05.04.1938
Sameinað þing: 16. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (2874)

91. mál, vantraust á ríkisstjórnina

*Jónas Jónsson:

Ég ætla að víkja nokkrum orðum að þeim kommúnistum, sem hér hafa talað. Þó að þessi flokkur sé áhrifalaus, þó að blöð hans séu lítilfjörleg, er þó ekki rétt að láta þessa lítilfjörlegu menn óátalið fara háðulegum orðum um þá ríkisstofnun, Landsbankann, sem þeir hafa hér aðallega gert að umtalsefni. Orðbragð forsprakka kommúnista og árásir á Landsbankann eru hliðstæð því orðbragði, sem þeir hafa um flokksbræður sína í Rússlandi, þessar venjulegu dylgjur um, að þeir séu í útlendri þjónustu og vilji skaða land sitt. Um það þarf ekki að fjölyrða, hvílíka fjarstæðu og andstyggileg ósannindi hér er um að ræða. En ég skal nefna nokkur rök, til að leiða landsmönnum fyrir sjónir, hvað þessir þrír kommúnistar, sem hér sitja á þingi, hafa gert fyrir þjóðina. Ég skal minna á kreppuna 1923, þegar Íslandsbanki sökk. Þá bjargaði núv. þjóðbanki og hélt uppi útveginum. Hefir hann síðan haldið uppi bæði landbúnaði og útvegi hér á landi. Allar ríkisstj., sem setið hafa hér að völdum síðan 1920, hafa haft sitt lánstraust hjá Landsbankanum. Má nærri geta, hvort þessi banki, sem áður var vanræktur, hefði getað áorkað slíku, ef ekki hefðu dugandi og heiðarlegir menn stjórnað honum. Annars má geta þess, að kommúnistar sjást aldrei glaðari en þegar þeir koma út frá Magnúsi Sigurðssyni með víxla sína, eins og litlir fuglar, sem fengið hafa brauðmola úr hendi mannvinar.

Að því er töp Landsbankans snertir, má segja, að leiðasta tap hans er það, sem hann varð fyrir vegna Einars Olgeirssonar, sem misnotaði trúnaðarstöðu sína hjá Síldareinkasölunni, svo að hún tapaði nokkrum hundruðum þúsunda. Er ekki rétt að draga undan þessa sekt, sem Einar Olgeirsson er í við þjóðina.

Frammistaða þessara pilta gagnvart þjóðbankanum, sem verið hefir hjálparhella landsins, er því lík, að erlendir menn, sem vildu spilla lánstrausti landsins, hefðu ekki getað fundið nein áhrifameiri ráð til þess en þau, sem þeir hafa notað.

Þá vil ég víkja að þeim staðlausu stöfum, sem einn kommúnistinn hér var að fara með, um að vinstri flokkarnir hafi haft samvinnu í síðustu kosningum. Það er að vísu rétt, að Alþfl. og Framsfl. höfðu nokkra samvinnu. En ég vil benda hér á það, sem ég sagði þá, að milli mín og kommúnista er ekki til önnur brú en sú, að við erum samlendir. Ég sagði í fyrrasumar norður í Þineyjarsýslu, að ég bannaði þessum mönnum að kjósa mig, þó að þeir kynnu að hafa ætlað sér það, og ég veit ekki betur en að þeir hafi hlýtt því. Þannig er mitt viðhorf til kommúnista, og þannig er viðhorf Framsfl. til þeirra. Það væri skömm, ef Framsfl. hefði bandalag við flokk, sem stjórnað er frá öðru landi, hvort sem það væri Rússlandi eða Þýzkalandi. Ég sé að vísu ekki ástæðu til, að við Íslendingar séum að kasta harðorðum til Rússa, meðan þeir láta okkur í friði. En ég vil gera mitt ýtrasta til að afhjúpa athæfi kommúnista gagnvart þessari þjóð. Og ég get sagt þeim það, að það skal ekki verða hátt á þeim risið, ef þeir ætla að verða í þjónustu erlends ríkis og þykjast jafnframt vera þjóðlegur flokkur.

