breyti um stefnu eða þjóðin breyti um stefnu, eða þjóðin breyti um stjórn.

Mér þykir ekki að þessu sinni ástæða til þess að tæra mörg rök að því, að ríkisstj., sem lifir á sameiginlegum stuðningi sósíalista og Framsfl., hlýtur að verða með öllu óvirk á sviði löggjafa, ef báðir flokkarnir ætla að reynast sæmilega trúir yfirlýstum stefnum sínum. Þykist ég og vita, að flestir athugulir kjósendur hafi löngu veitt þessu eftirtekt. enda sannar saga síðustu þinganna þetta mjög eftirminnilega.

Á vorþinginn 1937 báru sósíalistar fram 5 stór mál, er þeir gerðu að skilyrði fyrir áframhaldandi samstarfi. Eitt þeirra tók þingið til meðferðar, nefnilega Kveldúlfsmálið. Það var afgreitt eftir sameiginlegri ákvörðun Sjálfstfl., Framsfl. og Bændafl., gegn harðvítugri andstöðu sósíalista. Annað gerðist ekki á því þingi. Ekkert hinna málanna var virt svars, og ekkert þeirra mála hafa sósíalistar svo mikið sem nefnt á nafn síðan.

Á haustþinginu 1937 fór á sömu leið, að Sjálfstfl., Framsfl. og Bændafl. tóku höndum saman um lausn aðalmáls þingsins, lögin um stjórn og rekstur síldarverksmiðja ríkisins, gegn megnri andúð og mótspyrnu sósíalista.

Og enn á þessu þingi hefir farið í sama farið. Enn hafa þessir sömu flokkar sameinazt um þá einu löggjöf, er nokkru skiptir, þ. e. a. s. gerðardóminn, gegn svo megnri mótstöðu sósíalista, að þeir létu valda samvinnuslitum.

Hvernig stendur á þessu? Hvað veldur því, að ekkert, sem máli skiptir, nær fram að ganga, nema í sundurþykkju og jafnvel fullum fjandskap stjórnarflokkanna?

Lausn gátunnar er sú, að vegna fátæktar og fjárhagsvandræða þjóðarinnar er ekki hægt lengur að reka kröfupólitík undanfarinna ára. Þetta sjá allir hér á þingi. En munurinn á Framsfl. og sósíalistum er sá, að Framsfl. er í samræmi við vilja sinna kjósenda með því að taka upp nýja stefnu og leggja megináherzlu á að efla framleiðsluna og reisa við fjárhag ríkis og einstaklinga, en sósíalistar þora ekki að leggja út á þá braut, enda þótt þeir vildu.

Vantrauststillaga sú, er ég hefi flutt hér á Alþingi f. h. þingflokks sjálfstæðismanna og hér er nú til umræðu, á auðvitað rætur í því ástandi, er stefna stj. hefir skapað hér á landi. En hún er þó borin fram með alveg sérstakri hliðsjón af atburðum síðustu daga. Ég mun því ekki við rökstuðning hennar ræða frekar en orðið er hina almennu vantrú sjálfstæðismanna á þeirri stjórnarstefnu, sem ríkt hefir að undanförnu og fyrirheit er nú gefið um, að fylgt verði, enda verður sú gagnrýni, eins og venja er til, fram sett af flokksins hálfu við framhald fyrstu umr. fjárl., hinar svonefndu eldhúsumræður, er bráðlega munu fram fara.

Ég mun einnig leiða hjá mér að ræða allverulega formlega galla, er ég tel verið hafa á öllum gangi samninganna um myndun hinnar nýju stj., sem og það, að full ástæða er til að óttast, að þjóðin líti á það sem hálfgerðan skrípaleik, að nokkrum dögum eftir að stjórnarflokkarnir klofna skuli þeir enn teknir saman. Ég er ekki heldur óhræddur um, að í þeim efnum geri það illt verra, að í vændum eru ýmsar stöðuveitingar, sem, enda þótt þær út af fyrir sig geti verið að meira eða minna leyti réttmætar, þó ef til vill sjást í nokkuð sérstöku ljósi í sambandi við undangengna viðburði.

Allt þetta mun ég leiða hjá mér, sem og það, hvort nokkrar líkur séu á því, að stjórnin sé lýðræðisstjórn, eftir klofninginn í Alþfl., en sannast sagna held ég, að Alþingi verði að fara að gæta sín, ef það metur nokkurs virðingu og traust þjóðarinnar.

