03.04.1939
Neðri deild: 33. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Það er auðséð, að þeim þykir vissara að vera fjarverandi sumum hv. þm., enda er það vafalaust bezt fyrir þá, því að annars gæti e. t. v. eitthvað rifjazt upp fyrir þeim, sem óþægilegt er, í sambandi við mál það, er nú liggur hér fyrir, um þær ráðstafanir, sem Alþfl. og Framsfl. hafa áður lagt til, að gerðar væru. Sú spurning, sem fyrir liggur í sambandi við þetta frv., er, á hvern hátt eigi að leysa þau vandamál, sem að útgerðinni steðja, og á hverra kostnað.

Það er margbúið að sýna það og sanna, að hér á Íslandi er voldug stétt manna, sem hefir lifað mjög vel á útgerðinni, þótt útgerðin sjálf, eftir því, sem viss hluti reikninga hennar ber með sér, hafi alltaf tapað. Það er vitað, að þótt allt þetta vandræðaástand hafi átt að ríkja í stórútgerðinni, sem hv. þm. Borgf. var að lýsa svo átakanlega, þá eru þeir menn til í Reykjavík og víðar, er stjórna sumum stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins, sem hafa lifað við góð kjör og há laun. Á undanförnum árum hefir þjóðin lagt þessum mönnum til rekstrar- og eyðslufé í ríkum mæli, þannig að bankarnir hafa hin síðustu 20 ár afskrifað tugi milljóna króna, mikils til sem töp á þessari útgerð. Ofan á allt þetta bætist, að nú skulda sum stærstu útgerðarfyrirtækin, sérstaklega Kveldúlfur, svo milljónum króna skiptir hjá ríkisbönkunum. Undanfarin þing og kosningar hefir deilan aðallega staðið um það, hvort í eitt skipti fyrir öll ætti að gera upp allt þetta sukk og sjá um að koma útgerðinni á hreinan og heilbrigðan grundvöll, eða halda áfram sama vitlausa rekstrinum í sama skuldafeninu og óreiðunni. Undanfarnar kosningar hefir þetta sífellt verið eitt aðalkappsmál Alþfl. og Framsfl. og það, sem um hefir verið barizt, að koma útgerðinni á réttan kjöl á einn eða annan hátt og gera upp óreiðufyrirtæki útgerðarinnar, þá fyrst og fremst Kveldúlf. Jafnframt hefir það verið álit manna í vissum flokkum, að til væri sá möguleiki til að bæta fyrir útgerðinni, að minnka þau háu laun og tekjur, sem einstaka menn, sem sé yfirstéttin hér í Reykjavík, hefir haft af útgerðinni beint og óbeint, ýmist af ríkisbúskapnum sem laun eða sem hagnað af verzlun. Spurningin er fyrst og fremst um það, hvað gera skuli fyrir útgerðina til að reisa hana við og á hverra kostnað, — á að taka kúfinn af þeim gróða, sem safnast mönnum, sem sitja í landi og reka útgerðarfyrirtækin, eða á að lækka lífskjörin hjá fólkinu, sem vinnur að fiskinum, bæði á sjó og landi? Það er um þessar tvær leiðir að velja. Við fulltrúar Sósíalistafl. og fulltrúar verkalýðsins í landinu höfum bent á, að fullir möguleikar eru fyrir hendi til þess að tryggja, að útgerðin geti borið sig og alþýðan geti búið við þau kjör, sem hún nú hefir, og jafnvel að þau færu heldur batnandi, en þeir, sem yrði að taka fé af til að tryggja það, eru þeir ríku í landinu. Hvað eftir annað höfum við sýnt og sannað, að til er sá auður og þær háu tekjur í landinu, að hægt er af að taka til að jafna upp hallann á útgerðinni og tryggja kjör alþýðunnar.

