12.04.1938
Sameinað þing: 20. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

1. mál, fjárlög 1939

Jón Pálmason:

Það var út af þessari síðustu ræðu, sem ég fór fram á það við hæstv. forseta að fá að segja örfá orð til viðbótar.

Hv. 1. þm. Skagf. var að tala um það, að ég væri með gamlar lummur og gjamm frá þingmálafundum, og að mér væri nær að fara norður í mitt kjördæmi og segja sannleikann um launamálin. Ég vil nú segja bæði honum og öðrum, sem hugsa á svipaðan veg, að í mínu kjördæmi og hvarvetna annarsstaðar á landinu, er það ekki talið heilbrigt, að gerður sé slíkur munur á kjörum manna eins og nú á sér stað í því, hvernig launin eru hjá ýmsum stofnunum ríkisins annarsvegar og hvernig búið er að framleiðendum landsins hinsvegar. Skal ég í þessu sambandi taka það fram, að þessi hv. þm. hefir í föst laun 5 þús. kr., þar að auki hefir hann 3 þús. kr. í húsaleigu og 2 þús. kr. í risnu. Svo er hann í veiðimálanefnd, hér á Alþ. og er nú nýbúinn að fá starf í þessari nýju launamálanefnd. Ég geri þess vegna ráð fyrir, að þessi hv. þm. hafi milli 10–20 þús. kr. árstekjur, og ég vil segja honum það, að ef hann getur komið því til leiðar, að hagur manna almennt í landinu, framleiðenda og annara, verði sniðin í samræmi við þessi laun hans, skal ég vera ánægður, því að vissulega væri ég ánægðastur með það, að hægt væri að borga sem hæst laun yfirleitt, en það er því aðeins hægt, að það sé í samræmi við fjárhag þjóðarinnar, atvinnurekstur og getu þeirra framleiðenda, sem allur okkar fjárhagur byggist á.