Ég mun hinsvegar sýna, að ríkisstj. skorti aðstöðu til að geta ráðið fram úr hinum mest aðkallandi og stórvægilegustu vandamálum þjóðarinnar, einmitt á því sviði þjóðmálanna, sem við sjálfstæðismenn teljum, að stj. hafi út af fyrir sig vilja til að gera hið rétta. En það liggur í hlutarins eðli, að í þeim efnum verður ekki vilji tekinn fyrir verkið, heldur verður sérhver stjórn að víkja fyrir þeirri lífsnauðsyn þjóðarinnar, að hin mestu hagsmunamál fái rétta úrlausn í tæka tíð.

Á ég hér við vilja ríkisstj. til að skapa vinnufrið í landinu á þessu ári, en um hitt get ég verið fáorður, að mæti nú öfgafullar kaupdeilur stöðvun framleiðslunnar ofan á atvinnuleysi og fátækt almennings og gjaldeyrisskort og féþörf ríkisins, er engin leið til þess, að þjóðin komist ómeidd út úr því öngþveiti, er af slíku leiðir.

Skal ég nú leitast við að færa rök fyrir þeim tveim höfuðatriðum, er máli skipta, þessu til sönnunar.

Annað er, að sterkar líkur benda til, að alveg óvenjuleg þörf verði fyrir afskipti löggjafans eða framkvæmdarvaldsins í því skyni að setja niður kaupdeilur og tryggja vinnufriðinn í landinu. Hitt er, að það hefir hent forsrh. að búa svo um hnútana við stjórnarmyndunina, að ríkisstj. er gersamlega máttvana og öldungis ófær um að leysa af hendi einmitt þetta mikilsverða hlutverk, sem þjóðin þó á meira undir að vel og röggsamlega sé fram úr ráðið en flestu öðru.

Það er alkunna, að eitt aðalvopn sósíalista og kommúnista í baráttunni um hylli verkalýðsins er að bera fram kauphækkunarkröfur, alveg jafnt þótt vitað sé, að ekki er hægt að uppfylla þær köfur, og að það myndi, ef gert væri, bitna þyngst á verkalýðnum, vegna þess atvinnuleysis, er leiðir af samdrættinum í atvinnulífinu, sem ævinlega fylgir í kjölfarið, ef greitt er hærra kaupgjald en getan leyfir. Í þessum efnum hefir ríkt mikil samkeppni milli leiðtoga sósíalista og kommúnista. En svo bágt sem þetta hefir lengi verið, virðist það þó hafa versnað um allan helming eftir að Héðinn Valdimarsson var rekinn úr Alþfl., því frá þeim degi sýnist það vera höfuðstefna Alþfl. í öllum málum, að kommúnistar og Héðinn Valdimarsson komist ekki í færi við þá.

Það er engum vafa undirorpið, að eins og komið er um innri baráttu milli sósíalista annarsvegar, en kommúnista og Héðins Valdimarssonar hinsvegar, muni báðir beita kaupkröfunum fyrir sig í baráttunni um fylgi verkalýðsins langt um venju fram og í alveg fullkomnu ábyrgðarleysi á öllum afleiðingum þeirrar baráttu, enda mun a. m. k. Alþfl. telja, að hann berjist nú fyrir lífi sínu.

Öll skynsamleg íhugun bendir því til, að bæði tíðar og stríðar kaupdeilur séu í vændum, og að ekkert sé líklegra en að þá og þegar geti skapazt alveg samskonar þörf fyrir afskipti löggjafarvaldsins af þeim málum og sú, er fyrir hendi var í kaupdeilunni á togurunum.

Alveg í sömu átt benda þær staðreyndir, sem nú þegar eru fyrir hendi. Þær segja frá kaupdeilum, sem nú standa yfir eða eru í vændum, sem vel geta kallað á aðgerðir ríkisvaldsins og sumar hverjar eiga rætur í samkeppni sósíalista og kommúnista.

Þessa dagana hafa staðið yfir samningar um kaupgjaldið á skipum Eimskipafélags Íslands og ríkissjóðs. Allar horfur virtust á, að sættir ætluðu að takast, þegar fámenn stétt, undir forystu eins af aðalstjórnendum Alþfl., gerði kröfu um 14% kauphækkun auk annara fríðinda.

Samningar eru nú útrunnir, en enn hefir ekkert samkomulag náðst, svo að vel má svo fara, að mjög bráðlega komi til stöðvunar allra þessara skipa. Slíkt mál getur auðvitað vel komið til kasta ríkisvaldsins.

Þá hafa verið gerðar kröfur um mikla kauphækkun í vegavinnunni. Þar er það nú ríkisstj. sjálf, sem á að standa fyrir hagsmunum ríkissjóðs, og er því beinn aðili í þeirri kaupdeilu.

