20.03.1939
Efri deild: 20. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (2721)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Bernharð Stefánsson:

Það er ekki siður hér að fjölyrða mjög um mál við 1. umr. Ég get þó ekki látið hjá líða að benda á, hvernig þetta mál ber hér að. Eins og hv. þdm. er fullkunnugt, hefir mikið verið talað um vandræði bæjar- og sveitarfélaga að standast útgjöld sín. Alþingi 1935 skoraði á ríkisstj. að undirbúa löggjöf, sem úr þessu bætti. Stjórnin skipaði til þess nefnd þriggja manna, þar á meðal var ég. Nefndin skilaði áliti og lagði frv. fyrir Alþingi 1936. Það náði að vísu ekki fram að ganga þá, ekki fyrr en árið eftir, ég held á haustþinginu 1937, að samþ. var með nokkrum breyt. frv. um tekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga. En Adam var ekki lengi í Paradís. Nú virðist vera komin tilhneiging til þess hjá þm. að draga úr því, sem þá var veitt kaupstöðunum.

Þetta mál hefir þann einkennilega aðdraganda, að fyrst er komið fram frv. af hv. þm. N.-Þ. (GG) um að rýmka nokkuð rétt sveitarfélaga til þess að fá tekjur af síldarverksmiðjum, sem þar eru starfræktar, þannig að í stað þess að gjaldið, sem þau taka af andvirði seldrar framleiðslu megi ekki fara yfir 25% af heildartekjum viðkomandi sveitarfélags, eins og núg. lög ákveða, skuli það mega nema allt að 50% að heildartekjum þess. En þessari rýmkun á tekjuöflun er svo í Nd. snúið við og samþ. brtt., sem felur í sér stórfellda skerðing á tekjunum, sem sé, að ekki megi innheimta fasteignaskatt af verksmiðjunum eins og öðrum fasteignum í bæjum.

Ég tel það fjarri lagi að afnema fasteignaskatt af þessum fasteignum, sem notaðar eru til atvinnurekstrar. M. a. vil ég benda á, að atvinnurekstur einstakra manna stendur ekki vel að vígi í samkeppni við fyrirtæki, sem af er létt þessum gjöldum. Ef á annað borð á að fara að taka aftur af því, sem Alþingi er búið að veita fyrir liðugu ári síðan, hefði þó verið réttara að gera þá brtt. við frv. hv. þm. N-Þ. að fella niður gjaldið, sem þar er lagt til, að rýmkað sé um. Það hefði líka verið að ganga hreinna til verks, en náð líkum tilgangi, sem sé að snúa frv. alveg við með einni brtt. Mér finnst það meir en óviðkunnanleg aðferð, og hefði verið miklu réttara að flytja sérstakt frv. um afnám fasteignagjaldsins af verksmiðjunum.

Nú er það svo, að þeirri breyt. er eingöngu stefnt gegn einum kaupstað, Siglufirði, sem átt hefir erfitt uppdráttar og verið gert ákaflega rangt til fyrir nokkrum árum, þegar núgildandi útsvarslöggjöf var sett og teknir af bæjarfélaginu möguleikar til að leggja útsvör á þá, sem stunda þar atvinnu um bjargræðistímann.

Ég vonast til þess. að nefndin, sem fær þetta frv. til athugunar, hugsi sig vel um, hvort það á að fara lengra. Ég legg til að það verði annaðhvort fellt eins og það er eða breytt í það horf, sem það hafði upphaflega frá hv. flm. (GG). Ef frv. ætti lengri lífdaga fyrir höndum, vildi ég benda mjög alvarlega á þessi sjónarmið, sem nefndin verður að íhuga, og á forsögu þessa máls.