29.11.1939
Neðri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

27. mál, íþróttalög

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Það hefir komið í ljós við þessa umr., sérstaklega nú í seinni ræðu hv. 4. þm. Reykv., að það er ekki meginástæðan, eða a. m. k. ekki að öllu leyti ástæðan fyrir mótmælum hans gegn frv., það sem hann ber fram í sinni rökst. dagskrá, heldur, eins og rök hans benda til, sem flest voru um annað, og eins og hann viðurkenndi líka sjálfur, að frv. stendur, eins og hann sagði, töluvert í honum vegna þess, að í því eru ýms atriði, svo sem kostnaðarhlið málsins, sem gera það að verkum, að hann er frv. í heild andvígur. En öll rök hans hnigu gegn frv. án tillits til þess, hvort Í. S. Í. ætti að vera eina viðurkennda sambandið eða eini aðilinn, sem koma ætti fram í íþróttamálum af Íslands hálfu gagnvart öðrum þjóðum. Það hefði því verið réttara fyrir hann að segja það afdráttarlaust, að hann væri því mótfallinn, að ríkið skipti sér neitt af íþróttamálunum með löggjöf. Hans rökst. dagskrá er ekki byggð á neinu í sambandi við það, hvort Í. S. Í. eigi að vera eina viðurkennda sambandið, og skal ég að þessu sinni ekki fara inn á það atriði. En ég býst ekki við því, að meiri hlutinn á hæstv. Alþ. verði með því að leggja ungmennafélögin niður sem viðurkennt samband íþróttafélaga. Því að það voru þau, sem fyrst og fremst voru frumkvöðlar að því að reisa merki íþróttanna hér á landi. En hitt er vitanlegt, að það er og hefir alltaf verið frá gamalli tíð „krítík“ á milli Í. S. i. og ungmennafélaganna. Ég álít þess vegna, að þessi íþróttasambönd bæði eigi jafnan rétt á að vera viðurkennd sambönd.

Annars er ég alveg undrandi yfir því, að það, sem ég sagði um þekkingu manna hér á landi á íþróttum, virðist hafa vaxið ákaflega mikið í huga hv. 4. þm. Reykv. Hann lét sér það um munn fara, sem gaf til kynna, að ég hefði haldið því fram, að það hafi aldrei verið nein þekking hér á landi í þeim efnum, og nú ætti svo sem að fara að lagfæra þetta með því að hið opinbera færi að rázka með íþróttamálin með löggjöf um þau. Ég lét þau orð falla, að þekking á íþróttum, um það, hvernig ætti að stunda þær, væri hér miklu minni heldur en víðast hvar annarstaðar, og að það hefði verið minna gert að því að fræða æskuna hér á landi um það, hvernig ætti að stunda íþróttir, svo að þær kæmu að sæmilegu gagni, heldur en gert hefir verið annarstaðar. Og að þessu er auðvelt að færa rök. Hv. 4. þm. Reykv. virtist það fjarstæða, að farið væri að gefa út bækur um þessi efni. Hann nefndi þessa bók eftir Guðmund Björnsson, fyrrv. landlækni, (sem var í Í. S. Í. um langt skeið, ef ég man rétt), sem hann þýddi og gaf út, sem er eina undirstaðan, sem menn um langt skeið hafa haft að byggja á í bóklegu tilliti hér til þess að stunda íþróttir heilsusamlega. Í sömu átt gekk bók, sem þýdd var í fyrra og hið opinbera studdi mjög að, áður en menn þeir æfðu sig, sem fóru á Ólympíuleikana. Ég er þess vegna undrandi yfir því, að það skuli vera tekið upp með óþykkju, þegar á þessi atriði er bent, svo þýðingarmikil sem þau þó eru fyrir íþróttastarfsemina í landinu.