Með þeim skýrslum, sem ríkisstj. og n. hennar hafa safnað, er sannað, að þessir menn hér í Reykjavík hafa í árstekjur um 11 millj. kr. Það, sem þessir menn hafa fram yfir það, sem kalla má sæmileg laun, mun vera um 6 millj. kr. samtals. Hvað eftir annað hefir um það verið rætt, að hér í Reykjavík séu sviknar undan skatti eitthvað um 20 millj. kr., án þess að verulegar ráðastafanir hafi verið gerðar til að skattleggja þetta fé eða ná til þessara eigna. Það hefir verið sýnt fram á það af n., sem ríkisstj. skipaði, að einungis með því að lækka hálaunin hjá embættis- og bitlingamönnum hins opinbera mætti spara milljónir króna. Það er nægilegur auður hér til að tryggja, að ekki þyrfti að skerða lífskjör alþýðunnar, og tryggja um leið, að útgerðin gæti borið sig. Hér er barizt um, hvaða leið skuli fara, en þá koma þrír borgaralegu flokkarnir á Alþingi með frv. um gengislækkun, sem felur í sér þá stærstu réttindaskerðingu hins vinnandi lýðs í landinu, sem þekkzt hefir. Allt miðar að því að tryggja, að útgerðin geti haldið áfram í því feni, sem hún hefir verið í undanfarið. Í þessu frv. er ekki eitt einasta atriði, sem tryggir, að eftir framkvæmd gengislækkunarinnar fari ekki allt í sama farið aftur, svo þjóðin verði aftur að afskrifa aðrar 20 millj. í bönkunum.

Það er vitað, að nú skuldar eitt stórútgerðarfélag um 7 millj. kr. hjá Landsbankanum. Það er ekki fyrir það byggt með þessu frv., að slíkt sukk haldi áfram í meðferð fjár landsmanna. Þar er engin trygging sett fyrir því, að útgerðin verði rekin með skynsemi eftir þetta. Það er ekki séð um, að meira eftirlit verði haft með, að útgerðin verði rekin með meiri sparnaði eða að fyrirtækin reki togaraútgerðina í stærri stíl, — ekki ein einasta skynsamleg ráðstöfun gerð til að tryggja, að útgerðin geti borið sig, önnur en sú, að skera niður lífskjörin hjá alþýðunni í landinu. Skal ég reikna þetta ofurlítið út, þótt ekki liggi fyrir hendi áreiðanlegar tölur. Því er haldið fram í skýrslu nefndar, er þingið setti til að rannsaka hag og rekstur togaraútgerðarinnar, að tap á útgerðinni árlega væri hátt á aðra millj. króna. Hvað er svo sá niðurskurður mikill, sem farið er fram á með þessari launalækkun? Því miður liggja ekki fyrir almennilegar skýrslur um tekjur launaþega í landinu. En ég hygg það ekki fjærri lagi að álykta, að ef tekjur allra landsmanna eru um 110 eða 120 millj. kr. árlega, þá séu tekjur launaþega og verkamanna ca. 40 millj. Ég skal hafa þann fyrirvara, að tölur þessar eru ekki nákvæmar, svo útkomunni getur skakkað nokkuð. Samt gefa þessar tölur nokkrar upplýsingar um, hverju miðað er að með frv. þessu. Ef það er rétt, að tekjur launaþega í landinu séu alls um 40 millj., verður dýrtíðaraukning sú, sem raunverulega verður launalækkun, ekki minni en 12%, þegar gengið er út frá 20% lækkun, og það er það vægasta, sem maður getur álitið, að flm. frv. reikni með. Þótt verkalýðurinn fái einhverja uppbót á þessu seinna á árinu, yrði það aldrei nema lítill hluti af hinni raunverulegu launalækkun, svo lækkunin alls mun áreiðanlega nema ca. 3–4 millj. kr. Því er sem sé verið að fara fram á með þessu frv. að lækka lífskjör hinna vinnandi stétta á Íslandi um meira en tapið á útgerðinni hefir verið. Það er auðséð, að það, sem hér er verið að gera, er fyrst og fremst harðvítug árás á kjör verkalýðsins og launaþegana í landinu, jafnframt því — eins og ég kem að síðar — að verið er að lækka að mun laun mikils hluta bænda.

Þessi árás er gerð með það fyrir augum að hlífa bröskurunum í stórútgerðarmannastéttinni við því að taka á sig ábyrgðina og afleiðingarnar af braski sínu, ekki einungis til að vinna upp tapið, sem orðið hefir undanfarin ár, heldur skapa líka gróða þeim til handa á kostnað hinna vinnandi stétta. Þessi árás er öll gerð án þess, að nokkuð sé gert af meiri hl. hér í þinginu til að knýja stórútgerðarmennina til að gera hreint fyrir sínum dyrum og koma útgerðinni á heilbrigðan og skynsamlegan grundvöll.