Enn má minna á, að 165 menn, sem vinna í síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði og hafa frá 550 og upp í 700 kr. mánaðarkaup, gera kröfu um stórfellda kauphækkun, en hóta ella að stöðva rekstur síldarverksmiðjanna. Vita þessir menn þó vel, að sjómenn bera þeim mun minna úr býtum sem þeir fá hærra kaup, er í verksmiðjunum vinna, sem og hitt, að vegna verðfalis á síldarlýsi er bræðslusíldin, og þar með kaup allra þeirra sjómanna, er ráðnir eru upp á hlut, fallið ofan í helming þess, er var í fyrra.

Skyldi þetta ekki geta komið til kasta ríkisvaldsins?

Ég hefi hér aðeins nefnt þau þrjú dæmi, þar sem ríkið sjálft er beinn aðili, þ. e. a. s. kaupdeilurnar í ríkisverksmiðjunum, skipaútgerð ríkisins og vegavinnu ríkisins, en sannarlega eru næg önnur vitni þess, að allt bendir til, að einmitt nú verði ríkisvaldið langt umfram venju að vera viðbúið að rétta hlut þjóðarinnar, ef öfgakenndar kaupdeilur ráðast á hagsmuni hennar og sverfa svo nærri. að til vandræða horfir.

Er þá næst að aðgæta, hvernig stj. stendur að vígi til þess að inna af hendi þessa ríku skyldu sína.

Til þess að geta gert sér fulla grein fyrir þeirri hlið málsins, er nauðsynlegt að athuga eðli þeirrar misklíðar, er olli klofningi milli stjórnarflokkanna, rekja sögulegan gang klofningsmálsins á þingi og rannsaka, hversu sárin hafa gróið og hve vendilega er frá sættum gengið, einmitt vegna þess, að sjálft ágreiningsefnið var kaupgjaldsmál.

Ætla ég þá að snúa mér að því að rekja það mál nokkuð.

Svo sem kunnugt er, sögðu sjómenn á togurum upp kaupsamningum þeim, er út runnu um síðustu áramót. Aðiljum málsins tókst ekki að ná um það samkomulagi, og eigi hafði sáttasemjari ríkisins heldur getað sætt þá. Var þá enn gerð tilraun til sátta af sáttasemjara ásamt þrem öðrum mönnum, er hæstiréttur úfnefndi, sem þó einnig mistókst. Þannig stóð málið um miðjan síðasta mánuð. Vetrarvertíð fór nú í hönd, og var þá öllum ljóst orðið, að til fullkominna vandræða horfði. Ofan á atvinnuleysis og gjaldeyrisskortinn átti nú að bætast það böl, að stórvirkustu framleiðslutækin, sem tryggja 1000 sjómönnum sæmilega lífvænlega afkomu, og sjá auk þess ótal mörgum öðrum fyrir daglegu brauði, en færa milljónir í þjóðarbúið, áttu nú að liggja ónotuð yfir hábjargræðistímann. Allir skildu, að við svo búið mátti ekki standa, og allir vissu í rauninni, að nú var eitt og eingöngu eitt úrræði eftir, þ. e. a. s. að löggjafinn tæki málið í sínar hendur.

Hinn 16. fyrra mánaðar lagði svo forsrh. fyrir Alþingi frumv. um, að deilan yrði lögð í gerð. Sjálfstfl., Framsfl. og Bændafl. voru frumvarpinu fylgjandi. Alþfl. hinsvegar taldi þá leið með öllu ófæra, en sýndi þó, að einnig honum var ljóst, að eitthvað þurfti að aðhafast, með því að bera fram frumvarp um, að löggjafinn tæki fram fyrir hendur aðilja, tæki af þeim hinn svokallaða helga rétt til að deila einir og óáreittir um kaupgjaldsmálin, og ákvæði með lögum kaupgjald á saltfisksveiðum.

Spannst nú hin harðasta deila, einkum milli Framsfl. og sósíalista, um það, hvora leiðina bæri að fara. Héldu sósíalistar því fram, að í þessum efnum væri með öllu óverjandi að ganga lengra en nauður ræki til um íhlutun löggjafarvaldsins. Það ætti því að einskorða afskiptin við kaupgjaldið á saltfisksveiðum, en láta aðilja einráða um að semja um kaupgjaldið á síldveiðunum í sumar og fisfisksveiðum næsta haust.