Hv. 4. þm. Reykv. hjó einnig eftir því, að ég lét þau orð falla, að yfirleitt gæti verið hættulegt (og hann sagði „stórhættulegt“), að stunda íþróttir. Það er nú ekkert launungarmál, að þetta vita flestir, sem afskipti hafa af íþróttum. Þær eru alltaf tvíeggjað sverð, og árangur þeirra verður bæði til góðs og ills. Með þessu frv. á að koma í veg fyrir, að þær séu stundaðar til ills. Og ég staðhæfi, að þetta hlutverk, að koma í veg fyrir slíkt, er verr rækt hér hjá okkur heldur en annarstaðar í löndum. Mönnum finnst það e. t. v. fjarstæða að láta orð falla eins og þau, að menn, sem fara héðan um helgar til íþróttaiðkana — sem menn leggja mikið upp úr, sér til hollustu — geti á nokkurn hátt iðkað íþróttirnar þannig, að þær verði þeim hættulegar. En það er fullvíst, að mikið af því fólki, sem stundar þannig íþróttir, hleypur í það án þess að fá undirbúning; og það hafa Norðmenn reynt að innprenta sinni þjóð, að hlaupa ekki þannig í íþróttirnar. Slíkt er hættulegt og veldur stundum mjög miklu tjóni. Og ég verð að láta í ljós undrun mína yfir því, að það sé sagt um menntun eins og íþróttir — því að til menntunar verða þær að teljast — að ríkið eigi ekki og megi ekki eða sé ekki skylt að grípa inn í þessa menntagrein þjóðarinnar alveg eins og aðrar menntagreinir, hvort sem þær eru bóklegar eða verklegar.

Hv. 4. þm. Reykv. fór einnig inn á ákvæði 24. gr. frv. og sagðist ekki sjá — því hann kom alltaf annað slagið að því — að ríkið ætti að skipta sér af íþróttastarfseminni. Hann vissi ekki, hvað væru afskipti af ríkisvaldsins hálfu, ef ekki viðurkenning ríkisins á íþróttafélagasamböndum. Og með þeirri viðurkenningu sagði hann, að hægt væri að „sortéra“ félögin sundur og koma þeim undir ríkisstjórnina. En í 24. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Viðurkennd landssambönd íþróttafélaga eru íþróttasamband Íslands (Í. S. Í.) og samband ungmennafélaga Íslands (U. M. F. Í.). Í íþróttamálum kemur Í. S. Í. fram af Íslands hálfu gagnvart öðrum þjóðum, nema að því leyti, sem ríkið gerir það sjálft.

Öll opinber íþróttakeppni skal fara fram samkvæmt reglum, sem Í. S. Í. setur, enda séu þær ætíð í samræmi við alþjóðaíþróttareglur.“

M. ö. o.: Það er verið að viðurkenna hér tvö íþróttasambönd. En hv. 4. þm. Reykv. vill ekki láta viðurkenna nema eitt. Og það ætti þá, a. m. k. eftir þessum orðum, sem hann lét falla, að ganga lengra í þessum afskiptum ríkisins með því að þrengja þann hring enn meir, sem fyrir er um þetta.

En hér er einungis verið að ræða um íþróttasambönd, sem á að viðurkenna til þess að mynda heildarsambönd um land allt. Það er þess vegna fjarri því, að með þessu sé ríkið að hefja afskipti af þessu máli, enda er 24. gr. frv. um frjálsa íþróttastarfsemi í landinu, en ekki þá starfsemi, sem ríkið skiptir sér yfirleitt af. Þess vegna verð ég að álíta annaðhvort, að hv. þm. (PHalld) hafi ekki lesið þetta frv., eða þá, að hann hafi a. m. k. ekki athugað efni þess eins og skyldi.

Ég vil svo að lokum segja, að ég bjóst við því, og býst reyndar við því enn, að þetta frv., eins og það er undirbúið af helztu forvígismönnum íþróttafélaga hér í landinu, geti komizt gegnum þingið án verulegs ágreinings. Því að um það á ekki að vera neinn ágreiningur hér í hæstv. Alþ., að nauðsyn sé á — og það miklu meir aðkallandi nauðsyn heldur en mörg þau mál, sem hér eru afgr. á Alþ. — að gripið sé inn í með íþróttastarfseminni hér á landi. Svo mjög hefir það verið vanrækt að undanförnu. Það er mál, sem ekki á að bíða lengur úrlausnar.