Það lítur sannarlega kinduglega út, þegar einn af þeim, sem gerzt hafa flm. þessa frv., hv. þm. Borgf., er að tala hér með heilögum fjálgleik um erfiði sjómannanna, sem verði að vinna eins og þrælar myrkranna á milli, rétt eins og þetta frv. miðaði að einhverju leyti að því að bæta hag og rétt sjómannanna hér á Íslandi. Það er undarlegt, hvernig þessi hv. þm. og fleiri, sem talað hafa hér, tala um það, hverjir það séu, sem skapa auð með framleiðslu hér á Íslandi. Þeir tala alltaf um framleiðendurna og að frv. sé til hagsbóta fyrir framleiðendurna. Ég vil benda þessum hv. þm. á, þeim til athugunar, hverjir það eru, sem eru framleiðendurnir á Íslandi. Þeir virðast halda, að það séu stórútgerðarmennirnir, sem séu framleiðendurnir. Ég veit ekki til, að við sjáum þá framleiða annað en skuldirnar í bönkunum. Það eru þeir, sem vinna á sjónum, á togurunum og mótorbátunum, þeir, sem vinna við fiskinn í landi, þeir, sem koma honum út í skipin til að selja hann til útlanda, — það eru þessir menn sem eru framleiðendurnir. Án þeirra yrði ekkert framleitt. Það væri hægt að framleiða fisk, þótt Kveldúlfur væri ekki til, en það væri ekki hægt að gera það án togarasjómannanna. Með þessu frv. er ráðizt á þá eiginlegu framleiðendur í þessu landi. Það þýðir lækkun lífskjara verkamanna og sjómanna, einkum togarasjómanna. Hvað er það svo, sem gerzt hefir hér á landi hjá togaraeigendunum? Ég vil varpa fram þeirri spurningu, hver hafi séð, að þessir togaraeigendur væru að sligast undir tapinu á útgerðinni? Ég veit ekki betur en að forstjóri stærsta togaraútgerðarfélagsins hér í Reykjavík, Richard Thors, hafi verið að byggja sér eina „villuna“ enn hér í Reykjavík, þótt hann muni hafa átt aðra fyrir, og svo hefir mér verið sagt, að byggð hafi verið yfir þessa sömu bræður „luxusvilla“ á Hjalteyri. Sýnir þetta, hvernig þeir eru að sligast undir útgerðinni? Er þetta hörmungarástandið, sem hv. þm. Borgf. lýsti sem hlutskipti þeirra? Hv. þm. ætti að líta til þess, hvernig alþýðan í Reykjavík lifir, sú alþýða, sem á að fara að lækka kjörin hjá. Hv. þm. Borgf. sagði, að hvergi í heiminum væri atvinnurekendum boðið upp á annað eins og hér á Íslandi. Já, það eru meiri ósköpin, sem þeim er boðið upp á, togaraeigendunum í Reykjavík. Hv. þm. ætti að hugsa sig betur um. áður en hann segir, að þeir séu skattlagðir um fram alla aðra ríkisborgara. Á síðasta þingi voru samþykkt lög, sem losa togaraútgerðina svo að segja við alla skatta. Nei, þeir, sem bera hita og þunga af útgerðinni, eru þeir, sem vinna við hana, þræla sína 16 tíma í sólarhring og jafnvel lengur á sumrin. Það er ekki verið að hjálpa þessum mönnum með því frv., sem hér liggur fyrir. Það er verið að tryggja, að ekki sé hægt að bæta lífskjör þeirra. Það var öðruvísi hljóðið í þessum hv. þm. og öðrum, þegar var verið að ræða á þinginu í fyrra um þetta leyti um gerðardóm í sjómannakaupdeilunni. Þá var ekki talað eins hjartnæmt um sjómennina, þegar verið var að fyrirskipa þeim af Alþingi, við hverskonar kjör þeir ættu að vinna, þá var þeim bannað að fá smávægilegar hagsbætur.

Þegar þetta frv. er rætt, er það gert með þeim blekkingum, að það sé til bóta fyrir sjómennina. Þá er talað um rok og svartnætti. Ég held þessum hv. þm. sé bezt, ef þeir ætla sér að koma frv. í gegn, að nota þá aðferð, sem algeng er orðin, að fara með það á bak við þjóðina og skella því í gegnum þingið, án þess að þjóðin fái tækifæri til að hlusta á umr.

