28.02.1938
Neðri deild: 10. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Flm. (Bjarni Bjarnason):

Í landinu eru til nú þegar 5 húsmæðraskólar í sveitum, sem geta haft rúmlega 100 nemendur samtals. Í frv. þessu er gert ráð fyrir tveim ákveðnum stöðum í viðbót við þá, sem fyrir eru, þar sem einnig skuli reisa húsmæðraskóla. Líka er hér gert ráð fyrir, að fleiri slíkir skólar kunni að verða reistir í framtíðinni. Það er því ástæða til að lögfesta eitthvað um þessa skóla. Má benda á í því sambandi, að rekstrarstyrkur þeirra húsmæðraskóla, sem þegar eru til, sem ríkissjóður veitir, er af handahófi. En í þessu frv. er gert ráð fyrir ákvæðum um það í l., hve mikill rekstrarstyrkur skuli vera veittur þessum skólum, með hliðsjón af lágmarkstölu nemenda og hámarkstíma, sem skólinn starfar árlega, og er þá ætlazt til, að rekstrarstyrkur sé hafður í hlutfalli við tímalengd skólanna. Um stofnkostnað þessara skóla hafa hér verið sett samskonar ákvæði og gilt hafa um héraðsskóla, að helmingur stofnkostnaðar greiðist af ríkissjóði, eftir því sem fé er veitt til þess í fjárl., en hinn helmingurinn á að greiðast annarsstaðar að. Ég geri ráð fyrir, að ekki sé ágreiningur um, að þessi atriði þurfi að ákveðast í l. Hinsvegar má það vel vera, að það, sem farið er fram á í þessu frv. að því er snertir rekstrarstyrk til skólanna, sé ekki algerlega rétt ákveðið, þar sem reynslu vantar eiginlega til þess að þetta verði ákveðið með nokkurn veginn vissu um, að það sé hæfilegt.

Að því er snertir þessa tvo staði, sem nefndir eru í þessu frv., sem eru Laugarvatn í Árnessýslu og Reykholt í Borgarfirði, vil ég geta þess, að Suðurlandsundirlendið hlýtur að verða næst í röðinni um að fá húsmæðraskóla, og í því efni er þar þegar hafinn undirbúningur. Og ég geri ráð fyrir, að komi — og það er enda komin allhörð krafa um, að í fjárl. fyrir árið 1939 verði tekin fjárhæð til þess að byrja byggingu á húsmæðraskóla fyrir Suðurlandsundirlendið. Samband sunnlenzkra kvenna hefir gert töluvert í þessu máli. Það hefir gert till. um það, hvar skólinn skuli verða reistur og ennfremur skrifað sýslunefndum Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslna um þetta mál og farið fram á, að þær sýslur leggi fram fé til þess skóla. Sýslun. Árnessýslu hefir þegar ákveðið nokkra fjárhæð á fjárhagsáætlun í þessu skyni. En sýslun. hinna sýslnanna mun ekki hafa ákveðið, hvernig þær snúist í málinu, enda er þetta mál ekki lengra komið en svo, að óþarfi er að æðrast um, þó þær hafi enn ekki tekið þessa afstöðu. Vænta má, að þær sýslur taki vel í þessa málaleitun um að vera með í að reisa á Suðurlandsundirlendinu slíkan skóla. Þá er hér gert ráð fyrir fyrirkomulagi um námsgreinar, að veitt verði allýtarleg kennsla, bæði í verklegum og bóklegum greinum. Ennfremur, hvernig skólaráð skuli skipað og svo í stuttu máli, hvernig hagað skuli til í öllum atriðum, sem virðast koma til greina.

Þá er II. kafli þessa frv. um húsmæðrakennaraskóla. Að vísu geri ég ráð fyrir, að það mál þyldi frekar bið heldur en almenna húsmæðrafræðslan, þó að ennþá þurfi að vísu að sækja slíka menntun til útlanda, sem þessum skóla er ætlað að veita. Er sjálfsagt að stefna að því, að skóli til þess að mennta húsmæðraskólakennara eða forstöðukonurnar verði einnig stofnaður og rekinn hér í landinu. Það er því nauðsyn að styðja að slíkri kennslu, þar sem vitanlegt er, að um allt landið er auk húsmæðraskólanna, fjöldi námskeiða, sem kvenfélagasambönd gangast fyrir og hafa á sér einróma lof að því leyti sem ég bezt veit. Og ef þetta, húsmæðraskólar með húsmæðranámskeiðum og sérstakir húsmæðrakennaraskólar, væri allt til staðar í landinu, þá tel ég, að okkar húsmæðrafræðsla gæti komizt í allgott horf.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fara um frv. fleiri orðum við þessa umr. Þetta frv. er h. u. b. óbreytt frá því frv., sem flutt var um þetta efni á síðasta þingi. Þá var því frv. vísað til landbn. Ég varð að vísu var við, að einstökum mönnum í þeirri n. þótti frv. gallað, og sú hv. n. gerði litið til þess að afgr. málið þá. En vegna þess að litið hefir verið á þessa skóla sem hliðstæða bændaskólunum, og ennfremur af því, að í þessu frv. er gert ráð fyrir, að þessir skólar heyri undir landbrh., þá vil ég eindregið gera ráð fyrir, að þessu frv. verði vísað til hv. landbn., og fastlega vænta þess, að sú n. taki málið fyrir og sýni því meiri áhuga og velvilja heldur en á síðasta þingi.