03.01.1940
Neðri deild: 98. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

112. mál, meðferð einkamála

*Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson) :

Það er líklega vegna þess að ég hefi gegnt dómaraembætti en ekki málflm., sem mér finnst sérstaklega síðari brtt. 7. landsk. ósanngjörn, þar sem hann vill neita því, að menn fái rétt til að flytja mál fyrir héraðsdómi, þótt þeir hafi verið skipaðir dómarar eða fullnægi dómaraskilyrðum. Það er naumast, að þessum hv. þm. og stéttarbróður hans, hæstv. félmrh., finnst mikið til um að vera málaflm. fyrir undirrétti. Ég hefi séð þá og heyrt flytja mál, og ég verð að segja, að ekki er alltaf mikið varið í málflutning þeirra. Hinsvegar er vitað, að jafnvel ólöglærður maður getur flutt mál sæmilega vel fyrir undirrétti. Hvað viðvíkur þessu dómaraprófi, þá er það líkt með undirréttarpróf og hæstaréttarpróf, að það er mjög lítið að marka það. Það er alveg ómótmælanlegt, að fjöldi manna er vel til þess fallinn að gegna málaflutningsmannsstörfum, og vil ég þó sérstaklega nefna þá menn, sem fullnægja skilyrðunum til að geta verið dómarar og gegna dómaraembætti eða öðrum vandasömum lögfræðilegum embættum, en hafa ekki aðstöðu til að fá erfið mál til flutnings, enda er ekki ástæða til að heimta slíkt af þeim, ef þeir hafa verið færir um að gegna prófdómaraembætti við héraðsdóm og hafa þar getað greitt úr flækjum þeim, sem leiðir af málaflutningi málafærslumanna, og ef þeir eru færir um að fara með vandasöm mál yfirleitt, þá eru þeir fullkomlega eins færir og aðrir um að flytja mál fyrir undirrétti. Þetta er sambærilegt við það, hvernig það gekk til, þegar yfirdómslögmenn voru fluttir til hæstaréttar. Landsyfirdómur og hæstiréttur voru svo líkir dómstólar, því landsyfirdómurinn var raunverulega okkar æðsti dómstóll, að ekki var nema 2 eða 3 málum vísað árlega til hæstaréttar. Eini munurinn var sá, að aðeins var umskriflegan málflutning að ræða fyrir hæstarétti, en það er að sumu leyti léttara að flytja mál munnlega; þar gerir ekki svo mikið til, þótt ýmislegt fljóti með, — það fer venjulega fyrir ofan garð og neðan.

Ég sé ekki ástæðu til að vera að deila um þetta. En hv. 7. landsk. nefndi einn mann sem dæmi upp á það, að hann hefði ekki fengið neitt mál lengi, sem væri hæft sem prófmál. Ég skal taka það fram, að ég er viss um, að honum hefir verið léttara að fá mál en mörgum öðrum, því hann hefir mikinn málaflutnings„praksis“. En ég býst ekki við, að þessi efnaði og duglegi maður sjái eftir því, þótt aðrir fái þennan rétt án þess að borga 50 kr., og hann hafi orðið að flytja 4 af þeim málum, sem hann fær til meðferðar hvort sem er, sem prófmál til að fá þessa löggildingu.

Það er leiðinlegt, ekki sízt þegar það kemur úr ráðherrastóli, að farið er að flytja mál hér þannig, að eingöngu sé litið á þrengsta hring smásmugulegra hagsmuna þeirrar stéttar, sem hv. ræðum. tilheyrir.