Ég skal þá koma að því, hvaða áhrif þetta frv., ef að l. verður, hefir fyrir fólkið í landinu, og kem ég þá fyrst að verkalýðnum. Með þessu frv. eru ákveðin kjör verkalýðsins og kaup í eitt ár, og mega þau ekki breytast nema samkv. lagasetningum. Hér er verið að taka réttinn af verkalýðnum til að ákveða sjálfur kaupgjald sitt. Honum er fyrirskipað af Alþingi, fyrir hvaða kaup hann á að vinna, kaup, sem lítil klíka á Alþingi ákveður. Þeir menn, sem bera fram þetta frv., telja sig sérstaka postula lýðræðis og frelsis og hafa sífellt á vörunum, hve mikið þeir tigni einstaklingsfrelsið og vilji varðveita það. En hvað eru þeir svo að gera með þessu frv.? Þeir eru að gera það, að fjölmennasta stéttin í landinu, verkamanna- og launaþegastéttin, er svipt réttinum til að ákveða sjálf kaupgjald sitt, hún verður að selja vinnumagn sitt með því verði, sem þessir menn ákveða.

Á síðasta þingi var sett vinnulöggjöf. Þá sögðu þeir menn, sem voru að reyna að verja hana, að með henni væri verið að tryggja rétt verkamanna til verkfalla, það væri verið að setja það í lög í fyrsta sinni, að verkamenn hefðu rétt til verkfalla. Við sýndum strax fram á, hvað í því frv. fólst. Nú er ekki nema eitt ár síðan og nú er verið að setja önnur lög, sem taka þennan verkfallsrétt af verkamönnum. Eftir því hefir verkalýður Íslands engan rétt til þess í heilt ár að gera verkfall. Samkvæmt lögum hefir hann þá ekki rétt til að reyna að bæta kjör sín á þennan hátt. Að vísu getur hann gert eitt, að mæta hvergi á neinum vinnustað í landinu, en rétt til verkfalls á löglegan hátt hefir hann engan. Það þýðir, að helmingur landsbúa er settur í sömu aðstöðu og þrælar. Þeim er fyrirskipað, fyrir hvað þeir eigi að vinna, og bannað að gera tilraun til að breyta því. Ég vil beina því til þeirra hv. þm., sem hafa flutt þetta frv., hvort þeir hafi gert sér grein fyrir því, hvert þeir eru að fara með þessu, — hvort menn, sem alltaf eru með lýðræði á vörum, hafa gert sér ljóst, hve mikið ósamræmi er milli frv. og þess orðs. Hv. þm. Borgf. var með ógurlegum fjálgleik að tala um skerðing á eignarrétti þeirra, sem hann kallar framleiðendur, á krónunni. Ég vil spyrja hv. þm., hvort þeir geri sér ljóst, að hér er verið að skerða eignarrétt verkamanna á sínum eigin líkama. Ef hægt væri að fá úr því máli skorið fyrir dómstólum, býst ég við, að það yrði að dæmast brot á stjórnarskránni. Það er bara ekki vani, þegar verkamenn eiga í hlut, að halda svo vandlega við það fyrirheit stjórnarskrárinnar. Og hér er verið að setja lög um þrælahald gagnvart þeim.

Alþfl. kemur svo með það, að nú eigi að bæta verkalýðnum þetta ofurlítið upp. Bæturnar eru þannig, að eftir þrjá mánuði, þegar dýrtíðin er búin að .,grassera“ þann tíma, eigi að veita nokkrum hluta hans kaupuppbót fyrir nokkurn hluta þess, sem hér er tekið af honum. Við vitum, hvernig slíkar uppbætur eru framkvæmdar. Þó að þær eigi að verða litlar eftir frv., verða þær enn minni í reynd, fyrir utan það. sem engum dettur í hug að treysta nokkuð á loforð sem þessi og á vilja valdhafanna, þegar til kastanna kemur. Við vitum t. d., að samkvæmt vinnulöggjöfinni frá í fyrra ættu verkamenn nú að hafa fullt leyfi til að sækja rétt sinn og hækka kaupið um leið og dýrtíðin skellur á. En svo kemur þetta frv. og sviptir þá þeim rétti, sviptir þá uppbótinni, sem Alþfl. sagði, að fólgin væri í vinnulöggjöfinni og drægi úr skaðsemi hennar. Uppbætur þessa frv. er hægt að þurrka bara út aftur.

