28.12.1939
Sameinað þing: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

1. mál, fjárlög 1940

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það hefir orðið að samkomulagi með mér og frsm. fjvn., að ég segi nokkur orð um lið 33 í brtt. fjvn. Þetta er um að ábyrgjast gagnvart Landsbanka Íslands fyrir Útvegsbanka Íslands h/f kr. 4792092,25, sem er skuld Útvegsbankans.

Það eru tildrög þessa máls, að árið 1928, er gert ráð fyrir, að Íslandsbanki, sem þá var, dragi inn seðla sína. Það er ákveðið með reglugerð, hvernig skuli miðað við gildi gulls. Nú var það, að þegar lögin um Útvegsbankann voru sett 1930, var ákveðið, hvernig seðlaútgáfa skyldi fara fram eftir fyrirmælum ráðherra. Þessu fylgdi sú kvöð, að Útvegsbankinn átti að draga inn seðla sína og afhenda um leið gullforða sinn til Landsbankans með ákveðnu verði. Nú hefir það verið svo, að um mörg ár hafa menn ekki treyst sér að setja endanleg fyrirmæli um inndrátt þennan, og ef Landsbankinn hefði fengið seðlana með því verði, sem ákveðið var 1928, hefði Útvegsbankinn orðið fyrir verulegu tjóni, af því að verðið var svo miklu lægra síðustu árin. En það var ákaflega hvumleitt að láta málið standa þannig, að þessi seðlainndráttur skyldi ekki fara fram og að Útvegsbankinn skyldi hafa seðlaútgáfu með höndum með annari starfsemi sinni. Þess vegna kom ríkisstj. því í framkvæmd, sem lögin ætluðust til, að seðlar Útvegsbankans og Íslandsbanka yrðu dregnir inn og Landsbankinn tæki við gullforðanum. Þetta þótti óhugsandi, nema með því móti, að Landsbankinn félli frá því, að fá gullið með því verði, sem ákveðið var 1928, heldur með því verði, sem var á gulli þegar þessi framkvæmd var gerð. Eftir allmikla samninga um þetta fram og aftur tókst samkomulag á þeim grundvelli, að Landsbankinn félli frá þeim rétti, sem hann átti samkv. l. frá 1928, og kæmi þar í móti, að ríkissjóður tæki ábyrgð á þeirri skuld, sem Útvegsbankinn var í við Landsbankann um áramótin 1938–1939. (JJós: Er ekki ríkið í ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum Útvegsbankans?). Nei, það eru nokkrar, sem ríkið er ekki í ábyrgð fyrir, og þessi er ein af þeim. Ég held, að ég muni það rétt, að það yfirverð, sem Útvegsbankinn fékk fyrir gullið og Landsbankinn raunverulega afsalaði sér, hafi verið 1½ millj. króna. Má í þessu sambandi einnig geta þess, að gullforðinn hrökk ekki alveg til þess að mæta inndregnu seðlunum, og varð þá samkomulag um, að Landsbankinn keypti víxla af Útvegsbankanum, sem nam þeim mismun. Ennfremur varð að samkomulagi, að Landsbankinn lækkaði vexti af þessum víxlum og eldri skuld Útvegsbankans um 1%. Gegn þessu tók ríkisstj. að sér að leggja til við Alþ., að það samþ. þessa ábyrgð, eins og áður var fram tekið.

Ég vænti þess, að þetta sé nægilegt til að skýra þetta mál, og vænti þess, að Alþ. geti fallizt á að samþ. þessa ábyrgð. (JJós: Þýðir vaxtalækkunin í framkvæmd ekki það, að Útvegsbankinn þurfi ekki framvegis að taka hærri vexti en Landsbankinn?). Þetta myndi ekki hafa nein áhrif á það, því að Útvegsbankinn varð fyrir skaða af inndrætti seðlanna; og er þessi vaxtalækkun gerð til þess að vega upp þann halla, þannig að Útvegsbankinn stendur svo að segja eins og áður.

Ég vil svo að lokum bara segja örfá orð út af till. fjvn. um það, að leggja 45 þús. kr. til byggingar geymslu yfir þjóðminjasafnið. Mér finnst ekki ná nokkurri átt að samþ. þessa till. Ég veit, að það muni vera full þörf á að byggja yfir þjóðminjasafnið, en ég get ekki skilið, að það mætti ekki bíða þar til um hægir. Það vita allir, að það þarf talsvert útlent efni til þessa, og mér finnst erfitt að ganga langt í því að stemma stigu fyrir byggingum í sveitum .á sama tíma sem veitt er fjárveiting til slíks sem þessa. Auk þess vil ég vara við, að Alþ. gangi aftur inn á þá braut, sem áður var almennt, að veita svona heimildir. Ef það er vilji Alþ., að þetta verði framkvæmt, þá á að setja þetta beint inn í fjárl. sjálf. Þetta er stórháskaleg braut að fara inn á, og ég vara við því að taka þetta form upp.