08.12.1939
Efri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (2940)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Síðast þegar mál þetta var til umr., boðaði ég, að ég mundi koma með brtt. við það og fékk frest til þess. Hefi ég nú borið fram brtt. á þskj. 386. Sníður það verstu gallana af þessu frv., en ég vil þó lýsa því yfir, að ég tel, að þar með séu þó alls ekki sniðnir af því allir vankantar, en ekki var tími til að ganga lengra.

Till. mín gerir sparisjóðseigendum miklu hægara fyrir um greiðslu þessa vaxtaskatts. Það þarf ekki að flytja heim í hérað hluta af vöxtum þeirra, sem svo dreifðust út um héraðið og yrðu eyðslufé. Ég býst við, að brtt. yrði til þess, að menn, sem fé eiga í sparisjóðum. verði minna hræddir en annars væri og hlaupi síður til að taka innstæðu sína út og lána síðan Pétri og Páli, sem getur orðið vafasamt. því að ekki er víst, að trygging fengist fyrir slíkum lánum.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa till. Hún er borin fram af okkur hv. 1. þm. N.-M., og verður að skeika að sköpuðu um, hvort hún verður samþ. eða ekki, en ég segi það, að ég er í miklum vafa um, þó að till. verði samþ., hvort ég fylgi frv. eða ekki.