02.01.1940
Efri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (2903)

105. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hefði óskað þess, að þessi dagskrá hefði legið frammi áður en ég tók til máls, en ég vildi þó nota minn þingmannsrétt til að segja nokkur orð, þótt ég við 1. umr. gerði málinu ýtarleg skil, eins og það var almennt rætt og eins og ég taldi, að ætti helzt að fara með það. Ég sagði þá og endurtek það nú, að þegar sú stjórn var mynduð, sem nú situr við völd og ég var samþykkur á sínum tíma að væri mynduð og ég ennþá styð, þá var svo tilskilið, að mér skildist, að meiri háttar deilumál milli flokka skyldu liggja niðri meðan þjóðstjórnin starfaði. Frá sjónarmiði okkar alþýðuflokksmanna höfum við reynt að halda þetta loforð svo vel sem kostur er á. Mér er ekki kunnugt um, að við höfum borið eitt einasta frv. fram, sem er svo mikið stefnumál flokkanna, að þurft hafi að rífast um það. Þótt ég saki ekki ríkisstj. þar um, þá hefir allmjög skort á af hálfu þm. beggja hinna flokkanna, að þetta áheit væri haldið, sbr. þetta frv. og sum önnur, eins og t. d. það, sem var verið að tala um áðan. Skal ég svo láta útrætt um þetta.

Innan allshn. hefir þetta mál verið rætt allmikið og hvernig n. gæti afgr. það, en það endaði með því, að n. varð þrískipt um málið. Hv. 11. landsk. taldi sig geta fylgt frv. óbreyttu, hv. 2. þm. S.-M. taldi sig ekki geta fylgt því óbreyttu, og ég hefi þá afstöðu, að ég tel ekki að frv. eigi að samþ. í neinni mynd. Er skiljanlegt, að nokkur dráttur hefir orðið á afgreiðslu málsins, þar sem n. var í þrennu lagi, en nú liggur málið loks fyrir til umr.

Ég vildi óska, að ég þyrfti ekki að endurtaka þau ummæli og rök, sem ég flutti hér við 1. umr., en ég verð að benda á, að á þeim tíma, sem liðinn er síðan frv. kom fram, hefir margt gerzt, sem gerir það að verkum, að ég tel, að jafnvel frá sjónarmiði hv. flm. muni minni ástæða til þess að gera það að l. nú en þegar þeir fluttu það.

Eins og ég tók fram við 1. umr., tel ég, að sú hugsun, sem í frv. felst, sé byggð á allmikilli vanþekkingu á eðli verklýðshreyfingarinnar og á því, hvernig hún skuli skipulögð, svo ég get ekki annað en verið á móti frv. Það er vitað, að verklýðsfélög eru stofnuð innan margra þjóðfélaga og hafa að vísu fengið sína löggjöf, en sú löggjöf beinist aðallega að því, hvernig skuli fara með deilumál milli atvinnurekenda og verkamanna. Það er alstaðar farið minna út í það, hvernig félögin skuli upp byggð, enda aldrei verið svo til ætlazt, að löggjöfin gripi inn í það. Mér er ekki kunnugt um, að í hliðstæðum l. í öðrum löndum sé neitt um það, hvernig félögin skuli upp byggð. Þar hafa félögin skapað sér sjálf sínar eigin reglur og verkalýðurinn hefir þróað þær sjálfur stig af stigi, þar til hann hefir verið búinn að skapa sér það, sem ákjósanlegast var. Og ég held, að við eigum ekki að binda það með löggjöf, hvort þessi eða hinn maður eigi að hafa leyfi til að vera í einhverju félagi, og ef um sundurlyndi í skoðunum eða öðru er að ræða, tel ég ekki ná nokkurri átt að ætla að negla menn þannig saman í einn félagsskap. Því að þeim, sem ekki geta verið saman, er hollara að skilja. Þótt það eigi ekki frekar við um verkalýðsfélögin en aðra. En þannig hefir það verið innan verklýðsfélaganna, að það hefir skapazt þar svo mikill ágreiningur, að þeim hefir ekki verið vært að vinna saman. Annað hefir viljað fara í suður, en hitt í norður, og þar af leiðandi hefir þessi klofningur sprottið, sem öllum er kunnugur. Og við vitum, hvar orsökina er að finna fyrir þessum klofningi. Það eru yfirleitt kommúnistar í landinu, sem valda honum. Þeir hafa tekið upp þær starfsaðferðir, sem hinir raunverulega áhugasamari verkamenn geta ekki fellt sig við. Og kommúnistar hafa svo með allskonar bauki og bramli reynt að ná undirtökunum í sínum félögum, flæmt úr félögunum rólegri og hugsunarsamari verkamenn og setið svo eftir í félaginu með fámennan hóp. [frh.]: