23.12.1939
Efri deild: 92. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (2809)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Árni Jónsson:

Það var út af afnotagjaldinu. Hv. 2. þm. N.-M. tók hér til máls, og tók hann að nokkru leyti í sama streng og ég, að bændur myndu ekki vera sérstaklega spenntir fyrir því, að þetta afnotagjald væri lækkað. Þeir myndu telja sig þetta lítið draga og ekki telja sig standa verr að vígi með að greiða þetta gjald en aðra. Þetta kom fram í ræðu hv. 2. þm. N.-M.

Hann taldi aðrar ástæður fram fyrir því að lækka þetta afnotagjald heldur en þær fjárhagslegu, eða þær, að sveitamenn hefðu ekki eins mikil not af tækjunum og aðrir vegna þess, að það væri svo erfitt að fá þau hlaðin. Nú veit hv. þm., að á seinni árum hefir árlega verið veitt úr ríkissjóði einhver upphæð til þess að bæta úr þessu, og útvarpið hefir einnig haft menn úti um land til þess að kenna fólki meðferð á þessum tækjum og koma upp hlaðstöðvum í sveitum landsins. Ég held þess vegna, að hér hafi einmitt verið unnið að því að bæta úr því, sem hv. 2. þm. N.-M. telur sérstaklega mæla með því, að afnotagjaldið sé lækkað fyrir rafhlöðutæki.

Það hefir farið svo með þetta mál, að það hefir vaxið nokkuð, eins og við mátti búast, enda er ég hissa á, að jafnhyggnum manni og hv. 5. landsk. skyldi ekki vera ljóst, að hann var með þessu máli að leiða asnann inn í herbúðirnar. Hv. þm. veit, að eins og hann hefir komið með málið inn í þingið, þá eru aðrir menn verr settir en þeir, sem hér er farið fram á að lækka á. Hann gat þess vegna sagt sér það sjálfur, að af því hlyti að leiða, að kröfur um almenna lækkun kæmu fram. Nú veit hv. þm., að tekjumissirinn fyrir útvarpið, ef hans till. er samþ. óbreytt, er ekki minni en kringum 45 þús. kr. Það hafa ekki verið gerðar neinar tilraunir til þess að áætla, hverju tekjumissir útvarpsins myndi nema, ef farið væri inn á almenna lækkun. (PZ: Um 60 þús. kr.). Ef látið er eitt yfir alla ganga, en það er hið almenna kjörorð nú, þá myndi tekjumissir útvarpsins eftir því, sem hv. 1. þm. N.-M. upplýsir, ekki nema minni upphæð en 60 þús. kr.

Mér finnst, að hér sé um allt of mikla tekjurýrnun að ræða til þess, að hv. þm. geti látið sér sæma að samþ. þetta. Ég vil segja, að þar sem þetta er einn mikilsverðandi liður þessa frv., sem hér liggur fyrir, þá hlýtur það að velta á því, hvernig fer um þá grein, hvort ég fyrir mitt leyti greiði frv. atkv. út úr hv. d.