24.03.1938
Sameinað þing: 8. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í D-deild Alþingistíðinda. (3028)

55. mál, sjúkrasamlög

*Jóhann Jósefsson:

Það var rétt hjá hv. þm. Seyðf., að ég hafði — hvort sem það var rétt áður eða samtímis því, að þessi till. var borin fram hér í sameinuðu þingi — lagt fram fyrirspurn í hv. Ed. til þáv. atvmrh. um það, hvernig á því stæði, að í Vestmannaeyjum og á Ísafirði hefðu ekki verið skipaðir formenn sjúkrasamlaga samkv. till. n., þó að vitað væri, að þetta hefði verið gert í öðrum kaupstöðum landsins. Hv. þm. Seyðf. vildi nú gera eitthvað mikið úr því, að þetta „aðrir kaupstaðir“ hefði verið rangt hjá mér, því að það hefði ekki verið búið að skipa nema í einum kaupstað sjúkrasamlagsformann. Og hv. þm. sagði, að hv. flm. þessarar þáltill., sem er samflokksmaður minn, og ég hefðum ekki borið okkur saman um þetta atriði. Það er rétt, við bárum okkur ekki saman um þetta. En ég álít það í sjálfu sér ekkert aðalatriði, hvort fyrrv. ráðh. var búinn að skipa formenn sjúkrasamlaga í fleiri en einum kaupstað landsins eða bara einum. Það virðist vera, þegar ég ber mína fyrirspurn fram, að þá sé hann búinn að skipa eftir till. tryggingarráðs slíkan formann í einum kaupstað. Svo að þessi mikla villa, sem hann vill gera úr mínu orðalagi á fyrirspurninni, er, að það, sem ég vildi hafa í fleirtölu, það hefði mátt vera í eintölu. En þetta er svo lítilfjörlegt hálmstrá fyrir þennan hv. þm., að það er furða, að hann skuli reyna að fleyta sér á því í þessu máli. Nei, hér er um að ræða, hvort þessi hv. þm., meðan hann var ráðh., hafði tilhneigingu til þess að fara eftir l. eða ekki. Og það er sýnt með þessu dæmi, og reyndar fleirum, að þegar honum hentaði það ekki pólitískt skoðað, að fara eftir l., þá hafði hann sterka tilhneigingu til þess að virða l. að vettugi. Hv. þm. komst svo að orði, að þó að það stæði í l. „eftir tillögum tryggingarráðs“, þá þyrfti það engan veginn að þýða það, að hann sem ráðherra þyrfti að fara eftir því, a. m. k. ekki fyrstu till. Ég skal fyrst geta þess, að þau ár, sem ég hefi verið þm., hefi ég í fjöldamörg skipti verið áheyrandi þess, að rifizt hefir verið út af samningu l., um það, hvort standa skyldi í þeim, þegar um svipuð ákvæði hefir verið að ræða og það, sem hér um ræðir. að einhver aðili hefir átt að benda á mann í starf eða embætti, sem ráðh. ætti svo að nafninu til að skipa, þá hefir oft og tíðum verið mjög um það deilt, hvort skyldi standa í l. „að fengnum tillögum“ eða „eftir tillögum“. Mér hefir virzt menn leggja í þetta ákaflega mismunandi skilning. Margir, og ég held flestir, skilja orðalagið „að fengnum tillögum“ þannig, að þá væri stj. ekki eins bundin við að fara eftir tilnefningunni eins og þegar stæði „eftir tillögum“. En þegar stæði „eftir tillögum“, þá væri alveg skylt fyrir stj. að fara eftir till. Enda sýnist það vera eðlilegast, að svo sé. Ég veit ekki, hvaða orðalag ætti að tryggja betur, að veitingarvaldið að öðru leyti en að forminu til er í þessu dæmi, sem hér liggur fyrir, í höndum tryggingarráðs, heldur en einmitt þetta orðalag „eftir tillögum“ tryggingarráðsins. Eða hvaða orðalag gæti það þá verið? Það mætti kannske standa í l. (en það væri dálítið barnalegt), að ráðh. væri skyldur til að skipa þá menn, sem tryggingarráð bendir á. En það er það, sem hver heilvita maður hlýtur að skilja við orðalagið „eftir tillögum“. En svo kemur hv. þm. Seyðf. með þá nær því barnalegu og a. m. k. ákaflega broslegu uppástungu, að ráðh. þurfi ekki endilega að fara eftir fyrstu till., það megi biðja um aðrar. Og hvers vegna þá aðrar? Af því að þessi hv. þm., meðan hann var ráðh., fellir sig ekki við, að það sé þessi stofnun, en ekki hann, sem ræður. Hvað lengi gæti það gengið, ef ríkisstj. ætti að geta hagað sér þannig eða framkvæmdarvaldið yfir höfuð, þegar löggjafinn bendir á sérstakan aðilja, sem eigi að gefa stj. þær bendingar, sem hún á að fara eftir, að biðja um slíkar ábendingar, þangað til loks búið væri að benda á þann eða þá, sem falla viðkomandi ráðh. í geð. Þetta er svo vandræðalegt yfirklór hjá hv. þm. Seyðf. fyrir þessa misbeiting valdsins, sem hv. fyrrv. atvmrh. virðist vera að reyna að verja, að það tekur því varla að eyða tíma í að tala um slíkt yfirklór. Það er eins og hv. þm. Seyðf. hafi ætlazt til, að þarna í tryggingarráðinu risi upp eða fyndist einhver „Nygren“ til þess að gefa þau ráð, sem honum væru meira að skapi heldur en fyrstu till. tryggingarráðsins. Það er annars dálítið brosleg kaldhæðni örlaganna, að þeir menn, sem skreyta sig frammi fyrir almenningi með lýðræðisnafninu og einna mest gera að því og þeirra útsendarar að búa til úr öðrum mönnum harðstjóra og diktatora, skuli einmitt koma fram í sínum embættisrekstri eins og hv. þm. Seyðf. gerði í þessu máli meðan hann var ráðh. En hvað sýnir þetta? Ekkert annað en það, að í hugum slíkra manna ríkir ekkert annað en harðstjórnartilhneiging„ það, að fara sínu fram, hvað svo sem lög og réttur segja.