Fjöldi útvegsmanna hefir mjög hæpinn hagnað af gengislækkun, a. m. k. þegar frá liður. Og allir þeir, sem framleiða fyrir innlendan markað. hljóta að bíða óbætanlegt tjón. Sú rýring, sem verður á lífskjörum fólksins, leiðir til minnkandi eftirspurnar eftir framleiðslu þeirra. Kaupgeta fólksins hrekkur þá aðeins til að kaupa þær innfluttar vörur, sem það getur sízt verið án. Neyzla landbúnaðarvara og innlendra iðnaðarvara er dæmd með þessu frv. til að hnigna, atvinnuvegir heilla stétta dæmdir í langvinnar þrengingar. Bændur í nærsveitum Reykjavíkur og austan fjalls eiga ekkert síður en verkamenn að verða fyrir barðinu á gengislækkuninni. Þótt þeir eigi að fá jafnar uppbætur og verkamenn síðar meir, er það ekki annað en sú blekking, að þeim sé gagn að verðhækkun, eftir að markaðurinn er eyðilagður fyrir kaupgetuleysi og dýrtíð.

Það er varla við að búast, að allir Íslendingar taki þessu með langlundargeði. Það er líka vitanlegt, að þessir flokkar hugsa til þess að kóróna þetta brot á öllum þeim „principum“, sem þetta þjóðfélag byggist á, með því að koma upp ríkislögreglu. Þá verður ekki spurt um peningana. Seinast þegar henni var komið upp, kostaði hún hálfa milljón. Nú yrði það kannske heil. Og það yrði ekki spurt um, hvort hægt væri að flá þá milljón af alþýðunni, þó að nú sé sagt, að þeir, sem peningaráðin hafa, geti engin framlög staðizt til að hjálpa útgerðinni.

Það má benda á, hvað lítið er hugsað um að spara fyrir útgerðina. Það er talað um 900 þús. kr. rekstrarhalla á ári á útgerð togaranna. Ég skal nú leyfa mér að lesa upp nokkrar tölur, sem sýna, hvar hægt er að spara, svo að stórupphæðum nemur, til að vega á móti hallanum.

Í fyrsta lagi fara tvær milljónir í kolakaup útgerðarinnar. Hve mikla verðlækkun þar mætti fá. er ekki að fullu hægt að sjá, en stórmikil gæti hún orðið. Til veiðarfæra fara 1,1 millj., og það er vafalaust liður, sem mikið mætti spara á. Þá er í þriðja lagi vátrygging, 600 þús. kr. Það er vitanlegt, að það verður að hætta að vátryggja togarana fyrir miklu meira en þeir eru í raun og veru verðir. Nú eru þeir látnir standa fyrir svo miklum skuldum í bönkunum, að það nemur stundum tvöföldu eða þreföldu sannvirði, og fer þá 2–3 sinnum meira í vátryggingar en heilbrigt er. Svipað má segja um vexti. Þeir nema á þessu eina ári yfir 600 þús. kr. Það er vitanlegt, hvernig þessir vextir eru komnir til. Það er alltaf verið að slengja á framleiðsluna þunganum af óreiðutöpum fyrirtækjanna. Þá er viðhald um 1 millj. kr., og gæti sá liður lækkað eftir að endurnýjun hefði farið fram á miklu af flotanum, lögð niður skip, sem ekki borgar sig lengur að gera við. Í sjötta lagi er skrifstofukostnaður einn fjórði úr milljón, og eitthvað gæti hann vonandi lækkað. Áður en gripið er til slíkra örþrifaráða þyrfti sannarlega að rannsaka, hvað hægt er að skera niður af þessum kostnaði og hvernig skapaður yrði heilbrigður grundvöllur arðgæfrar útgerðar.

