22.12.1939
Neðri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

149. mál, héraðsskólar

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Við 2. umr. boðaði ég, að ég og hv. þm. V.-Sk. myndum flytja brtt. við 13. gr. frv. Þessi till. liggur nú fyrir á þskj. 549 og er um það, að ríkissjóður leggi fram helming stofnkostnaðar þessara skóla. en ekki ¾ hluta (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að gefa hljóð í d.) Ég skal reyna að hafa hærra, svo að fleiri en ég geti talað í einu. Þessi brtt. er flutt vegna þess, að ekki hefir verið gerð nægilega glögg grein fyrir því, hvern kostnað það hefði í för með sér að samþ., að ¾ hlutar þessa kostnaðar greiðist úr ríkissjóði, — þótt nokkrar upplýsingar hafi að vísu komið fram um það.

Virðist eftir þeim, að ef þetta ákvæði um greiðslu ¾ hluta kostnaðarins væri látið standa í lögunum, myndi ríkissjóður, til viðbótar við áður greiddan stofnkostnað skólanna, þurfa að láta af hendi til þeirra um 400 þús. kr. Þetta er ekki lítið fé, allra sízt á þeim tímum, sem nú eru, þegar reynt er að skera öll útgjöld ríkissjóðs niður, jafnvel hin nauðsynlegustu, og stöðva fjárausturinn eftir föngum. Ég vil, að það sé vel athugað, hvort í raun og veru sé nauðsynlegt fyrir ríkissjóð að bæta nú á sig þessum mikla kostnaði eins og sakir standa. Það er játað, að sú breyting, sem samkv. þessum l. á að gera á héraðsskólunum, muni hafa allverulegan aukinn kostnað í för með sér. En er rétt að leggja í slíkan kostnað einmitt nú? Þegar litið er á það, hvernig ríkissjóður býr að gagnfræðaskólum landsins, þá kemur í ljós, að framlög til þeirra eru miklu minni en til héraðsskólanna. Ég vil ekki þar með segja, að ekki sé eðlilegt, að ríkissjóður greiði eitthvað meira til héraðsskólanna en hinna, vegna þess að þeir kunna að vera fremur skólar fyrir landsmenn alla án tillits til þess, hvar í héruðum þeir standa. En kaupstaðaskólarnir eru eðlilega mest notaðir af bæjarbúum sjálfum. Eins og hv. þdm. vita, greiðir ríkissjóður aðeins 3/5 hluta kostnaðar við byggingu skólasetra fyrir gagnfræðaskóla, en þessir skólar eiga að fá ¾ hluta stofnkostnaðar greiddan. Ríkissjóður greiðir þar að auki lægri framlög til kennslu í gagnfræðaskólum en hér er gert ráð fyrir. Að þessu athuguðu tel ég rétt, að það verði ekki ákveðið nú, hvort ríkissjóður tekur á sig hin nýju útgjöld vegna skólanna. Mér finnst, að áður en slík ákvörðun er tekin, þurfi að liggja fyrir yfirlit um stofnkostnaðinn í heild og einnig rekstrarreikningur þessara stofnana. Ég legg því til við d., að hún samþ. þessa brtt. mína.