14.04.1939
Efri deild: 39. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

29. mál, hegningarlög

*Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Því verður ekki neitað, að í frv. þessu er margt fært í meira nýtízku horf en verið hefir. En þar er skemmst af að segja, að l. þessum má, eins og raunar núgildandi refsilöggjöf, misbeita á herfilegasta hátt af þeim, sem með völdin fara í hvert sinn. Til dæmis má taka kaflann um landráð. Hvort ákvæðum þessa kafla verði beitt til fjandskapar gegn þjóðinni eða til verndar þjóðinni, fer eftir því, hverjir fara með völdin á hverjum tíma. Þar er t. d. lagt allt að 16 ára fangelsi við því að birta samkomulag, sem gert hefir verið við erlent ríki. Segjum, að ríkisstj. gerði við erlent ríki samkomulag, sem fjandsamlegt væri þjóðinni, og einhver gerði svo þá skyldu sína að afhjúpa þetta samkomulag. Þá væri hægt að dæma hann í 16 ára fangelsi, og hinir raunverulegu landráðamenn hefðu þannig tök á að refsa þeim, sem kom upp um þá.

Mörg hliðstæð dæmi mætti nefna. En það væri vonlaust verk að gera brtt. við öll þau atriði. Til þess að bæta hér um, þyrfti að breyta öllu kerfinu og semja ný l. Því hefi ég ekki farið út í það að flytja margar brtt., sem væri líka tilgangslaust. En ég hefi þó flutt nokkrar smátill., til þess að sníða af frv. nokkra af verulegustu vanköntunum. Þær virðast ekki snerta nein aðalatriði, þó að sumar séu mjög þýðingarmiklar. T. d. hefi ég gert brtt. við 108. og 237. gr. Þar er aðdróttun talin refsiverð, enda þótt sönnur séu á hana færðar, og samkv. 237. gr. er meira að segja ekki leyfilegt að færa sönnur á slíka aðdróttun, sem refsingar er krafizt fyrir samkv. tilsvarandi gr. Þetta er alger fjarstæða og nær engri átt, og sjá allir, hversu herfilega má misbeita refsiákvæðum í þessum kafla, ef slík ákvæði eru í l. samtímis. Ég hefi því borið fram till. um, að síðasti málsl. 108. gr. og öll 237. gr. falli bart. Þá er enn á þskj. 145 brtt. við 180. gr. frv., þar sem ræðir um refsingu fyrir að vanrækja framfærsluskyldu gagnvart öðrum.

Í þriðja lagi ber ég fram brtt. við 216. gr., um fóstureyðingar. Þar er gert ráð fyrir, að fóstureyðing sé undir öllum kringumstæðum refsiverð, en þó er gert ráð fyrir, að refsing geti fallið niður, ef málsbætur eru. Ég álít það rangt sjónarmið, sem hér kemur fram. Það á að vera skýrt fram tekið, að fóstureyðing sé ekki refsiverð undir öllum kringumstæðum. Þetta er í rauninni að hálfu leyti viðurkennt, þar sem gert er ráð fyrir, að refsing geti fallið niður, ef um málsbætur er að ræða, þó að annars sé sagt, að þetta sé undir öllum kringumstæðum refsivert. Sé t. d. lífi eða heilsu konunnar eða barnsins hætta búin að dómi læknis, sem framkvæmir fóstureyðinguna, þá gildir refsiákvæðið jafnt lækninn sem móðurina. En svo má líta á, að lífi og heilsu konu geti verið hætta búin, ef foreldrarnir eiga við mikla örbirgð að búa.

Ég hefi ekki flutt fleiri brtt. að þessu sinni, en verið getur, að ég geri það við síðari umr. málsins.