28.03.1938
Neðri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

19. mál, bókhald

*Ísleifur Högnason:

Ég heyrði ekki nein rök færð fyrir því hjá hv. síðasta ræðumanni, að lausblaðabækur þyrfti endilega að nota sem viðskiptamannabækur. Hann sagði, að þær væru miklu hentugri og að þeirra yrði saknað af mörgum, sem hefðu tekið þetta kerfi upp. Þessu er til að svara, að það er á engan hátt hentugra fyrir verzlunarfyrirtæki að hafa lausblaðabækur. Þær munu vera dýrari en venjulegar innbundnar viðskiptamannabækur. En aðalókosturinn við þessar lausblaðabækur er sá, að viðskiptamennirnir geta ekki á hvaða tíma sem er verið eins öruggir um að sjá einmitt þann rétta reikning. sem þeir eiga að sjá í bókum verzlunarinnar. Þeir fá venjulega ekki nema einu sinni á ári útskrift af reikningnum, og ég veit þess dæmi, einmitt þar sem um lausblaðabækur var að ræða, að heilar síður hafi verið teknar út og umskrifaðar til þess að geta sýnt annað en upphaflega var í þær skrifað. Það er rétt, að með langri yfirlegu má finna það í aðaldagbók, ef fölsun kemur fyrir í viðskiptamannabókum, en viðskiptamaðurinn á ekki hægt með að finna það, en sínum eigin reikningi hefir hann aðgang að, og ef reikningurinn er í tölusettri og innbundinni viðskiptamannabók, getur hann á hvaða tíma sem er haft yfirlit yfir, hvernig reikningurinn stendur. Ég legg því til, að þessi brtt. nái fram að ganga og verði lögfest.