03.01.1940
Efri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Brynjólfur Bjarnason:

Við höldum því fram, að þessi l. miði að því að taka verkfallsréttinn alveg af verklýðssamtökunum, — að þau miði að því að banna raunverulega verkalýðsfélögin sem hagsmunasamtök, — að þau miði að því, að eftirleiðis geti ríkisvaldið skammtað verkalýðnum kaup og kjör. Það, að ríkisvaldið ákveði kaup og kjör eins og því líkar — eins og ríkisvaldinu líka er háttað hér á landi og Alþ. er skipað — þýðir hvorki meira né minna en það, að atvinnurekendur fá einræði um þessi mál, því að hér á Alþ. eru það fulltrúar atvinnurekendanna og atvinnurekendurnir sjálfir, sem eru í yfirgnæfandi meiri hluta. Slík l. sem þessi þýða það, að í stað frjálsrar verkamannavinnu er tekin upp einskonar þrælavinna, þar sem menn geta ekki samið um verð á vinnuaflinu, heldur verða að vinna fyrir það fóður, sem þeim er skammtað. Það, sem við héldum fram á fyrri hluta þingsins, þegar frv. til l. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi var til umr., er nú komið á daginn. Það er komið á daginn, að það var ætlunin með þessum l. frá upphafi að lögfesta kaupið, — ekki til bráðab., heldur til frambúðar. Allir stjórnarflokkarnir kepptust um að lýsa yfir því, að þetta væri aðeins bráðabirgðaráðstöfun, og það var í raun og veru eina afsökunin, sem flm. og aðrir aðstandendur frv. gátu borið fram fyrir sínum málstað. Þessar yfirlýsingar voru gefnar af hálfu Sjálfstfl., Framsfl. og alveg sérstaklega af hálfu Alþfl. Þetta fyrirkomulag átti aðeins að gilda meðan hið óvenjulega ástand ríkti, og vegna þeirrar nauðsynjar, sem væri á gengisbreytingu. Það var ákveðið, að þetta ákvæði skyldi gilda til 1. apríl 1940. Þeir voru margir, sem trúðu þessu þá, og það tókst að sætta allmarga við það vegna þess, að þeir tóku yfirlýsingar þessar og ummæli trúanleg, að einungis væri um bráðabirgðaástand að ræða. Menn treystu fulltrúum sinna flokka í lengstu lög. Nú er svo komið, að hver einasti maður á landinu getur sannfærzt um, að það var rétt, sem við héldum fram. Formælendur frv. héldu því fram af eintómri hræsni, að þetta frv. væri bráðabirgðaráðstöfun. Ætlunin var sú frá upphafi, að l. yrðu framlengd. Verkamenn skyldu um alla framtið sviptir réttinum til að verðleggja vinnuafl sitt. — Nú koma þessir sömu menn hér enn á ný og segja sem fyrr, að einungis sé um bráðabirgðaástand að ræða. Nákvæmlega eins og sagt var í vor. Viðskmrh. var að enda við að lýsa því yfir hér, að þetta fyrirkomulag ætti aðeins að gilda árið 1940, og enn er ætlazt til, að þessu sé trúað. Svo brjóstheilir eru þessir menn, að þeir tala með mestu virðingu um helgi verkfallsréttarins, eins og t. d. hv. þm. Snæf. (TT), alveg samtímis því, að þeir gerast stuðningsmenn þess, að svipta verkamenn þessum helga rétti. Það er talað um óvenjulega tíma og sérstakar ráðstafanir, sem verði að gera þeirra vegna. Skyldu tímarnir ekki teljast óvenjulegir meðan stríðið stendur yfir? Skyldi nokkur mótmæla því, að svo muni verða álitið? Vitanlega ekki. M. ö. o., meðan stríðið stendur yfir, þótt það verði í 10 ár, meðan hinir „óvenjulegu tímar“ eru, á að láta verkamennina sætta sig við réttaraðstöðu þrælsins. Öll stríðsárin, hve mörg sem þau verða, mun verða talað um „óvenjulega tíma“, og hverjum dettur í hug. að þegar stríðinu er lokið, verði talið komið „normalt“ ástand? Eru yfirleitt nokkrar líkur til, að „normalt“ ástand komi nokkurntíma aftur, ef við þá getum