23.03.1939
Efri deild: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

50. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Brynjólfur Bjarnason:

Hv. 5. landsk. hélt því fram, að því er mér skildist, að það myndi engin veruleg áhrif hafa á flokkaskipun í útvarpsráði, hvort útvarpsnotendur kysu fulltrúa í það samkv. núgildandi l. eða hvort Alþ. kysi þá alla, eins og verða myndi, ef þetta frv. verður að l. Hann sagði, að það yrði að renna upp nýtt ljós fyrir sér, ef hann gæti skilið það, sem ég benti á, að kosning af hálfu útvarpsnotenda gæti farið öðruvísi en kosning Alþ. Hann áleit, að Sósíalistafl. kæmi engum manni að hvort sem væri. En nú er það svo, að kosning útvarpsnotenda í útvarpsráð þarf ekki endilega að vera eingöngu pólitísk, eins og hv. 5. landsk. tók réttilega fram, og jafnvel þótt hún yrði algerlega pólitísk, geta allmargir útvarpsnotendur hafa skipt um skoðun síðan kosið var seinast, svo að ekki er unnt að fullyrða neitt um það, hvernig hún myndi fara. Ég get vel skilið það, að það hefir ekki runnið upp meira ljós fyrir hv. landsk. en það, að hann kallar okkur ábyrgðarlausa, enda er það að vissu leyti rétt, því að við berum enga ábyrgð á því ástandi, sem nú ríkir í þjóðfélaginu.

En hvað snertir annað, sem hv. 5. landsk. sagði, verður að segja, að það var því miður alger útúrsnúningur, svo sem þegar hann hélt því fram, að ég vildi fækka ráðh. úr þrem niður í einn, eða að Alþ. kæmi aðeins saman áttunda hvert ár. Ég hélt því fram, að ef ætti að spara lýðræðið, mætti spara á öðrum sviðum miklu hærri upphæðir en hér er um að ræða, og jafnframt sagði ég, að ef ætti að spara, þá ætti að bera annarstaðar niður en hér. Ég held þess vegna, að ekkert hafi komið fram í ræðu minni, sem hafi gefið hv. á. landsk. tilefni til að halda slíku fram, sem hann sagði, né nein önnur rök gegn því, sem ég hélt fram, og fyrir mitt leyti mun ég halda fast við það, sem ég sagði áðan.