25.04.1938
Efri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

69. mál, togaraútgerðarnefnd

*Jóhann Jósefsson:

Ég vil þakka hæstv. atvmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefir gefið, og skil svar hans þannig, að það sé og hafi verið hans fasti ásetningur að stilla svo til, að n. störfum verði hagað svo sem ég nefndi, þannig að niðurstöður n. geti legið fyrir næsta Alþ.

Það er satt, sem hæstv. ráðh. segir, að það starf, sem n. er ætlað að vinna, er mjög umfangsmikið. En þó vil ég geta þess, að þær rannsóknir, sem þegar hafa farið fram. munu að sjálfsögðu geta stórlega létt undir þann hluta af starfi n., sem snertir athugun á hag togaraútgerðarfélaganna. Hitt — að gera till. um framtíðarfyrirkomulag — er náttúrlega mikið vandamál, að því leyti til, að n. þurfi að verja mjög miklum tíma í að bollaleggja þær leiðir, því að mér segir satt að segja svo hugur um, að það muni fara svo í í manna n., sem kosin er af Alþ., og er því pólitísk, að menn verði ekki sammála, og að þess vegna verði þýðingarlítið að verja allt of löngum tíma í það að bræða saman skoðanir manna í þeim efnum, þó að náttúrlega sé sjálfsagt að gera til þess heiðarlegar tilraunir. Ég er þess vegna, hvað þetta atriði snertir, sjálft starf n., ánægður með yfirlýsingu hæstv. ráðh., og álít þar með mínum fyrirvara fullnægt.

En ég vil að síðustu láta í ljós þá ósk og von, að þessi rannsókn n., sem starfar undir handleiðslu hæstv. ríkisstj., megi verða til þess. að næsta Alþ. geti gert ráðstafanir til varanlegra hagsbóta fyrir þessa grein útgerðarinnar. En svo vil ég bæta því við, að það eru aðrar greinar útgerðarinnar, sem bíða úrlausnar og alls ekki þurfa að bíða eftir niðurstöðum þessarar n., og ég vil í lengstu lög vona, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að taka að einhverju verulegu leyti til greina þær kröfur, sem komið hafa fram frá útvegsmönnum almennt, um kjarabætur útveginum til handa, áður en þessu þingi lýkur, alveg án tillits til þeirrar rannsóknar, sem þetta sérstaka frv. fer fram á.