08.11.1939
Efri deild: 56. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (3385)

104. mál, skattundanþága af stríðsáhættuþóknun

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Ég ætla ekki að deila við hv. 2. landsk. um það, hvort meiri eða minni óánægja ríki meðal sjómanna út af stríðsáhættuþóknuninni. Það mál má ræða á öðrum vettvangi, og það kemur þessu frv. ekki mjög mikið við. Hann fullyrti í öðru orðinu, að um enga óánægju væri að ræða, en í hinu, að hún væri horfin, svo að eftir því hlýtur hún þó að hafa verið til. Annars vil ég aðeins segja það út af þeirri fullyrðingu hv. 2. landsk., að hér sé um vanþekkingu hjá mér að ræða, að ég hygg, að hann geti ekki sjálfur um það borið. Hann hefir ekki kallað saman fund í Sjómannafélagi Reykjavíkur til þess að ræða þetta mál. Mér er ekki kunnugt um, að mínir flokksmenn hafi reynt að blása upp óánægju meðal sjómanna út af þessu.

Hv. 2. landsk. upplýsti, að hér væri á ferðinni stjfrv. um þetta efni og að það væri að ýmsu leyti víðtækara en þetta frv. Samkv. því, sem mér er kunnugt, fer það frv. fram á, að hálf stríðsáhættuþóknun sjómanna verði skattfrjáls, og er það þá ekki eins víðtækt sem þetta frv. Það skiptir mig engu máli, hvort frv. verður lagt til grundvallar, því að það má flytja brtt. við það. En hitt þykir mér nýstárleg kenning hjá hv. 1. þm. Eyf., að úr því að von sé á öðru frv. um sama efni, beri ekki formsins vegna að vísa þessu frv. til n., óháð innihaldi þess. Ég held, að það sé venju samkv. að vísa frv. til 2. umr. og n., þótt annað frv. komi fram um sama efni, og mælist ég til, að svo verði gert, og fjhn. fái þetta frv. til meðferðar ásamt stjfrv.