04.04.1938
Efri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

46. mál, samvinnufélög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Mér skilst, að sú breyt., sem hér er farið fram á, sem sé sú, að réttinn til að senda fulltrúa bæði á aðalfund samvinnufélaga heima fyrir, og eins rétt einstakra samvinnufélaga til að senda fulltrúa á aðalfund SÍS, megi hér eftir eitthvað láta takmarkast við umsetningu félaganna — mér skilst, að þessi till. til breyt. geti verið sprottin af tveim gerólíkum rótum. Mér hefir ekki orðið ljóst undir umræðunum, af hvaða rót hún er runnin, en það er aðalatriðið fyrir mér. Ef hún er runnin af þeirri rót, að á bak við liggi sú hugsun, að þau félög, sem hafa mest viðskipti, fái meiri rétt heldur en hin, sem minni hafa við SÍS, þá er ég algerlega á móti breyt., því að ég vil ekki með nokkru móti stuðla að því, að samvinnufélögin í landinu færist meir yfir í snið hlutafélaga og láti krónurnar ráða, en ekki mannvit og mannréttindi. En ef þessi breyt. er aftur á móti sprottin af því, að á bak við hana felist sú hugsun, að útiloka það, að menn geti talið sig í einhverju félagi, þó að þeir skipti ekkert við það, til þess að koma fulltrúum inn á sambandsþing og reyna að hafa áhrif á gang mála þar, og ef til vill með því spillt fyrir þeirri heild, sem fyrir félaginu stendur, þá er ég henni sammála. Ef setja á ákveðið lágmark, þannig að þeir, sem minnst skipta við félögin, fái ekki leyfi til að senda nema takmarkaða tölu fulltrúa á aðalfundi SÍS, þá er ég með breyt. Ég vil ekki styðja að því, að á fundum samvinnufélaganna sé það krónutalan, sem ráði, en ekki mannvitið. Ég mun ekki styðja að því, og þess vegna samþ. ég ekki breyt., eins og hún liggur fyrir, en ef styðja á að því, að útiloka málamyndarfélög og félaga frá því að senda fulltrúa á fundina, þá er ég fullkomlega samþykkur því, og verði frv. komið í það horf, að greinilegt sé, að það sé meiningin með því, þá er ég frv. fylgjandi.