30.12.1939
Sameinað þing: 24. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

1. mál, fjárlög 1940

*Brynjólfur Bjarnason:

Það er svo, að eldhúsumr. hafa því aðeins þýðingu, að einhverjir hlusti. (BSt: Það hlustar enginn). Þingsköp gera ráð fyrir, að þessar umr. fari fram í heyranda hljóði fyrir öllum landslýð, þ. e. a. s. að þeim sé útvarpað. Hvernig myndi nú fara (Atvmrh.: ef allir færu?!) ef við tækjum upp eldhúsumr. hér að þessu sinni? Það yrði þannig, að stjórnarfl., sem vilja engar eldhúsumr., myndu fara út, en þm. andstöðufl. stj., Sósialistafl., myndu tala fyrir galtómum stólunum. Það væri því bara skrípaleikur að hefja nú eldhúsumr. Stjórnarflokkarnir hafa með gerræði sínu hindrað eldhúsumr. að þessu sinni og eigi skirrzt við að brjóta þingsköp til þess að koma þeim vilja sínum fram. Þess vegna skora ég hér með, fyrir hönd Sósíalistafl., á stjórnarflokkana að mæta okkur í útvarpsumr. utan þings til þess að rökræða landsmálin. Ég skora ennfremur á formenn stjórnarfl. að svara þessari áskorun nú þegar. Til vara, ef þessari áskorun yrði synjað, skora ég á þá flokka, sem að stj. standa, að mæta okkur a. m. k. á almennum fundi hér í Reykjavík um þessi mál. Ef þessu verður einnig neitað, þá mun verða litið á það þannig, að málstaður ríkisstj. og stuðningsflokka hennar sé svo aumur, að þeir þori ekki að mæta okkur í almennum umræðum, þótt þeir hefðu þar fjór- til fimmfaldan ræðutíma á við okkur. — Engin slagorð munu geta komið í veg fyrir, að þessi dómur verði felldur, ef áskoruninni verður synjað.