29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

*Ísleifur Högnason:

Það er aðeins það, sem ég vildi segja, að ég held, að það kenni nokkurs misskilnings hjá hv. síðasta ræðumanni, að því er snertir þetta atriði. Ef hann gæti sýnt það með tölum, að af 10 þús. kr. tekjum yrði að borga endanlega hærri upphæð í Vestmannaeyjum en í Rvík, þá gæti ég fallizt á, að það væru nokkur rök, en með því að hann fer aðeins eftir skattstiganum, sem lagður er til grundvallar, áður en dregið er frá eða aukið við, þá eru það engin frambærileg rök fyrir hans máli. Ef hann getur sýnt fram á, að hin endanlegu útsvör, eftir að búið er að draga frá eða bæta við, séu hærri í Vestmannaeyjum en í Rvík, Hafnarfirði eða Ísafirði, þá myndi ég taka það til greina. Ég staðhæfi, að útsvörin í Vestmannaeyjum séu ekki hærri, miðuð við tekjur og eignir, en í hinum kaupstöðunum.