18.12.1939
Efri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

149. mál, héraðsskólar

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Hv. 1. þm. S.-Þ. hefir vikið lítið eitt að þeim brtt., sem ég flyt á þskj. 491. Hann minntist þó ekkert á fyrstu brtt., um að heimilt skuli að víkja frá 16–17 ára aldursmarkinu fyrir kennslugjaldsskylda nemendur, ef sérstaklega stendur á, að dómi skólanefndar og skólastjóra. Þó að æskilegt sé, að unglingarnir komi allþroskaðir í skólana, verður að gæta þess, að um 16–17 ára aldur eiga margir þeirra miklu síður heimangengt en árin á undan. Þá eru þeir yfirleitt farnir að geta innt af hendi þau störf, sem unnin eru í sveitum, og foreldrarnir eiga ekki á öðrum vinnukrafti völ, svo að freisting er fyrir þá að nota hann, þótt það verði til að fyrirmuna börnunum alla skólavist. Þess vegna legg ég til, að undanþága sé lögð á vald skólanefndar og skólastjóra.

Síðari liður þessarar brtt. er um að ákveða um innanhússtörf nemenda í reglugerð, en ekki frv.; mér finnst það atriði dálítið óviðkunnanleg rekistefna í lögum, þótt eðlilegt sé og þegar orðinn fastur siður í slíkum heimavistarskólum. Það getur verið svo miklu fleira en að bera á borð og þvo gólf, sem nauðsyn er að venja menn við, en nægir að fyrirskipa í reglugerð, og hjákátlegt er að hafa sumt í l., en sumt í reglugerðinni.

Þá er það brtt. um að fella burt það atriði í sérnámi við héraðsskólana, sem á að gera nemendur færa til að standa fyrir húsabyggingum. Ég get fullvissað hv. flm. um það, að brtt. spratt ekki af neinum ótta hjá mér við samkeppni móti iðnstéttum bæjanna. Þessi tilsögn í héraðsskólunum getur ekki orðið það mikil, að menn þaðan geti þekkingar vegna keppt við iðnlærða menn í húsagerð. Hinsvegar lít ég svo á, að nauðsyn sú, sem er á því að reisa vönduð hús í sveitum, hús reist fyrir ókomnar kynslóðir með atbeina byggingar- og landnámssjóðs og nýbýlasjóðs, ætti að knýja menn til varfærni í því að láta aðra standa fyrir byggingum en þá, sem hafa til þess fullkomna kunnáttu. Það ætti að banna að veita lán og styrki úr opinberum sjóðum til bygginga nema þetta frumatriði, sérþekkingin, sé tryggt. — Annars er óljóst, hvernig hv. flm. hugsar sér þetta húsagerðarnám. Eiga nemendur að vinna að henni, þegar frost er og snjór er yfir allt, eða, eiga þeir að verða smiðir á því að hlusta á fyrirlestra? (JJ: Nei, þeir verða látnir vinna upp á kraft). Úti í snjónum? (JJ: Þeir steypa steina). Það er svo. Sjálfsagt geta menn lært með stuttu námi að byggja útihús sín sjálfir, hesthús, hlöður og fjós. En alltaf var það venjan, þegar sjálfur bærinn var byggður, að fengnir væru til þeir menn, sem bezt voru að sér í byggðarlaginu í þeim efnum. Ég þori að staðhæfa, að með þessari kröfu um sérnám til að standa fyrir húsagerð er skotið yfir markið — þessir menn geta ekki orðið færir um það á stuttum námskeiðum þennan tíma árs. Og sú fjarstæða nær engri átt, að óttast verði um, að með þessu séu iðnstéttirnar settar út úr spilinu. — Hinsvegar er ég sammála hv. þm. um það, að hægt sé að kenna smiði hinna einfaldari húsgagna á þessum námskeiðum. Ég er ekki í vafa um, að það myndi prýða margt sveitaheimilið, ef menn fengju þarna tækifæri til að læra að smiða húsgögn. — Þá held ég, að ég hafi gert nokkra grein fyrir því, sem fyrir mér vakir.