kallað, að ástandið 1924 —1930 eða 1935–1936 hafi verið „normalt“. Kemur nokkurntíma aftur „normalt“ ástand meðan auðvaldsskipulagið ræður? Ef við eigum að bíða með að endurheimta frelsi verkalýðssamtakanna til að ráða kaupi og kjörum þangað til „normalt“ ástand kemur, þá getur sú bið orðið ærið löng, — því að í sannleika sýna svona l., að auðvaldsskipulagið er ekki lengur „normalt“ ástand. Þau eru merki þess, að hér er um deyjandi og rotnandi skipulag að ræða, sem ekki getur leyft lýðræði, — sem ekki getur leyft frjáls samtök þegnanna. — Ég sé, að allir hv. þm. sem þess eiga kost fara út úr d. (ÁJ: Ég er hér!) — eða flestir hv. þm. (ÁJ: Ég er nú að fara!). Það var líka þannig í Nd., að þm. gengu flestallir út, þegar flokksbróðir minn, hv. 5. þm. Reykv. (EOl), beindi orðum sínum til þeirra þm., sem hafa yfir 10 þús. kr. árslaun. Það er ósköp eðlilegt, að þessir hv. þm. hagi sér þannig meðan rætt er um þá sjálfa. Það er líka vissara fyrir hv. þm. þessarar d. að forða sér, því að ég kann að minnast á þá í ræðu minni. (ÁJ: Lad gaa!). Nú skyldi maður a. m. k. ætla, að l. eins og þessi væru ekki samþ. án þess að þjóðin væri að spurð, og þá einkum sá mikli hluti þjóðarinnar, sem hér á beinlínis hlut að máli. Þegar um er að ræða l., sem hneppa langstærstu stétt landsins, verkalýðssamtökin, sem telja um 16–17 þús. meðlimi, í fjötra, þá skyldi maður ætla, að þau væru sjálf a. m. k. spurð um vilja sinn í þessu efni. En því er ekki að heilsa nú fremur en í vor. Menn segja, að þetta frv. sé fram borið vegna þess, að samkomulag hafi náðst milli aðila. Aðila? Hverjir eru þessir aðilar, sem hafa verið að semja og náð samkomulagi? Jú, þessir „aðilar“ eru Ólafur Thors, fulltrúi atvinnurekenda, sem hefir samið við Ólaf Thors atvinnumálaráðherra, og það er Stefán Jóh. Stefánsson, forseti Alþýðusambands Íslands, sem hefir samið við hæstv. félagsmálaráðherra, Stefán Jóh. Stefánsson. Þannig hafa samningar gengið fyrir sig milli „aðila“. Hvers vegna hefir þá ekki verið samið við fulltrúa verkamanna? Orsökin er augljós. Hún er sú, að þeir, sem að þessum „samningum“ standa, vita vel um afstöðu verkalýðsfélaganna til þessa máls. Þeir vita mætavel, að næstum öll verkalýðsfélögin hafa látið álit sitt í ljós á því, og það er einróma og andstætt þessum l. Ég gæti lesið hér upp ályktanir félaganna, ef óskað væri eftir því. Þær liggja hér fyrir. Verkalýðsfélögin krefjast þess öll í fyrsta lagi, að félögin hafi frjálsar hendur um ákvörðun kaupgjalds og breyt. á því, í öðru lagi, að full kauphækkun verði veitt með vaxandi dýrtíð. L., sem hér á að setja, voru strax í vor, þegar þau voru fyrst borin fram, sett í fullum fjandskap við verkalýðinn og alla alþýðu þessa lands. Það er þetta, sem stjórnin veit, og þess vegna er ekki heldur nóg með það, að verkalýðurinn hafi ekki verið að spurður, heldur hefir blátt áfram verið farið með þetta mál eins og mannsmorð. Enginn hefir fengið að vita neitt um frv. fyrr en það er tekið á dagskrá. Enginn mátti yfirleitt vita um, að það yrði á dagskrá, fyrr en menn komu hingað niður í þinghús. Það hefir ekki verið skýrt frá því á nokkurri prentaðri dagskrá, að málið væri til umr. Enginn, ekki einu sinni þm., sem eru utan klíkunnar, hafa fengið að vita, að frv. þetta væri til, hvað þá um efni þess. Í raun og veru má enginn um þetta frv. vita fyrr en það er orðið að l. Hvílík skrípamynd af lýðræði. Eldhúsumr. máttu ekki heldur fara fram. Það þurfti að brjóta þingsköp og í