Framsfl. tók alveg þvert fyrir að fara þessa leið í málinu. Báðir ráðherrar flokksins sýndu fram á að aðalmisklíðin væri einmitt út af kaupgjaldinu á síldveiðum og ísfisksveiðum. Það kæmi því alls ekki til mála að fresta lausn einmitt þess hluta deilunnar. Síldveiðarnar yrðu að hefjast í júní. Það væri þjóðarnauðsyn, að þær yrðu hvorki tafðar né stöðvaðar. Engin trygging væri fyrir því, að aðiljar gætu fremur þá en nú komið sér saman um kaupgjaldið. Hvað átti nú til bragðs að taka? Ekki væri líklegt, að ríkisstj. yrði á eitt sátt um að gefa út bráðabirgðalög um að leggja deiluna í gerð, en Alþingi mundi ekki eiga setu. Þá yrði að velja milli þess, að láta síldveiðarnar á togurunum falla niður, en það væri þjóðarvoði, eða kalla saman þing, til þess að reyna að leiða málið til lykta. Það væri dýrt fyrir ríkissjóðinn, en dýrara þó fyrir þjóðina. vegna þess skaða, sem orsakaðist af sérhverri töf á því, að veiðar hefðust. Töldu ráðherrarnir að með öllu væri óverjandi að stofna síldveiðunum í nokkurn ónauðsynlegan voða, og því væri alveg óhjákvæmilegt að útkljá deiluna nú þegar, með því að lögfesta gerð, er ákvæði kaupgjaldið yfir allt árið.

Óþarft þykir að rekja þá deilu lengra. En hversu mikið aðiljar töldu bera á milli, — hversu mikla áherzlu Framsfl. lagði á, að ekkert yrði í óvissu um síldveiðarnar, og hversu mögnuð var andstaða sósíalista gegn því að láta ákveða kaupið á síldveiðunum fyrir tilstilli löggjafans, enda þótt þeir vildu setja lög um kaupgjaldið á saltfisksveiðum — sést bezt á því, að eftir 4 ára samstarf skildu leiðir stjórnarflokkanna út af þessum djúpsetta málefnaágreiningi.

Frá því Haraldur Guðmundsson gekk úr ríkisstj. og þar til hin nýja stjórnartilkynning kom þann 31. fyrra mánaðar, mun almennt hafa verið talið nær óhugsandi, að Alþfl. mundi eiga nokkurn beinan eða óbeinan þátt í stjórnarmyndun. Haraldur Guðmundsson hafði ekki sagt af sér ráðherraembætti af persónulegum ástæðum, heldur hafði Alþfl. dregið ráðh. sinn út úr stj. vegna málefnaágreinings, þ. e. a. s. vegna andstöðu Alþfl. gegn gerðardómslögunum. Var því lítið svo á, að jafna yrði þann málefnaágreining, áður en til samvinnu gæti dregið milli þessara flokka, því ella hefði það verið frumhlaup eitt af Alþfl. að draga ráðh. sinn út úr stj. Til þessa lágu aðeins þær tvær leiðir, að Framsfl. héti því að beita aldrei oftar lögboðinni gerð í kaupgjaldsmálum, eða að Alþfl. félli frá fyrri andstöðu gegn slíkri lausn á kaupdeilum, en báðar sýndust þær leiðir ófærar í bili. Hvorttveggja sýndist jafnóhugsandi, að Famsfl. afneitaði svo snögglega þeirri stefnu í deilumálinu, sem hann ásamt Sjálfstfl. og Bændafl. hafði borið fram til sigurs, sem hitt, að Alþfl. teldi sér fært að styðja stjórn Framsfl. eða taka þátt í stjórnarmyndun með þeim flokki, er svo nýverið hafði framið jafnstórt brot á sviði löggjafarinnar, sem Aþfl. hafði talið gerðardómslögin vera.

Það hefir nú farið svo sem kunnugt er, að Aþfl. hefir heitið nýrri stjórn Framsfl. stuðningi, sem forsrh. virðist, samkv. þeirri yfirlýsingu, er hann gaf hér á Alþingi 31. f. m., telja fullnægjandi.

Skal nú vikið að því, er hér gerðist þann dag. Fyrst tilkynnti forsrh. hina nýju stjórn og kvað hana hljóta hlutleysis Alþfl. „fyrst um sinn“.

Lék nú að vonum öllum forvitni á að vita, hversu tekizt hefði að leysa deilumálið, sem valdið hafði samvinnuslitunum, en um það gaf forsrh. engar upplýsingar í ræðu sinni.

Næstur talaði Haraldur Guðmundsson. Sagðist hann „staðfesta ummæli forsrh. um, að Alþfl. hafi heitið stjórn hans stuðningi fyrst um sinn“, og myndi það haldast „nema afgreiðsla mála á Alþingi eða stjórnarframkvæmdir gefi tilefni til annars“, eins og HG orðaði það.

Að öðru leyti gaf HG heldur engar upplýsingar um lausn deilumálsins, sem þó að allra dómi hlaut að skipta höfuðmáli í þessu sambandi, jafnt frá hvaða sjónarmiði sem litið var á málið, hvort heldur sem spurt var um vinnufriðinn í landinu, stefnufestu flokkanna, sem deildu, eða fótfestu og öryggi ríkisstj.