Hér talaði hv. þm. Ísaf. (FJ) fyrir hönd Alþfl. Ég gæti trúað, að það hefðu verið nokkuð þung spor fyrir hann upp í pontuna — til að verja gengislækkun, sem skellt er á þvert ofan í vilja hans eigin flokks, svo lengi sem sá flokkur var og hét, þvert ofan í allar yfirlýsingar flokksins fyrr og síðar. Og nú segir þessi þm., að allir alþýðuflokksmenn séu sammála um þetta! Ég get upplýst, að alþýðuflokksmenn hafa alls ekki verið spurðir um þetta. Stjórn Alþýðusambandsins hefir aldrei þorað að leggja málið fyrir sína kjósendur, frekar en Íhaldið og Framsfl. þora að leggja það fyrir kjósendur við almennar kosningar. Í alþýðusambandsstjórninni er ekki einu sinni meiri hluti með því. Þrátt fyrir mótspyrnu í flokknum og mikinn ágreining í hinni tiltölulega fámennu stjórn hans, dirfist þingflokkurinn að ráðast aftan að mönnum sinum og hjálpa Breiðfylkingunni til að knýja gengislækkun í gegn.

Það er ekki furða, þó að menn spyrji, í hvers nafni og þjónustu þingflokkur Alþfl. beiti sér fyrir þessu frv. Aldrei hefir nokkur flokkur svikið eins greypilega gefin loforð. Nokkru fyrir kosningarnar 1937 bar krónulækkun oft á góma. Þá gerði miðstjórn Alþfl. eftirfarandi fyrirspurn til miðstjórnar Sjálfstfl.:

„Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn og Bændaflokkurinn hafa gert með sér kosningabandalag við kosningar 20. júní, en Bændaflokkurinn hefir, eins og kunnugt er, haft lækkun íslenzku krónunnar að aðalstefnumáli og í blaði sínu, Framsókn, 12. júní s. l. lýst stefnu stjórnarinnar um að halda uppi gengi krónunnar sem stigamennsku og hegningarverðu athæfi, en Sjálfstæðisflokkurinn hinsvegar ekki fengizt til að gefa skýr svör um stefnu sína í þessu þýðingarmikla máli. skorar miðstjórn Alþýðuflokksins hér með á miðstjórn Sjálfstæðisflokksins að svara eftirfarandi fyrirspurn opinberlega við útvarpsumræðurnar og í blöðum flokksins:

Vill Sjálfstæðisflokkurinn lofa því og skuldbinda sig til þess, eins og Alþýðuflokkurinn gerir, að vinna að því, að gengi íslenzku krónunnar verði haldið óbreyttu eins og það er nú, miðað við sterlingspund, og það að minnsta kosti ekki lækkað í náinni framtíð?

Miðstjórn Alþýðufl.“ (Alþbl. 15. júní 1937). Eftir þetta hamraði Alþýðublaðið dag eftir dag á gengislækkunaráformum Breiðfylkingarinnar sem hinni svívirðilegustu árás á alþýðuna og skoraði á verkalýðinn að kjósa alþýðuflokksmenn til að hindra gengislækkunina. Hér eru nokkur fróðleg sýnishorn:

Alþbl. 16. júní 1937 — 6 dálka fyrirsögn: „Breiðfylkingin ætlar sér að fella krónuna! Ólafur Thors vildi ekki svara fyrirspurn Alþýðuflokksins í gærkveldi.

Sigur Breiðfylkingarinnar þýðir, að krónan verði skorin niður um þriðjung, kaup og laun lækka um þriðjung, þriðjungi af sparifé landsmanna verður rænt og skuldir þjóðarinnar hækka um þrjátíu milljónir króna.

Á dýrtíðin enn að margfaldast?“ Í greininni stendur m. a.:

„Gengislækkun mundi auka dýrtíðina um allan helming. Gengislækkun mundi gefa heildsölunum tækifæri til nýs okurs á nauðsynjum almennings.“

Alþýðublaðið l7. júní, forsíðufyrirsögn: „Gengislækkun er eina úrræði Breiðfylkingarinnar.

Sparifjáreigendur og verkamenn eiga að borga skuldir Kveldúlfs.

Aukið fylgi Alþýðuflokksins er eina tryggingin gegn herferð Íhaldsins á móti húsmæðrum og sparifjáreigendum“.

Ég vil taka fram, að það er Alþbl., sem ég er að lesa upp.

