02.03.1939
Efri deild: 9. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (1999)

22. mál, tollskrá

*Brynjólfur Bjarnason:

Á því er enginn vafi, að mikil nauðsyn var á svona löggjöf, og ég býst við, að allir séu sammála um það, að n. hefir unnið mikið starf á skömmum tíma, þar sem með þessari tollskrá hefir verið komið skipulagi á glundroðann í tollalöggjöf landsins. Loks er ekki að harma, þó að með þessu frv. sé bundinn endir á þá hræsni í löggjöfinni, að mikill hluti þeirra tolla, sem nú eru í gildi, hafa verið kallaðir bráðabirgðatollar.

En ég hefði litið svo á, að verkefni þessarar n. hefði verið það, að koma á skipulagi í tollalöggjöfinni einungis, en ekki það, að koma með till. um hækkun tolla, eins og hér er gert. Það kemur sem sé greinilega fram í nál., að tolltekjurnar samkv. tollskránni myndu verða miklu meiri en nú. Eina rétta aðferðin til að reikna þetta er sú, að taka ákveðið ár og reikna tollinn þá og bera síðan saman við það, sem áætlað er samkv. tollskránni. Þetta hefir n. gert, og þá kemur í ljós, að hækkun tollteknanna nemur ca. 700 þús. kr. Hlýtur þetta að koma sérstaklega hart niður á ýmsum nauðsynjavörum almennings. Samkv. till. n. er gert ráð fyrir hækkun tolla t. d. á leðri, skófatnaði, hveiti, kaffi, og sykri. Hinsvegar hefir n. jafnframt gert till. um lækkun tolla á ýmsum efnivörum til iðnaðar, og eru þessar síðarnefndu till. orð í tíma talað. Ég hefi að vísu ekki haft tíma til að athuga þetta svo, að ég geti dæmt um, hvort þetta verk hafi verið unnið til fullnustu. Annars er það svo mikið verk að fara gegnum þessa tollskrá, að ekki er þess að vænta, að þm. hafi enn gert það eða séu undir það búnir að gera endanlegar till. um þessi mál. En við 2. umr. mun ég bera fram till. um lækkun á ýmsum tollum á nauðsynjavörum. Hygg ég, að það muni vera óhætt, ef verkefni n. hefir ekki verið það að hækka tollaupphæðina, heldur fá fram upphæð, er sé sem næst þeirri, er núverandi tollalöggjöf gefur.