Af hendi Sjálfstfl. var nú þeirri fyrirspurn beint til forsrh., hvernig samizt hefði um deilumálið, og hvort hann hefði tryggt stj. stuðning Alþfl., ef til hennar kasta kæmi um framkvæmd gerðardómslaganna. Jafnframt var HG um það spurður, hvort skoða bæri stuðning Alþfl. við stj. sem yfirlýsingu flokksins um það, að hann væri fallinn frá fyrri andstöðu gegn gerðardómslögunum.

Forsrh. leysti nú gátuna. Hann játaði hreinskilnislega, að hann hefði ekki svo mikið sem vilyrði um stuðning Alþfl., ef ríkisstj. þyrfti að hafa afskipti af gerðardómslögunum. „Um það er vitanlega ekkert samið“, sagði forsrh.,

„hvort lög, sem Alþingi nýverið hefir sett, verði haldin. Það er svo sjálfsagður hlutur, að um það þarf ekki að tala“. En HG svaraði á þá leið, að andstaða Alþfl. gegn gerðardómnum væri óbreytt. „Lögin eru ekki komin til framkvæmda“, bætir HG við, „og ég endurtek, að stuðningur Alþfl. við stj, er alveg ótímabundinn og varir eingöngu þar til afgreiðsla mála á Alþingi eða stjórnarframkvæmdir gefa tilefni til annars“.

Ég benti nú forsrh. á, að hann hlyti að vita betur en hann létist. Honum hlyti að vera kunnugt um, að annar aðili hafði á fundi 21. f. m. samþ. svo hljóðandi tillögu:

„Sjómannafélag Reykjavíkur mótmælir harðlega gerðardómi þeim, er settur var með lögum 17. þ. m. til að dæma um ágreining milli sjómanna og togaraútgerðarmanna, svo og úrskurði dómsins uppkveðnum í dag. Telur félagið úrskurðinn ekki á þann hátt bindandi fyrir meðlimi sína, að því sé óheimilt að gera ráðstafanir til að ekki verði lögskráð á togara með þeim kjörum, sem í úrskurðinum eru ákveðin“.

Hér væru í fyrsta lagi mótmæli gegn gerðardómslögunum. Í öðru lagi væri gerðinni, þ. e. a. s. sjálfu kaupgjaldinu á síldveiðum og ísfisksveiðum, mótmælt. Í þriðja lagi væri því skýlaust yfirlýst, að þessi aðili teldi sig eigi aðeins óbundinn af lögunum um gerðardóm, heldur teldi hann sér líka heimilt að hindra, að lögskráð yrði á skipin með þeim kjörum, sem gerðin ákveður.

Af þessu væri auðsætt, að stj. hefði a. m. k. ástæðu til að óttast, að lögunum yrði ekki hlýtt. Ef til vill mætti þó segja, að ekki væri rétt að leggja of mikið upp úr slíkri yfirlýsingu sjómanna, samþykktri í hita deilunnar. Hitt væri miklu alvarlegra, að höfuðblað sósíalista, Alþbl., skýrði frá því, að þessi samþykkt sjómanna, um að þeir myndu hafa lögin að engu, ef þeim svo sýndist, væri í „fullu samræmi við afstöðu Alþfl. á þingi“, eins og blaðið orðar það. Þó væri það enn þýðingarmeira, að það væru menn úr þingflokki Alþfl., er samið hefðu og borið fram þessa tillögu.

Af öllu þessu væri alveg augljós hætta á ferðum um að stjórnin yrði að láta til sín taka um framkvæmd laganna.

Bar ég nú fram þá fyrirspurn til forsrh., hvort ríkisstj. myndi beita því valdi, sem hún að lögum hefði, ef með þyrfti, til að tryggja framkvæmd gerðarinnar, en HG spurði ég að því, hvort hans flokkur myndi halda áfram stuðningi við ríkisstj., ef hún tæki til slíkra ráða.

Þessu svaraði forsrh. nokkuð út í hött. Sagðist alls ekki sjá neitt ólöglegt í því, þótt stjórn Sjómannafélagsins beitti áhrifum á sjómenn um að ráða sig ekki á síldveiðar, ef þeim þættu kjörin óaðgengileg; slíkt væri ekki lagabrot. Kvaðst treysta á löghlýðni. Ekkert vit væri í að fara nú að draga saman lið, og margt annað, sem enginn hafði um spurt, né nokkrum í hug dottið, að gert yrði. En því, sem um var spurt, svaraði forsrh. á þessa leið: „Komi hinsvegar til einhvers ágreinings út af lögunum, get ég hvorki né vil segja, hvað ég mun gera“.

HG svaraði, að tíminn leiddi í ljós, hvað Alþfl. myndi gera; sagðist enn minna á, að stjórnarstuðningur Alþfl. væri „ótímabundinn og háður stjórnarframkvæmdum“.

