22.04.1938
Sameinað þing: 22. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (2928)

45. mál, kreppu- og stríðsráðstafanir

*Héðinn Valdimarsson:

Ég hefi haft á prjónunum svipaða till. þessari, en er ég varð þess var, að þessi till. var á leiðinni, hætti ég við að flytja mína. Þó var mín till. meira miðuð við ófrið, sem kynni að brjótast út, en þá kreppu, sem nú virðist vera í aðsigi. Annars virðist svo sem við höfum aldrei komizt út úr síðustu kreppu á sama hátt og nágrannalöndin, svo að við höfum ef til vill ekki eins næma tilfinningu og aðrir fyrir því. að ný kreppa sé nú að hefjast.

Hinsvegar er það ekki afsakanlegt — með tilliti til hins stórkostlega stríðsundirbúnings stórveldanna, sem sýnir, að þau búast við, að stríðið geti brotizt út þá og þegar og jafnvel án nokkurrar stríðsyfirlýsingar, og með tilliti til þess, að nú þegar geisar stríð á tveim stöðum í heiminum —, að stjórnarvöldin skuli ekkert gera til að mæta slíkum atburðum.

Það er sannarlega ekki vanþörf á, að athugað sé, hvernig við stæðum að vígi, ef til styrjaldar kæmi. Margir af okkur, sem sæti eigum hér á þingi og starfað höfum við atvinnuvegi landsins á tímum síðasta stríðs, muna, hvílíkir erfiðleikar þá sköpuðust þjóðinni og hversu hún var illa undir það búin að mæta þeim. Að sumu leyti stöndum við að vísu betur að vígi nú, t. d. að því er snertir aukinn skipaflota landsmanna, en að öðru leyti stöndum við aftur mun lakar að vígi.

Það má raunar segja, að allar ráðstafanir, sem þingið gerir á hverjum tíma, séu að nokkru leyti stríðsviðbúnaður. En þó gegnir nokkuð sérstöku máli, þegar nauðsynin er eins aðkallandi og nú á ráðstöfunum til tryggingar því, að þjóðin hafi nóg af mat, hráefnum, áburðarefnum og slíku, þegar ófriður er á skollinn.

Í till. Kommfl. er ekki minnzt á mikilsvert atriði, sem er það, hvernig hlutleysi okkar myndi verða háttað, ef til stríðs skyldi koma. Í till. þeirri, sem ég hafði undirbúið, var farið fram á það, að ríkisstj. léti rannsaka, hvernig hlutleysi landsins yrði bezt tryggt. Við sjáum, að allar þjóðir láta sig þetta mál miklu skipta, og Norðurlöndin hafa komið á ráðstefnum ráðh. sinna til að ræða þetta mál. Eðlilega vaknar sú spurning, hvort við eigum að gera okkur far um að hafa samband við önnur Norðurlönd um þetta, þó að ég vilji engan dóm á það leggja að sinni. En þetta þarf athugunar við. Í síðasta stríði gátum við t. d. ekki haft neitt samband við Norðurlönd nema með hinum góða vilja þeirra stórvelda, sem í ófriði áttu við Þjóðverja. Gæti því svo farið, að í næsta stríði yrði slitið öllu sambandi okkar við önnur Norðurlönd, og er af því ljós nauðsynin á því, að við yrðum búnir að undirbúa okkur svo vel, að tryggt væri, að þjóðin gæti lifað, hvað sem fyrir kynni að koma.

Ég get að öðru leyti tekið í sama streng og hv. 5. þm. Reykv. En að því er snertir till. hv. 2. þm. Eyf. um að vísa málinu til ríkisstj., eins og þinginu kæmi málið ekkert við, verð ég að lýsa yfir því, að ég er henni andvígur. Þegar síðasta stríð geisaði, þurfti margvísleg heimildarl. til handa stj., og svo mun verða nú. En ég treysti ekki hæstv. stj. einni til að undirbúa slík mál á þann hátt, að þeim sé tryggt það fylgi meðal þjóðarinnar, sem nauðsynlegt er. Auk þess tel ég nauðsynlegt, að þingviljinn komi greinilega fram um þetta mál, hvort sem þessi n. kann að verða kosin þannig, að fulltrúar allra flokka eigi sæti í henni, eða þá með hlutfallskosningu. Vil ég því leggja til, að málinu verði frestað að sinni, svo að hv. þm. gefist kostur á að koma fram með brtt., en málinu sé hinsvegar ekki vísað frá. En verði því vísað frá, mun ég leggja fram mína till., er ég gat um.