19.04.1939
Neðri deild: 44. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

46. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég hefi leyft mér að flytja smávægilega brtt. á þskj. 178 við þetta frv. Í 25. gr. þeirra l., sem þessu frv. er ætlað að breyta, er svo fyrir mælt, að bætur fyrir tjón á opnum vélbátum greiðist, ef báturinn ferst algerlega eða verður talinn ónothæfur af skoðunarmanni og matsmanni. Þetta ákvæði á sérstaklega við um opna vélbáta, en um aðra vélbáta, þá sem eru með þilfari, gilda önnur ákvæði um bætur fyrir tjón, enda þótt skipið farist ekki með öllu.

Þeir menn, sem hér eiga hlut að máli, eigendur

opinna vélbáta. telja sig bera mjög skarðan hlut frá borði, ef þeir fá engar bætur fyrir tjón, sem verða kann á bátum þeirra, nema bátarnir eyðileggjast með öllu eða séu dæmdir ónothæfir.

Það eru aðallega eigendur opinna vélbáta, sem kvarta undan þessu, og það verður að viðurkenna, að þeirra hlutur er í þessu efni fyrir borð borinn.

Hinsvegar skal það viðurkennt, að eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið, þá er talsverður vandi að fara þann gullna meðalveg, sem tryggir þessum mönnum sæmilegt réttlæti, án þess að leggja of þungar kvaðir á þá, sem undir bótunum eiga að standa. Ég hefi þess vegna leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 178. Gr. einskorðar ekki ákveðin við vissa smálestatölu, heldur eru þar fyrirmæli, sem hníga að því, að ekki falli fullar bætur í hlut eigenda opinna vélbáta fyrir tjón á bátum. sem þeir eiga, heldur einungis hálfar bætur, þó að því tilskildu, að bætur skuli greiða til þeirra samkvæmt sömu reglu sem gildir um bætur fyrir tjón á öðrum vélbátum, en eins og mörgum hv. þm. er kunnugt, gilda um það þær reglur, að eigendur sjálfir bera nokkurn hluta skaðans. Ef ég man rétt, þá er á minnstu bátum 200 kr. tjón, sem ekki fást bætur fyrir. og á nokkuð stærri bátum 350 kr. tjón, og enn]rá stærri bátum 500 kr. tjón.

Ég held, að það sé mjög sanngjarnt, og fyrir það er það ennþá nauðsynlegra, ef samþ. verður það frv., sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Borgf. og hv. þm. Ísaf., sem ég tel rétt að samþ., að samþ. einnig mína brtt., því að ég álít, að lögfesting frv. muni skapa nokkra og kannske nokkuð óheppilega mikla hvatningu hinna minni vélbátaeigenda um það, að hafa þá óvátryggða. Ég tel þess vegna, að með því að samþ. mína brtt., dragi það mikið úr freistingu fyrir þessa menn í þeim efnum. Vænti ég, að þessi sanngjarna og ekki sérlega stórvægilega brtt. mín nái samþykki hv. deildar.