raun og veru landslög til þess að koma í veg fyrir, að landslýðurinn fengi að hlusta á útvarpsumr. Hvers vegna? Vegna þess, að það þurfti að koma í veg fyrir, að fólkið fengi að vita, hvað bruggað er hér á Alþ. Þetta er hið svokallaða „patent“lýðræði þjóðstjórnarflokkanna. Hér er nefnilega ekkert lýðræði til nema aðeins að nafninu. Hér ríkir einræði lítillar yfirstéttarklíku. Þetta hefir verið mörgum dulið, enda hefir allt verið gert til þess að halda því leyndu. En því oftar sem þessir menn taka sér í munn orðið lýðræði, því auðvirðilegri hræsnarar verða þeir í augum þjóðarinnar. Hvað fela svo þessar till. í sér fyrir verkalýðinn í landinu? Það er sagt, að þær feli í sér hækkun á kaupi, sem nemi minnst 50–75% af verðhækkun í landinu. En það er ekki rétt að orða þetta þannig. Réttara er að segja, að hér sé um að ræða 25–50% lækkun, miðað við verðhækkunina strax í byrjun. Þótt kaupið hækki lítilsháttar að auratali, þá lækkar hið raunverulega kaup stórkostlega þegar í byrjun, en lækkunin, sem verður í upphafi, er minnstur hluti þeirrar lækkunar, sem verða mun. Á þeim þremur mánuðum, sem líða milli þess sem kaupgjald er ákveðið samkv. þessum l., verður auðvitað kauplækkunin margfalt meiri en hækkuninni nemur. Kaupgjaldið stendur í stað að auratali meðan verðlag hækkar ótakmarkað. Það táknar raunverulega, að alla þessa þrjá mánuði

er kaupið að lækka. Þess vegna er það svo mikils virði, ef kaupgjald er miðað við breytilegt verðlag, að útreikningur á verðvísitölu og kaupuppbót samkv. henni fari sem oftast fram, a. m. k. ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði. Þetta er líka almenn krafa verkalýðsins, og hefir verið borin fram hér á þingi af þm. Sósíalistafl. Það er vitað, að um gífurlega verðhækkun verður að ræða, þegar lög þessi eru gengin í gildi og kaupið hefir verið ákveðið í fyrsta skipti. Verðlag á kjöti og mjólk hlýtur að hækka talsvert. Ef þetta frv. verður að l., þá er verðlag á þessum vörum ekki lengur bundið, sem ekki er heldur eðlilegt að verði til lengdar. Það er ekki vitað, hve mikil hækkunin á þeim vörum verður, en hún hlýtur að verða mikil. Hækkun erlendra vara hlýtur einnig að verða stórfelld. Í lok tímabilsins hlýtur hin raunverulega lækkun kaupsins að hafa numið um 30–40% eða meira. En þegar miðað er við verðvísitölu hagstofunnar og kauplagsnefndar, eins og nú er gert, þá fæst ekki rétt mynd af kauplækkuninni, sem verður, því að grundvöllurinn fyrir útreikningi verðvísitölunnar er hringlandi vitlaus. Inn í þennan útreikning eru teknar afurðir, sem verkamenn nota mjög lítið eða alls ekkert; t. d. hefir verð á tómötum og allskonar grænmeti stór áhrif á verðvísitöluna. Sama er að segja um húsnæðið. Það gerir ekki lítið strik í reikninginn, sérstaklega úti um landsbyggðina, þar sem verkamenn búa í grenjum, sem ekki er búandi í fyrir menn, og þótt þeir verði yfirleitt að greiða fyrir það hátt verð í hlutfalli við gæðin, þá er það samt lítill hluti af þeirra útgjöldum yfirleitt. Svo þegar húsaleigan er reiknuð með og miðað við sæmilega húsaleigu, þá kemur heldur en ekki strik í reikninginn. Verður þetta til að lækka stórlega vísitöluna, enda þótt hin raunverulegu útgjöld fyrir fötum og fæði séu margfalt meiri. Það er ekki enn reiknað út, hve mikil kauplækkunin verður samkv. þessum l., þar sem verðlagsgrundvöllur, sem vit er í, er ekki fyrir hendi. En svo mikið er víst, að kauplækkunin verður gífurleg. En að halda því fram, að verðhækkunin nemi