Þegar hér var komið, var því lýst yfir af hendi Sjálfstfl., að eftir þeim upplýsingum, er fyrir lægju, teldi flokkurinn, að hin nýja ríkisstj. hefði ekki nægilega sterka aðstöðu til þess að geta ráðið fram úr hinum mörgu og erfiðu viðfangsefnum, er framundan eru á sviði stjórnmálanna, og myndi Sjálfstfl. því bera fram vantraust á stjórnina.

Það, sem fyrir mér vakir að sýna með því að rekja þessa sögu málsins, er þetta:

Í fyrsta lagi það, hve Framsfl. í meðferð málsins á þingi lagði ríka áherzlu á að skapa — það sem hann taldi vera — fullkomið öryggi um síldveiðarnar nú þegar.

Í öðru lagi, hve sósíalista brast algerlega þor til að fylgja samstarfsflokknum að þeim málum, en flestir ætla, að það hafi verið af ótta við Héðin Valdimarsson og kommúnista, sem nota jafnt þetta mál sem öll önnur til þess að gera sósíalistum bölvun.

Í þriðja lagi, að þegar forsrh. myndar hina nýju stjórn, þá veit hann, að það er ekki aðeins hugsanlegt, heldur jafnvel líklegt, að til stjórnarinnar kasta geti komið um framkvæmd gerðardómslaganna.

Í fjórða lagi, að sósíalistar þora ekki eða vilja ekki standa að þeirri framkvæmd.

Í fimmta lagi, að af því leiðir, að sú stjórn, sem styðst við þingfylgi þeirra, getur hvorki tryggt framgang gerðardómslaganna, ef til hennar kasta kemur, né fullnægt þörf þjóðarinnar fyrir svipaðar aðgerðir í öðrum kaupdeilum, þótt nauðsyn bæri til.

Þegar nú hér við bætist, að hæstv. forsrh., sem öðrum, er vel kunnugt um hinar aðrar deilur, sem í uppsiglingu eru, þá teljum við sjálfstæðismenn, að alveg jafnvíst og það er, að forsh. gerði skyldu sína, þegar hann setti þörf þjóðarinnar fyrir lausn togaradeilunnar ofar samvinnunni við sósíalista, alveg jafntvímælalaust sé hitt, að fyrsta og augljósasta skylda forsrh. við myndun hinnar nýju stjórnar var að tryggja það, að hún gæti framfylgt gerðardómslögunum og að öðru leyti fylgt sannfæringu sinni, ef skyldan kallaði á svipaðar aðgerðir.

Fyrri stjórn Hermanns Jónassonar hafði klofnað út af ágreiningi um, hver afskipti löggjafanum og framkvæmdarvaldinu væri skylt eða heimilt að hafa af kaupgjaldsmálum. Meðan sjálft miskliðarefnið er ekki hjá liðið, og mörg svipuð geta orðið á vegi stj., liggur í augum uppi, að sérhver sá, er mynda ætlaði nýja stjórn, varð fyrst og fremst að tryggja það, að stuðningsmenn stj. væru á eitt sáttir um úrlausn deilumálsins.

Þessari skyldu sinni hefir forsrh. og Framsfl. herfilega brugðizt, og með því teflt hinum mestu hagsmunamálum þjóðarinnar í alveg fyrirsjáanlegan voða.

Eða hvernig skyldi nú stj. standa að vígi, ef forystumenn sjómanna, þ. e. a. s. ráðamenn Alþfl., gera alvöru úr því að hindra lögskráningu á skipin? Er hér að sjálfsögðu átt við, að þeir beiti til slíks ólöglegum ráðum, svo sem að hindra með valdi sjómenn þá, sem vilja ráða sig, frá því að lögskrást eða komast á skipsfjöl, eða annað því um líkt, sem ríkisvaldinu ber bein skylda til að vernda þegnana fyrir.

Hitt dettur engum í hug, og það vil ég að komi skýrt fram, svo að af séu tekin öll tvímæli, að ríkisvaldið eigi, eða megi, fara að draga saman eitthvert lið, í því skyni að þvinga menn til að ráða sig fyrir einhver ákveðin kjör. Slíkt væri auðvitað hrein fjarstæða og alveg gagnstætt því, sem ég tel skyldu ríkisvaldsins, þ. e. a. s. að tryggja frelsi þess einstaklings, sem vill vinna fyrir þau kjör, sem gerðardómurinn ákveður, gegn ofbeldi þeirra, er slíkt vilja hindra.

Já, hvað ætlar ríkisstj. að gera, ef til hennar kasta kemur um þetta?