Í greininni stendur m. a.:

„Þeir vilja fá að undirbúa þegjandi og hljóðalaust þessa herferð á pyngju húsmæðranna, á laun verkamannsins og gjaldtraust landsins. En það skal ekki takast. Það skal verða heyrinkunnugt, hver voði vofir yfir íslenzku þjóðinni af fjörráðum Breiðfylkingarinnar gegn íslenzku krónunni.“

Leiðari Alþbl. 17. júní, sem heitir: „Gengislækkunaráform Íhaldsins sönnuð“, endar svo:

„Kjósendur munu hindra þessar skemmilegu fyrirætlanir með því að kjósa Alþýðuflokkinn“. Alþbl. 18. júní:

„Vill nokkur launþegi, nokkur láglaunamaður eða kona hans, sonur eða dóttir hjálpa Breiðfylkingunni til að koma á gengislækkun með því að ljá henni atkvæði sitt á kjördegi?“

Alþbl. 19. júní, daginn fyrir kosningarnar, 6 dálka forsíðufyrirsögn:

.,Verjizt gengisráni Breiðfylkingarinnar! Íhaldið ætlar að ræna 20 milljónum króna af sparifé landsmanna með gengislækkun!

Dýrtíðin margfaldast, ef Breiðfylkingin sigrar! Alþýðuflokkurinn hefir lýst yfir því, að hann muni ekki styðja neina stjórn, sem hefir gengislækkun á stefnuskrá sinni.“

Þessi orð í málgagni Alþfl. 1937 verða ekki misskilin, og það er ekki um að villast, hvernig þessir herrar hafa nú, á bak við þá alþýðumenn, sem enn fylgja flokknum, stolizt til að hjálpa Breiðfylkingunni til gengislækkunar, stolizt frá sannfæringu sinni og stóryrðum, stolizt frá öllum sínum loforðum og standa nú einangraðir uppi sem fulltrúar Breiðfylkingarinnar, en ekki Alþfl. Og þessi vesalings hv. þm. (FJ) getur nú farið eins fögrum orðum og hann vill um það traust, sem alþýðan eigi að sýna þeim.

Framsfl. hefir gert það að kjörorði sínu að hjarga Reykjavík undan dýrtíðinni, — það, sem ætti að gera, væri auðvitað að lækka verðið á vörunum, sem fólkið þyrfti að borga. Og nú kemur loksins frv., sem sagt er, að eigi fyrir alvöru að bjarga Reykjavík, bjarga almenningi í þessum bæ. Og hvernig? Ekki með því að lækka dýrtíðina, heldur með því að hækka hana og fyrirbyggja, að alþýðan geti rétt hlut sinn. Þetta er eitt, sem sýnir, hvernig sá flokkur efnir loforð.

Íhaldið veit vel, að það tapaði á gengislækkunarmálinu í síðustu kosningum, enda þótt flokkurinn berðist ekki fyrir því þá eins og nú. Það er undarlegt, en svo er að sjá sem það mál hafi unnið því meir á í forystuliði flokksins, sem það reyndist óvinsælla meðal kjósendanna. Bændaflokkurinn einn af Breiðfylkingarflokkunum getur hrósað sér af óbreyttri gengisstefnu frá upphafi. Honum auðnast nú sú uppfylling vonanna, sem Íhaldið þorði ekki að ráðgera í sínum villtustu draumum fyrir kosningar 1937. Hann þarf ekki að sigra hina flokkana, hann bara innlimar þá!

Jafnvel innan Sjálfstfl. eru gengislækkunarmennirnir þó ekki til neins færir, nema Framsókn hjálpi þeim til að verða ofan á í flokknum. Ég býst við, að ýmsir af fulltrúum Sjálfstfl. eigi eftir að tala hér á móti þessu frv. En það er bara þýðingarlaust, nema þeir snúi sér beint til fólksins og reyni að vekja skilning þess á málinu og taka upp baráttuna á þeim vettvangi. Það er vitanlegt, að þeir sjálfstæðismenn, sem það vildu gera, mundu hafa meiri hluta fólksins í flokknum með sér.

Ég vil að lokum undirstrika þau orð hv. þm. Ísaf. (FJ), að það er þingræðislegt samkomulag, sem að gengislækkuninni stendur, og ein

göngu þingræðislegt. Hér er ekki um neitt lýðræði að tala. Fremur mætti segja, að það væri lýðræðislegt samkomulag um, að þetta frv. eigi ekki rétt á sér. En við eigum víst að fá að kenna á því, að hér drottnar ekki lýðræði, heldur þingræðið bak við tjöldin.