05.12.1939
Neðri deild: 75. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (3007)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

*Frsm. (Emil Jónsson) :

Ég vildi aðeins segja fá orð um þessa síðustu till. Það er engan veginn óalgengt á Alþingi, að menn séu ekki á eitt sáttir og að mál geti komið til atkvgr., þó að svo standi á. Það er oft, að mál ná framgangi á eins til tveggja atkv. mun, án þess að þeim hafi verið vísað til stj. Ég tel því rétt, að menn sýni hug sinn til þessa máls með því að greiða um það atkv.

Ég skal ekki lengja umr. eða endurtaka það, sem ég hefi áður sagt. En þó var eitt í ræðu hæstv. forsrh., sem ég vil minnast á. Hann sagði, að með þessu væri verkstjórum gefið eitthvert ógnarvald til að stöðva vinnu, til þess að fá framgengt kröfum um hækkað kaup til dæmis. En þetta er ekkert sérstakt að því er verkstjórana snertir. Þeir hefðu í þessu efni nákvæmlega sömu aðstöðu og t. d. vélstjórar eða skipstjórar um að gera verkföll. Hér í frv. er þó farið skemmra, þannig að ráðh. er sett í sjálfsvald, hvaða kröfur hann gerir til þessara manna. Hann getur ákveðið með reglugerð, hverjir komi í þessa stétt. Þetta er sá mikli munur bæði á þessu frv. og iðnlöggjöfinni, og eins á aðstöðu verkstjóra eftir frv. og aðstöðu vélstjóra eða skipstjóra. Það kemur því úr hörðustu átt, er hæstv. ráðh. heldur því fram, að þessir menn geti tekið sér slíkt ógnarvald úr hans greipum, þar sem það er á hans valdi að ákveða þau skilyrði, sem þeir verða að uppfylla.

Þá langar mig til að leiðrétta það, sem hv. þm. Borgf. sagði, er hann kallaði það mansal eða þrælahald, þó að nemandi sé ekki látinn fara úr verksmiðju um leið og meistari, sem hann hefir numið hjá. Fyrirtækið, sem nemandinn vinnur hjá, getur hafa ráðið meistarann til að kenna honum aðeins stuttan tíma, t. d. eitt ár eða jafnvel einn mánuð. Ef kennari við einhvern skóla færi að öðrum skóla, ætti þá nemandinn líka að þurfa að fara með honum? Það er því alveg fráleitt að kalla þetta mansal. Eins er það auðvitað, að iðnaðarmenn geta neitað að taka á móti iðnaðarvarningi úr öðrum héruðum, ef þeim sýnist. Það er eins og ef ég og flokkur manna tækjum okkur saman um að éta ekki kartöflur af Akranesi. Enginn gæti bannað okkur það.