19.03.1938
Neðri deild: 29. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

12. mál, skemmtanaskattur

*Jón Pálmason:

Þetta litla frv., sem hér liggur fyrir, virðist í fljótu bragði vera meinlaust og sanngjarnt, eins og það er fyrst fram borið, að ungmennafélagasamböndin skuli undanþegin þessum gjöldum. En þegar betur er að gætt, getur þetta verið vafamál.

Ég lít svo á, að skemmtanaskatturinn sé það skattgjald, sem sé með þeim eðlilegustu, og það af því, hve langt er gengið á ýmsum sviðum með allskonar skemmtanir hér á landi, og ef opnuð eru þessi l. fyrir ungmennafélögunum, þá er ekki hægt að mótmæla því, að það væri jafneðlilegt að undanþiggja skemmtanaskatti ýms önnur félög, svo sem lestrarfélög, kvenfélög o. fl. félög, sem þarna gætu komið til greina. Ég held þess vegna, að það sé talsvert hæpið að fara inn á þessa braut, því að það leiddi til þess, að opnun l. yrði meiri en ástæða væri til, sérstaklega vegna þeirra sveitarfélaga, sem hlut eiga að máli. Ég mun þess vegna greiða atkv. gegn þessu frv. af þeim ástæðum, sem ég hefi þegar lýst.