10.03.1938
Sameinað þing: 6. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í D-deild Alþingistíðinda. (2996)

26. mál, bátasmíðastöð á Svalbarðseyri

*Flm. (Jónas Jónsson):

Ég býst við, að ekki sé ástæða til að lengja þessar umr. mikið að þessu sinni, því að ef till. verður vísað til n., kemur hún væntanlega aftur fyrir d.

En út af orðum hv. síðasta ræðumanns vildi ég bæta við fáeinum aths. Hann skilur það alveg réttilega, að það, sem fyrir mér vakir með þessari þáltill., er að komast út fyrir dýrtíðina. Hann neitar því ekki, og ekki heldur hv. 3. þm. Reykv., að dýrtíðin stendur í veginum fyrir bátasmiðum hér heima, því að undanfarin ár hefir verið flutt inn mikið af bátum, þrátt fyrir það, að nóg hafi verið til af mönnum hér, sem við bátasmíðar geta unnið. Gleggsta dæmið um þetta er björgunarbáturinn hér við Faxaflóa, sem byggður er fyrir samskot fólksins hér í grenndinni. Vitanlega var hér yfirfljótandi vinnukraftur til þess að byggja bátinn, en niðurstaðan varð sú, að Reykjavík gat ekki byggt hann, þó að hún hafi lagt fram peningana. Akureyri gat það ekki heldur, og því var farið með hann úr landi og vinnan framkvæmd þar, vegna þess að enginn staður hér á Íslandi, sem til greina gat komið í þessu sambandi, var nógu ódýr. Það er þess vegna ekki fyrir okkur að vera að slást um það innbyrðis, hvort slík vinna sem þessi sé framkvæmd á þessum eða hinum staðnum, því að eins og stendur virðist hún vera að hverfa út úr landinu.

Það hefir alltaf verið framtíðardraumur, að hægt væri að búa til stað, sem unnt væri að halda fyrir utan dýrtíðina. Ég skal ekki fara langt út í það efni að sinni, en aðeins drepa á það, að þegar boðið var í Óðin, þá var Akureyri 25% ódýrari heldur en Reykjavík, og á því var útboðið byggt. En samt sem áður hefir Akureyri þessi dýrtíðareinkenni, sem ég hefi nefnt og hv. þm. bæjarins hefir ekki mótmælt. Mundi þá ekki staður, sem er ódýrari heldur en Akureyri, hafa möguleika til að vinna enn ódýrar? Nú býst ég við, að ef það reyndist svo, að ekki væri hægt að fá viðunandi samninga um þetta land, sem bæði ég og hv. þm. Ak. erum sammála um, að muni fást, þá eru náttúrlega til margir aðrir heppilegir staðir, — að vísu ekki með eins góðum skilyrðum og þessi, þ. e. a. s. að vera nærri bæ með góðum samgöngum og verksmiðjum. Það er mjög mikils virði fyrir svona stað að vera nærri bæ eins og Akureyri og Reykjavík, aðeins ekki svo nærri, að hin óeðlilega dýrtíð nái þangað.

Út af ræðu hv. 3. þm. Reykv. sé ég ekki ástæðu til að segja mikið. Hann og eins hv. þm. Ak. virðast gera ráð fyrir því, að kaup á svona stað hlyti alltaf að fara upp í það sama og á dýrari stöðum. En það er þveröfugt við reynslu veraldarinnar. Og vitanlega yrði það hér eins og annarsstaðar. — Í þessu sambandi skal ég geta þess, að einn maður hér, sem er sérstaklega mikið fræðilega riðinn við útveg og sjómennsku, hefir haldið því fram, að af öllum þeim síldarverksmiðjum, sem byggðar hafa verið hér á landi, sé Djúpavík heppilegust og bezt sett. Og af hverju? Ég ætla ekki að svara því sjálfur; það er gáta fyrir hv. þm. Djúpavík er að vissu leyti svipað sett og Svalbarðseyri, og verr þó, því að ekki er mikil ræktun þar í kring. Það er sem sagt ekkert því til fyrirstöðu, að staður, þar sem iðnaður er rekinn, sé nokkuð einangraður, ef hann bara er rétt valinn.

Ég hefi þá notað minn ræðutíma við þessa umr., og mun láta þar við sitja, hvernig fer um þessa till., hvort hún verður samþ. til síðari umr. og n. eða ekki. En ég býst við, að hún hafi í sér fólginn þann lífskraft, að hún muni þá rísa upp aftur að nýju.