ekki nema 12% — því trúir enginn maður, sem hefir heimili hér á landi. Því trúir enginn, sem veit, að sykur t. d. hefir hækkað um 77%, brauð um 16%, kol um 60%, smjörlíki um 20%, og smjör meira, hreinlætisvörur um 20%, — og svo mætti lengi telja. Sá maður, sem heimili hefir og veit, hvað það er að þurfa daglega að kaupa þessar nauðsynjar, trúir því aldrei, að verðhækkunin sé ekki meiri en ein 12%. Útreikningar hagstofunnar og kauplagsnefndar eru vitleysa. Fylgifiskar ríkisstj. segja, að það megi til að haga þessu svona, og telja það mjög vafasamt, að atvinnurekendurnir þoli meira að segja þetta kaupgjald, og yfirleitt telja þeir á því afarmikla tvísýnu, að rétt sé að hækka kaupið, þótt ekki sé nema að auratali. En hverskonar kjör hafa þá þessir þrautpíndu atvinnurekendur eins og sakir standa? Samkv. upplýsingum, sem fyrir liggja, hafa síldarverksmiðjurnar grætt 4.50 til 5 kr. á hverju máli síldar síðastliðið sumar, eða um 1,5 millj. kr. allar verksmiðjurnar. Þær hafa því grætt hundruð þúsunda á kostnað fiskimannanna. Gróði fiskútflytjenda er áreiðanlega engu minni, þótt þar liggi ekki fyrir tölur, sem ég get farið með. M. ö. o., atvinnurekendur hafa rakað saman of fjár, stríðsgróða. Það er staðreynd. Samt halda þeir því fram, að kaup verkamanna eigi að lækka og að um það verði að setja l. Til þess að halda atvinnurekstrinum uppi, segja atvinnurekendur, að nauðsynlegt sé að fá þessa kauplækkun. Hvernig hefði farið, ef enginn stríðsgróði hefði fengizt? Hvað myndu þeir þá hafa heimtað, fyrst þeir geta ekki komizt af nú nema fá þessa kauplækkun, og tvísýnt að hún dugi? Sannleikurinn er sá, að sjaldan hefir verið minni ástæða til þess að taka til greina umkvartanir atvinnurekenda en nú. Að heimta kauplækkun á stríðsgróðatímum er virkilega takmarkalaus ósvífni. Því hefir verið haldið fram af atvinnurekendum, að til þess að reksturinn geti borið sig þyrfti kaupgjald að lækka jafnmikið og vöruverð hækkar, þ. e. að kaupgjaldið eiga að standa í stað, þrátt fyrir hækkun vöruverðsins almennt. En þó hefir hæstv. atvmrh. viðurkennt, að verkalýðurinn geti ekki lifað af þessu kaupi eins og það er ákveðið í frv., enda er það engin leið. Árslaun verkamanns í Reykjavík eru á milli 1–2 þús. kr. Nú hlýtur atvinnuleysi að aukast, — á því er enginn efi, þar sem byggingarvinna hættir, eins og aðrar atvinnuframkvæmdir, sem erlent efni þarf til. Þess vegna er það alveg víst, að árslaun verkamanna hljóta að lækka beinlínis að krónutali. Er hægt að lifa af 1–2 þús. kr. á ári með núverandi verðlagi? Ég veit, að öllum hv. þm. er ljóst, að það er ekki hægt, og reynslan mun sýna, að hundruð verkamannafjölskyldna munu fara á fátækraframfæri af því að þær geta ekki lifað af þessum launum. Hv. þm. vita, að þetta mun reynslan staðfesta. Það er hægt að tala fagurlega um það, að betra sé fyrir verkamenn að fá betri og stöðugri atvinnu en hækkað kaup. Og það gera hv. þm. á sama tíma og þeir minnka stórlega atvinnumöguleika manna með ýmiskonar löggjöf. Slíkt skraf er blygðunarlaust. Þegar styrjöldin hófst, setti þjóðstjórnin fram þá reglu, að eitt skyldi yfir alla ganga. Þetta kjörorð er framkvæmt þannig: Verkalýðurinn fær alla kauplækkunina og aukið atvinnuleysi, en stórútgerðarmenn og stórkaupmenn hirða gróðann. Hvað er svo um launþegana, sem ekki falla undir þessi ákvæði, t. d. verzlunarmenn og ýmsa starfsmenn? Láglaunamenn af þessum flokki verða allra harðast úti, ef frv. verður samþ. Þeir eru bundnir