05.03.1940
Neðri deild: 10. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

41. mál, íþróttasjóður

Flm. (Pálmi Hannesson):

Herra forseti! Frv. þetta á þskj. 50 er flutt að tilhlutun hæstv. forsrh. Eins og getið er í grg. þess, ber að skoða það sem viðbót við lögin um íþróttir, sem samþ. voru á síðasta þingi, og frv. var samið af þeirri n., sem unnið hafði að íþróttalögunum. Þegar það frv. var fullbúið af hálfu n., hafði henni enn ekki unnizt tími til að rannsaka til hlítar þær tekjuöflunarleiðir, sem til greina gátu komið. Nefndin sá ekki ástæðu til að halda eftir frv. þess vegna, þar sem hæstv. forsrh. óskaði eindregið eftir, að það yrði lagt fyrir síðasta Alþingi. Síðan hefir n. athugað málið og orðið sammála um að leggja til, að þær leiðir tvær verði farnar til tekjuöflunar, sem frv. greinir, — í fyrsta lagi, að ríkisstj. láti gera stimpilmerki til ágóða fyrir íþróttasjóð; skulu þau fylgja öllu áfengi og tóbaksvörum, sem selt er í landinu, og miðast við 1½% af heildsöluverði; en í öðru lagi, að ríkisstj. sé heimilað að leyfa íþróttanefnd að reka veðmálastarfsemi í sambandi við íþróttakappleiki til ágóða fyrir íþróttasjóð, samkv. nánari ákvæðum, er ríkisstj. setur með reglugerð.

Samkv. upplýsingum þeirra tveggja ríkisstofnana, sem annast alla heildsölu þessara stimpilskyldu vara, sem 1. gr. getur, nemur heildsöluverð þeirra nálægt 7 millj. kr. á ári. Tekjur íþróttasjóðsins af stimpilgjaldi þessu ættu því að nema röskum 100 þús. á ári. Nú kann mörgum að virðast þessar vörur nægilega dýrar fyrir, þótt ekki sé þessu viðbætt. En á hitt er að líta, að verðhækkun á þeim er beinlínis viljandi gerð hindrun þess, að þær gangi út. Verðlaginu er haldið ákaflega háu til þess að draga úr notkun þeirra sem eituryfja, er ríkisvaldið hefir lengi talið skaðleg, þótt ekki þyki næg ástæða til að banna hana með öllu. Nú má gera ráð fyrir, að hækka verði verðlag þessa varnings til þess, að hann sé ekki einn undanskilinn hinni almennu verðhækkun, sem nú er að verða. Þá munar minnstu um 1½% hækkun. Á einni flösku áfengis af algengri tegund næmi það 15 aurum, og menn sjá ekki í meira, þegar þeir eru að fóðra áfengissalana með því að greiða þeim tvöfalt heildsöluverð fyrir flöskuna. Ég get ekki skilið annað en að það sé rökrétt, að ríkið taki nokkuð af álagning þessara vara til að hamla móti óhollustunni, sem af þeim stafar, en sú er einmitt hugsunin í 1. gr. frv.

Í 2. gr., um veðmálastarfsemina, er farin leið, sem mjög er notuð með nágrannaþjóðum, t. d. Svíum og Bretum, og ekki aðeins til tekjuöflunar, heldur einnig til þess að auka athygli á íþróttastarfseminni. Veðmálin geta verið einhver bezta auglýsing, sem hugsazt getur. Hér á landi er ekki von til þess, að starfsemi þessi gefi mikinn arð í fyrstu. En að því gæti komið, að íþróttasjóði bærist þar mikill tekjuauki.

Það mun ekki næsta óvarlega áætlað, að árstekjur íþróttasjóðs samkv. frv. ættu að verða 120 þús. kr. Með því ætti íþróttunum að vera tryggður verulegur framgangur um næstu framtíð. En allir vita, að ekki veitir af þessu fé.

Á síðasta þingi kom það fram sem almenn og eindregin skoðun, að íþróttir væru eitthvert bezta ráðið til þess að ala æskulýðinn upp til meiri dugs og starfshæfni en hann hefir. Við, sem minnumst síðasta ófriðar eða áttum æsku okkar þá, getum ekki gleymt þeirri flóðöldu, sem skall yfir landið og bylti um öllum hugsunarhætti og lífsvenjum. Við hljótum að gera ráð fyrir, að þetta endurtakist á einhvern hátt í sambandi við stríðið, sem nú geisar, og yfir landið flæði margvísleg erlend áhrif til ills og góðs, mjög eftir því, hvernig þjóðin er undir þau búin, og þá sérstaklega æskulýðurinn. Ég get oft ekki varizt áhyggjum af þessu, m. a. í sambandi við skólastarf mitt. Oft er talað um það, hvað gera þurfi fyrir æskuna, en verður minna úr, þegar breyta þarf fögru orðunum í klingjandi málm. Hér hefir farið fram og er að fara fram nýsköpun, — það er verið að byggja upp landið og menning þess og hverskonar verðmæti að aukast. En það er alþekkt fyrirbrigði úr sögu þjóðarinnar og einstakra ætta hennar, að þegar 2–3 kynslóðir eru búnar að berjast við að skapa sér verðmæti, ættararf, kemur venjulega fram einhver sá seggurinn, sem sólundar því gersamlega á einum mannsaldri. Þó að við sköpum verðmæti, hver getur þá vitað nema sú kynslóð komi, sem sói og glati þeim öllum á stuttri stund?

Ég er ekki í vafa um það, að líkamsmenning er mikils virði og tryggir flestu öðru betur viðhald og þróun annarar menningar. Íþróttirnar eiga að geta stælt upp í unga fólkinu þróttinn og kjarkinn til nálega hvers sem vera skal, — skapað alhliða þjóðmenning, ef vel er á haldið. Ég er sannfærður um, að rétt er að taka peninga til íþrótta af þeim ofurskatti, sem áfengi og tóbak heimta af þjóðinni, og þannig á að sýna almenningi um leið, að óskað er eftir stefnubrytingunni: Frá nautnameðulum til íþrótta.

Ég óska þess, að frv. fái fljóta afgreiðslu og verði vísað til 2. umr. og fjhn.