Komi til átaka og beiti stj. lögregluvaldi til verndar hinum vinnufúsu sjómönnum, má ganga út frá því sem alveg vísu, eftir ummælum Alþýðublaðsins og yfirlýsingu Haralds Guðmundssonar, um að stuðningur Alþýðuflokksins við ríkisstj. sé „ótímabundinn og háður stjórnarframkvæmdum“, að þeim stuðningi sé á sömu stundu lokið, ef ekki af öðru, þá þó af ótta við samkeppnina við Héðin Valdimarsson og kommúnista um hylli og fylgi þess hluta verkalýðsins, sem búið væri að æsa upp til að vilja beita ofbeldi.

En missi stjórnin stuðning Alþfl., er hún hvorki þingræðis- né lýðræðisstjórn, og því gersamlega máttvana.

Engri slíkri stjórn dettur svo mikið sem í hug að reyna að glíma við slíkar deilur. Hún segði tafarlaust af sér og kallaði saman þing, sem svo með ærnum kostnaði og mikilli fyrirhöfn færi að fást við að mynda nýja stjórn, sem gæti leyst þetta vandamál. Á meðan liður síldveiðin hjá og þjóðin verður gjaldþrota.

Stjórnin er þannig alveg í sjálfheldu, en velferð þjóðarinnar stefnt í augljósan voða.

Allt þetta vita bæði leiðtogar sósíalista og kommúnista. Þeir skilja ofurvel, að stj. getur hvorki hreyft hönd né fót til verndar gerðardómslögunum, án þess að falla á málinu, og þeir vita þar af leiðandi, hvað óhætt er að bjóða sér — og stjórninni.

Forsrh. hefir þess vegna, með því að mynda stjórn án þess að tryggja gerðardómslögunum fylgi stuðningsmannanna, beinlínis sagt við þá, er spana vilja til vandræða: „Gerið þið það, sem ykkur sýnist; ekkert get ég gert.

Mér sýnist, að með þessu sé fullkomlega á glæ kastað öllum ávöxtum hins lofsverða tilgangs Framsfl. með setningu gerðardómslaganna í samstarfi við andstæðinga sína. Og það sem verra er: Hætt er við, að hér sé verið að stofna til fordæmis um það, að fyrsta lagasetning Íslendinga um lausn kaupdeilna með gerð, samþ. af nærri 4/5 hlutum þingsins, verði höfð að engu, en skaðsemi slíks fordæmis verður í dag eigi með tölum talin.

En sé nú huganum aftur rennt til þeirra annara kaupdeilna, er yfir standa og í aðsigi eru, vakna margar spurningar.

Hvað ætlar stj. að gera, ef skip ríkisins og Eimskipafélags Íslands stöðvast? Tap ríkisins og félagsins af stöðvun skipanna skipta þar ekki mestu máli. Heldur ekki atvinnumissir skipshafnarinnar. Örðugast verður að búa við þá gjaldeyrisþröng og jafnvel markaðsmissi, sem leiðir af þessari stöðvun á útflutningi framleiðsluvörunnar.

Hvað ætlar stj. að gera? Í þetta skipti getur hún að vísu ráðfært sig við Alþingi, sem þó að því er snertir þann meiri hl., er stjórnina styður, líklega svarar því einu, að stj. verði að fórna hagsmunum þjóðarinnar og láta deiluna afskiptalausa, því annars verði henni sjálfri fórnað.

En svo kemur deilan um vegavinnukaupið. Hvað ætlar stj. þá að gera? Þar er það nú Alþýðusambandið, þ. e. a. s. yfirstjórn stuðningsflokks stj., sem semja á við ríkisstj. Hvað ætlar stj. að gera, ef haldið verður fast við hina miklu kauphækkun, sem krafizt er? Ætlar stj. þá að hugsa um sjálfa sig, eða ríkissjóðinn? Ætlar hún að fylgja þeirri sannfæringu sinni, að kaupgjaldið geti ekki hækkað?

Ætlar hún sjálf að ákveða kaupið ein, eins og allir borgaraflokkar í Noregi nú heimta þar í landi? Eða ætlar hún að heimta lögboðna gerð, eins og sósíalistar í Noregi báru fram og fengu lögfest? Eða ætlar hún hvorugt, — ætlar hún kannske að beygja sig undir vilja íslenzku sósíalistanna, stuðningsmannanna, og hækka kaupið, eða a. m. k. að láta kaupdeiluna afskiptalausa, enda þótt vegirnir eyðileggist og umferð stöðvist vegna þess að ekki er unnið að viðgerð veganna?

Og hvað ætlar stj. að gera í Siglufjarðardeilunni? Ætlar hún að þola það, að 165 menn, með frá 550–700 króna mánaðarkaupi, stöðvi rekstur síldarverksmiðjanna, ef ókleift þykir að taka af rýrum skerf sjómannanna til þess að bæta ofan á rífleg laun þeirra? Eða ætlar stj. að beita löggjöf og löglegum úrræðum ríkisvaldsins til þess að forða frá þjóðarvoða, ef allt annað bregzt?