Hv. þm. Seyðf. var með einhver svigurmæli um það, að sá maður, sem meiri hl. tryggingarráðs benti á sem formann sjúkrasamlagsins í Vestmannaeyjum, mundi ekki vera þess umkominn að koma fjárreiðum þess í það horf, sem æskilegt væri. Ég skal ekkert um það segja, hvaða álit hv. þm. Seyðf. hefir á þeim manni, sem tilnefndur var þar, sem er Ástþór Mattíasson, formaður bæjarstj. og forstjóri stórs iðnaðarfyrirtækis í Eyjum. En ég veit ekki til, að hv. þm. Seyðf. geti bent á neitt sérstakt í fari þess manns, sem réttlæti þau ummæli hans, að þessi maður sérstaklega geti ekki, að svo miklu leyti sem það stendur í valdi formanns sjúkrasamlagsins, komið fjárreiðum samlagsins í æskilegt horf. A. m. k. segi ég þó það, að þeir fjármálaspekingar í Vestmannaeyjum, sem eru hv. þm. Seyðf. fylgjandi pólitískt, eru ábyggilega ekki færari í þetta starf heldur en sá maður, sem meiri hl. tryggingarráðs tilnefndi. En ég get mér þess nú til, að það hafi vakað fyrir þessum góða manni meðan hann var atvmrh., að reyna að nota sitt vald til þess að fara þvert ofan í till. meiri hl. tryggingarráðs og nefna formann sjúkrasamlagsins eftir sínu höfði. En það er hreinasta óhæfa að haga sér þannig. Og þó að þetta mál sé, eins og hv. þm. S.-Þ. tók fram, í sjálfu sér ekkert stórmál, þá getur það verið nógu ónotalegt fyrir þær stofnanir, sem fyrir þessu verða, að lenda í þessu millibilsástandi og glundroða og árekstrum. En stórmál er þetta mál þó að því leyti sem af atvmrh. er traðkað á löggjöf frá hæstv. Alþ.