við hámark þessara laga, en er engin hækkun tryggð. M. ö. o., atvinnurekendurnir geta skammtað þeim kaup, en þó ekki hærra en hámark þessara 1. ákveður. Starfsmönnum ríkisins getur stj. skammtað eins og hún vill samkv. reglugerð, sem henni er heimilt að gefa út. Ef stj. skilur kjörorð sitt rétt, að láta eitt yfir alla ganga, þá á ekki að hækka launin hjá öllum um sama hundraðshluta. Við skulum t. d. taka 10% hækkun hjá manni, sem hefir 2000 kr. tekjur, og öðrum, sem hefir 20 þús. kr. tekjur. Það þýðir 200 kr. hækkun hjá þeim, sem hefir 2000 kr., en 2000 kr. hjá hinum, sem hefir 20 þús. kr. f árslaun. Þannig er það réttlæti. A. m. k. eru allar leiðir opnar til hróplegs ranglætis, þegar stjórnin hefir þetta á valdi sínu. Því hefir verið haldið fram, að það væri engin hætta á því, að stjórnin færi að hækka laun þeirra, sem hafa 8–10 þús. kr. árslaun. — En hvernig fór með atkvgr. í Nd.? Þar var felld brtt. um að hækka ekki laun þeirra manna, sem hefðu 10 þús. kr. tekjur á ári, og það var vegna þess, að tilætlunin er, að kaup þeirra verði hækkað. Ég mun nú flytja brtt. í þessari hv. deild þess efnis, að þeir, sem hafa 8000 kr. árslaun, og til vara 10 þús. kr. árslaun, fái ekki hærri laun. Sést þá á því, hvernig atkv. falla, hvort það muni ekki rétt vera, að hætta sé á, að því ranglæti verði beitt, að hækka laun þessara manna á sama tíma og láglaunamennirnir verða að sæta þeim afarkostum, sem í frv. felast.

Ég vil nú spyrja: Hvers vegna er verið að breyta gömlu l. frá í vor, þegar óskað er eftir, að kaupið sé sem allra lægst, eins og það myndi verða, ef gömlu lögin væru óbreytt? Flm. frv. hafa svarað þessari spurningu sjálfir: Það er gert til þess að tryggja vinnufriðinn í landinu, enda þótt atvinnurekendum sé nauðsynlegt, að kaupið haldist óbreytt að krónutali. Þetta þýðir það, að flm. vita, að ef þau l. hefðu verið látin gilda og þessar nýju hundsbætur væru ekki settar inn, myndu verða gerð verkföll þrátt fyrir öll lög. Því segja þeir: Við urðum að gera þessar breyt. á l. til þess að tryggja vinnufriðinn, — vegna þess að þeir vita, að nauðsyn brýtur lög. Með þessum breyt. er farið eins skammt og talið var fært að áliti flm. En þetta frv. tryggir ekki vinnufriðinn í landinu, — það get ég sagt ykkur, hv. þingmenn. Hvers vegna? vegna þess að það tryggir almenningi ekki það kaup, sem hægt er að lifa af, og verkamenn vita, að nauðsyn brýtur lög; þegar þeir verða þess áskynja, að það kaup, sem þeim er ætlað samkv. þessu frv., nægir þeim ekki til að framfleyta lífinu, segja þeir: Þessi lög eru ekki lengur í gildi. Verkalýðurinn mun telja sig hafa fullan siðferðislegan rétt til þess að líta þannig á málið.

Við þm. Sósialistafl. höfum lagt til, að gengisskráningarlögunum yrði breytt þannig, að verkalýðurinn fái frjálsar hendur til þess að semja um kaup og kjör stéttarinnar, en að öðrum kosti hækki kaupgjald að sama skapi og verðlag hækkar. Þetta er í samræmi við kröfur næstum allra verkalýðsfélaga, þessara fjölmennu samtaka, sem telja um 16–17 þús. manns, og því eru till. okkar sósíalistaþm. einu till., sem tryggja vinnufriðinn. Þeir þm., sem raunverulega vilja tryggja vinnufriðinn, greiða því till. okkar atkv., en í munni hinna, sem greiða atkv. gegn till., er orðið vinnufriður ekkert annað en hræsni.

Mun ég við 2. umr. þessa máls flytja brtt. shlj. brtt., sem flokksbræður mínir og hv. 3. þm. Reykv. fluttu í Nd., að viðbættum þeim brtt., sem síðan hefir orðið þörf fyrir.