Það má lengi spyrja svipað, hvað stj. ætli að gera, eða hvað stj. vildi gera.

En kjarni málsins er allt annar. Hann er alls ekki sá, hvað stj. á sínum tíma vill gera, heldur hinn, hvað hún þá getur gert.

Menn verða að gera sér alveg ljóst, hversu komið er. Kommúnistar og Héðinn Valdimarsson sitja beinlínis um hvert færi til að koma Alþfl. í vanda. Eitt bezta snjallræðið er að vekja upp harðvítugar kaupdeilur og vinnustöðvanir á sviði framleiðslunnar, svo þjóðarnauðsyn kalli á aðgerðir ríkisstj. Stj. verður að spyrja Alþfl. Með því kemst hann í mestu klípu. Hann vill umfram allt hanga sem næst þeim, sem völdin hafa, af ástæðum, sem nokkuð eru kunnar, en þorir hinsvegar ekki að gefa kommúnistum höggstað á sér og aðstöðu til að ná fylgi þess fólks, sem búið er að æsa upp til kaupdeilu. Framsfl. að sinn leyti er á vegamótum. Þar geisar styrjöld milli holds og anda. Skynsemin segir, að málefnin sé ekki lengur hægt að leysa með sósíalistum, en tilhneiging ýmsra þingmanna Framsfl. er ákaflega sterk til samvinnu við sósíalista, enda eru nokkrir þessara manna mjög nærri sósíalistum í skoðun.

Þetta ástand er með öllu óþolandi, og það er sjálf stjórnarmyndunin, þ. e. a. s. hvernig um hnútana er búið um stuðning við ríkisstj., sem beinlinis býður bölvuninni heim.

Þegar allt er athugað í senn, svikráð Héðins Valdimarssonar og kommúnista við Alþfl., að handhægasta vopnið til að vinna á sósíalistum er kaupdeilan, og að ríkisstj. á líf sitt undir sósíalistum, þá skilst það bezt, að við stjórnarmyndunina hefir hvorutveggja gerzt í senn, að beinlínis er egnt fyrir æsingamennina um að vekja upp kaupdeilur, og jafnframt girt fyrir, að ríkisstj. geti beitt löglegu valdi til þess að leysa þá lífsnauðsyn þjóðarinnar að skapa vinnufrið í landinu.

Af þessum ástæðum teljum við sjálfstæðismenn vonlaust, að núv. ríkisstj. geti leyst hin örðugu og óvenjulegu viðfangsefni, er hennar bíða. Þau leysir enginn, sem ekkert getur gert nema með leyfi sósíalista, og eru ekki á annara meðfæri en sterkrar ríkisstj., sem stendur föstum fótum í vilja þjóðarinnar um það, að bægja öllum voða frá hennar dyrum með vel athuguðum, varfærnum og réttsýnum, en hiklausum og karlmannlegum átökum hvenær sem með þarf.

Við þetta er svo því að bæta, að í allri álfunni ganga menn eins og á eldsglóðum af ótta við, að heimsstyrjöld brjótist út á hverri stundu. Alstaðar eru menn sammála um, að nú gildi enn, að forystan sé sterk og hendur látnar standa fram úr ermum. Alstaðar eru menn farnir að gera margvíslegar varúðar- og varnarráðstafanir, þ. á. m. að víða að sér lífsnauðsynjum. En hér eru lífsnauðsynjar af skornum skammti, hvað þá annað, og þó aðhefst enginn maður neitt í þeim efnum.

Við sjálfstæðismenn vantreystum þeirri stefnu, er forsrh. hefir lýst yfir, að hin nýja stjórn muni fylgja.

Við teljum stj. myndaða á óþingræðislegan hátt.

Við teljum, að hún sé ekki lýðræðisstjórn. Við teljum, að hún muni ekki einu sinni geta leyst nein venjuleg verkefni á sviði löggjafarinnar, sem máli skipta.

Við teljum, að enn síður geti hún þó leyst hin stórvægilegu og óvenjulegu verkefni, er víst þykir að hennar bíði.

Við teljum, að slík stjórn sé aldrei bær um að fara með völd.

Við teljum, að sízt sé þó nú á slíkt bætandi. Aldrei hefir þörf þjóðarinnar á sterkri stjórn verið jafnaðkallandi og augljós og einmitt nú.

Aldrei hefir jafnveik stjórn farið með völdin í landinu og einmitt nú.

Með þessum rökum berum við sjálfstæðismenn fram þá kröfu, að ný stefna verði upp tekin og nýrri stjórn fengin aðstaða og styrkur til að framkvæma hana.