Það getur vel verið, að erfiðleikar samlagsins í Vestmannaeyjum séu meiri en erfiðleikar samlagsins á Ísafirði. Ég skal ekkert um það segja; ég hefi ekki kynnt mér það ýtarlega. En það eru engin undur, þó að á ýmsum stöðum komi fram bernskusjúkdómar hjá sjúkrasamlögunum og þeir hafi reynzt sumstaðar nokkuð erfiðir. T. d. vildi svo til í Vestmannaeyjakaupstað, að næstfyrsta árið, sem sjúkrasamlagið starfaði þar, þrefaldaðist legudagatala sjúklinga á sjúkrahúsum. Árið 1935 voru legudagar 3800 en árið 1937 voru þeir 9500. Þá var samlagið búið að starfa, a. m. k. að nafninu til, í 14 mánuði. Þetta út af fyrir sig gefur dálitla hugmynd um, hversu mikið hafa aukizt útgjöldin fyrir sjúkrasamlagið í Vestmannaeyjum vegna sjúklinga, bara á þessum eina lið, spítalalegunni. Þar með er þó ekki nærri allt sagt. En um rekstur þessa sjúkrasamlags hefir hinsvegar verið gefin skýrsla til yfirstjórnar tryggingarmálanna. Og ég veit ekki til, að komið hafi fram frá þeirri yfirstjórn eða læknum samlagsins nein svo fordæmandi krítik á stjórn þessa samlags, að það geti réttlætt það, að fyrrv. atvmrh. dró á langinn eða neitaði að skipa formann samlagsins, eins og til var ætlazt að lögum. Ég spurði með fyrirspurn minni í hv. Ed., hvers vegna þessi formaður hefði ekki verið skipaður samkv. till. tryggingarráðs, eins og lög standa til; í fullri einlægni spurði ég að þessu. Hv. þm. Seyðf, getur náttúrlega gert orðalagið á minni fyrirspurn að umtalsefni eins og honum sýnist. En hann ætti að gæta þess, að það er bara ekki sú fyrirspurn, sem liggur fyrir til umr. hér nú í Sþ., heldur þáltill., sem hv. 6. þm. Reykv. flytur. Og mér skildist á hv. þm. Seyðf., að hann gæti ekki fundið neitt að forminu á þessari þáltill. Það, sem fyrst og fremst liggur hér fyrir, er, að hv. þm. Seyðf., meðan hann var ráðh., fór algerlega í bága við fyrirmæli l. Þar sem honum þóknast ekki eitthvað persónurnar, sem tilnefndar eru í þessi störf, gengur hann alveg á snið við vilja Alþ. og breytir svo sem það, sem mest beri að meta í þessum efnum, sé geðþótti ráðh. Þetta dæmi er, því miður, ekki það eina, þar sem hv. þm. Seyðf., meðan hann var ráðh., hagaði sér þannig. Það er náttúrlega ósköp notalegt og þægilegt af þeim, sem fara með völd í landinu, að þeir leggi l. út eftir sínum geðþótta og segi svo við þá, sem fyrir óréttinum verða: Farið þið bara í mál. Þið getið látið dómstólana skera úr þessu. — Þegar hægt er fyrir þingið að leiðrétta slíka misbeitingu valdsins, hlýtur það undir öllum kringumstæðum að gera það.

Ef leggja á trúnað á það, sem hv. þm. Seyðf. var að tala um, að það hefði verið af umhyggju fyrir hag sjúkrasamlagsins í Vestm.eyjum, að láta það liggja eins og vængbrotna álft í marga mánuði, þá verð ég að segja, að það er alleinkennileg aðferð til þess að koma fjárreiðum þess í gott horf, að láta ekki fullkomlega löglegar ráðstafanir fá eins fljótt lagagildi og ætlazt er til. Það gefur ekki hv. þm. Seyðf. þann vitnisburð, að hann muni geta komið lagi á rekstur fyrirtækja, ef hann heldur, að það sé ráðið, að láta þau vera utangátta og ekkert vita um, hverjir eigi að stjórna þeim eða sjá um hag þeirra.

Ég er sammála hv. þm. S.-Þ. um, að slíka aðferð eigi þingið ekki að þola. Þá væri óhætt að sleppa framvegis úr lagasetningu klásúlu eins og þessari „að fengnum tillögum“ þessa eða hins aðiljans, og leggja í hendur stj. algert einveldi um framkvæmd l., en mér segir svo hugur um, að þm. mundu lítið kæra sig um slíkt, og ég held, að þegar búið er að ákveða framkvæmd á einhverri löggjöf, verði að halda stj. að því að fara eftir þeim fyrirmælum.