19.03.1938
Neðri deild: 29. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

12. mál, skemmtanaskattur

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, snertir ekki skemmtanaskattsgreiðslu í ríkissjóð. Hv. 3. þm. Reykv. kvartaði yfir því, að skemmtanaskatturinn hefði verið hækkaður, svo að erfitt væri að halda uppi skemmtanalífi af þeim ástæðum. — Ég skal geta þess í sambandi við það, sem kom fram hjá hv. þm., að skemmtanaskatturinn var að vísu hækkaður á síðasta þingi um 11%, eins og aðrir skattar, en það hefir verið breytt dálítið til um framkvæmd á innheimtu skemmtanaskattsins, sem hefir valdið hækkun hans í framkvæmdinni á ýmsum tegundum skemmtana. Ég get ekki farið nákvæmlega út í þetta hér, en þetta liggur í því, að það var heimilt með reglugerð að taka skattinn eftir þeim stundafjölda, sem skemmtunin stóð yfir. Sú heimild var afnumin um síðustu áramót, og var þá ákveðið, að skatturinn skyldi greiddur eftir verði aðgöngumiðanna, eins og l. gera ráð fyrir. Efir þessu hefir verið kvartað til fjmrn. af félögum í bænum, sem hafa með höndum skemmtanir, íþróttafélögum aðallega. Líkt hefir heyrzt úr verkalýðsfélögum. Höfum við talað um, hvort ástæða sé til að breyta að einhverju leyti þessari framkvæmd. Vildi ég beina því til hv. 3. þm. Reykv. að gefa tóm til þess, að sú athugun fari fram. Það mun vera aðallega þessi breyt. á innheimtuaðferðinni, sem hefir orðið til að valda þessum þyt um þetta mál í bænum. Ég verð að segja, að út af fyrir sig finnst mér ekki svo voðalegt, þó að lagður sé nokkur skemmtanaskattur yfirleitt. Ég held, að menn sæki skemmtanir, þó að eitthvað hækki aðgöngumiðar; og margt er skattað, sem síður er ástæða til. En annars er þetta skemmtanaskattsmál til áthugunar í ráðuneytinu, og verður innan skamms skorið úr, hvort nokkur breyting verður gerð á þessari framkvæmd eða ekki.