04.01.1940
Efri deild: 105. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (2972)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

*Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Við þm. Sósíalistafl. höfum áður lagt fram á Alþ. frv. til l. um vaxtaskatt, sem ekki hefir fengizt rætt. Við höfum einnig fylgt því frv., sem hér liggur fyrir, þótt það sé í dálítið öðru formi. En þegar við bárum fram okkar frv., þá lögðum við ríka áherzlu á, að um leið og það væri lögfest, þá væru gerðar ráðstafanir til þess að veðdeild Landsbankans yrði aftur opnuð og að bankinn byrjaði á ný að kaupa bankavaxtabréf sín. Þetta gerðum við vegna þeirrar hættu, sem í því fælist að samþ. svona l. án slíks ákvæðis, þar sem þau auðveldlega gætu leitt til stórkostlegs verðfalls á bréfunum og orðið til þess að torvelda mjög byggingar í landinu. Við erum enn þeirrar skoðunar, að það sé hættulegt að samþ. löggjöf sem þessa, án þess jafnframt að gera ofannefndar ráðstafanir. Ég mun því bera fram svo hljóðandi brtt. við bráðabirgðaákvæði frv.: „Ríkisstjórninni heimilast að undanþiggja eigendur bankavaxtabréfa Landsbankans undan lögum þessum, unz Landsbanki Íslands hefir hafið kaup á bankavaxtabréfum sínum að nýju.“

Það er þá fyrst og fremst sú ástæða, sem ég hefi skýrt frá, sem veldur því, að ég tel varhugavert að samþ. frv., og í öðru lagi það, að frv. er ekki nema svipur hjá sjón nú orðið, þar sem það nær aðeins til lítils hluta þess fjár, sem upphaflega átti. að koma undir á kvæði þess. Ég mun því, svo framarlega, sem ekki fæst vissa fyrir því, að brtt. mín fáist samþ., greiða atkv. með hinni rökstuddu dagskrá, sem fram er komin.