Út af ræðu hv. þm. Seyðf. í gær, þar sem hann hallmælti mjög gerðardómi í vinnudeilum og taldi það hefði verið harðræði og lýðræðisbrot, að Framsfl. hélt því fram, að það væri helgari rétturinn til að starfa og lifa heldur en til að svelta sig með skipulagsbundinni leti, vil ég benda hv. þm. á það, að alstaðar í lýðræðislöndum í kringum okkur er gripið til gerðardóms, þegar líkt stendur á. Í Noregi hefir það verið gert hvað eftir annað, og nú síðast gerir verkamannastjórnin það að fráfararatriði, ef hún fær ekki gerðardóm í máli, þar sem hún er aðili annarsvegar. Í Danmörku hefir þetta verið gert, og þó sérstaklega í Frakklandi, sem er eina menntaða landið, sem er svo ógæfusamt, að það voru nokkrir kommúnistar, sem höfðu áhrif á stjórn þar í nokkra mánuði, og einmitt vegna þeirrar óstjórnar og upplausnar í atvinnulífinu, sem þessir menn hafa valdið, hefir franska þjóðin neyðzt til að setja harðari löggjöf en nokkur önnur lýðræðisþjóð og hefir orðið að taka menn fasta með lögregluvaldi. Kommúnistarnir hér eins og þar láta sig dreyma um það, að þeir séu menn til að eyðileggja þetta þjóðfélag. Þess vegna er það leitt, að svo merkur maður sem hv. þm. Seyðf. skuli halda slíku fram ofan í alla reynslu og allt vit. Ef hans flokkur hefði verið í eindregnum meiri hluta á þessu þingi og haft stjórn með höndum, þá hefði hann gert nákvæmlega það sama eins og Alþfl. í Noregi hefir gert og er að gera nú.

Þá vil ég að síðustu segja fáein orð út af hinn undarlega hjali kommúnistans hér í kvöld. Þessi snáði leyfir sér að halda því fram, að það sé einhver goðgá, þó gilda eigi lög og reglur um vinnudeilur eins og aðrar deilur. Veit þessi piltur ekki, að það var einu sinni siður í Evrópu, að ræningjar höfðu sömu skoðun á eignarréttinum og hann leyfir sér nú að hafa um vinnudeilur. Það var siðleysistímabil í margar aldir, þegar ræningjar héldu því fram og lifðu eftir því, að lögin ættu ekki að ná til þeirra. Þeir ættu að mega framfylgja ofbeldinu. En hvernig fór? Alstaðar þar, sem þetta hafði viðgengizt, ríkti upplausn og menningarleysi og allt var yfirleitt öfugt við það, sem menn í siðuðum löndum telja dýrmætast.

Þeir menn, sem halda því fram, að ekki eigi að vera vinnulöggjöf, eru svo miklir vesalingar, að það er út frá því einu saman ófært að fjölræða við slíka menn. Þar að auki er það vitað, að deilur um vinnu eru ekkert merkilegri heldur en t. d. deilur um landamerki milli jarða eða um það, hvort einhver læknir, sem hefir skorið í kaun á sjúklingi, eigi að fá peninga fyrir sína aðgerð. Þess vegna geta kommúnistar verið vissir um, að þeir bera ekkert annað í sér en möguleikann um ósigur og fyrirlitningu fyrir allt þeirra vesala brölt til að halda hendi ræningjans yfir vinnusviðum þessa lands. Það er ekki meiningin að láta fólk af þeirra tægi leysa upp hið íslenzka þjóðfélag, enda eru þeir allt of veikir og lítilmannlegir til þess að geta haft minnstu áhrif í þá átt. (EOl) Er það maðurinn úr hásetaverkfallinu, sem talar þannig?). Maðurinn, sem sveik Landsbankann, á ekki að leyfa sér að hafa hér mörg orð.