04.01.1940
Efri deild: 103. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég freistaði við 2. umr. að fá úr því skorið, hvort hv. þm. vildu fallast á, að ekki skyldu hækka laun embættismanna, sem hefðu yfir 8 þús. kr. árstekjur. Það vildu hv. þm. ekki fallast á. Þeir líta því svo á, að enn beri að hækka laun þessara manna. Nú vil ég við þessa umr. freista að vita, hvort hækka beri laun þeirra, er hafa yfir 10 þús. kr. árslaun. Hver veit, nema hv. þm. hugsi sem svo, að það beri að vísu að hækka laun þeirra, sem hafa 8 þús. kr. á ári, og jafnvel líka þeirra, sem hafa 9 þús. kr., en þó ekki hinna, sem hafa 10 þús. kr. og þar yfir. Ég vil því freista að bera fram þá brtt. við 4. gr., að við a-lið bætist: „Þó má ekki hækka laun þeirra manna, sem hafa 10 þús. kr. og þar yfir í árstekjur“. Verði þessi till. felld, verð ég að álíta, að ríkisstj. eigi að teljast heimilt að hækka laun þessara manna, sem hafa yfir 10 þús. kr. í árstekjur, þó að ekki megi hækka ellilaun og örorkubætur þeirra manna, sem verða að sætta sig við 50 kr. á mánuði.