02.04.1940
Neðri deild: 28. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

40. mál, alþýðutryggingar

*Eiríkur Einarsson:

Ég hefi ekki miklu við það að bæta, sem tekið var fram af 1. flm. þessarar brtt., en vil þó aðeins skeyta þar við nokkrum atriðum. Ég vil fyrst og fremst taka það fram, að það er markmið örorkutrygginganna að sjá hinum eldri og uppgefnari mönnum farborða, ef eitthvað ber út af um heilsu og lífskraft. Það var tekið fram af hv. þm. Seyðf., að þeir, sem betur væru settir, kæmust af með það að borga aðeins lítinn skatt til þessa sjóðs. Ég verð þó að álíta, að starfsfólk bankanna sé þarna sett undir svipuð l. sem aðrir íslenzkir borgarar. Það er að vísu alveg rétt, að því fátækara sem fólkið er og því lægri laun sem það hefir, því erfiðara veitist því að standa skil á iðgjaldagreiðslum. En þó að hér sé ekki um háar upphæðir að ræða, þá er þess þó að gæta, að fyrir starfsmenn bankanna er þetta algerlega aukagreiðsla. Það eru lág launakjör, sem þetta fólk á við að búa; þess vegna er það mjög tilfinnanlegt, ef það er lögskyldað til þess að greiða slík aukagjöld. Þá hefir verið minnzt á það, að hætta væri á því, að slíkir sérsjóðir rísi upp, en hér er ekki hægt að segja með neinum rétti, að sérsjóður sé að rísa upp, því að hann var lögfestur 1928 og er hann því orðinn 12 ára gamall. Þessi löggjöf um, að Landsbankinn skyldi greiða gjald í lífeyrissjóð, er því til orðin löngu áður en alþýðutryggingarl. voru sett. Þess vegna er það, að hér er verið að róta við öðru lagasetningarfyrirkomulagi, sem var til löngu á undan. Á þessu finnst mér þurfa að gera greinarmun. Ef séð er ofsjónum yfir því, að bankafólkið fái notið þessara sérréttinda, sem landsbankal. veita, finnst mér vera langhyggilegast að gera þar lagabreyt., til þess að fólkið komist undir þær skyldur, sem hér er lagt til, og allir njóti sama réttar. Það verður að gera kröfu til þess, að bankafólkið fái þá að vera í friði fyrir öðrum lagasetningum í þessu sambandi, og að það þurfi ekki að sæta lakari kjörum en almenningur.

Ég skal svo láta máli mínu lokið, en vil þó aðeins segja það, að það eru ýmsir aðrir, sem njóta þeirra réttinda að fá að vera í friði fyrir þessari lagasetningu. Það má minna á embættismenn ríkisins. Það má kannske deila um það, hvort þeir hafi betri kjör, en þeir hafa hingað til verið látnir óáreittir, og þá mættu kannske starfsmenn bankanna fá að fylgja þeim. Ég vil því leggja, til, að frestað verði nú lögfestingu um þetta mál, og að notaður verði tíminn þar til á næsta þingi til nánari athugunar á því, hvort ástæða er til að samræma þetta nánar. Ég þykist vita, að ýmsir hv. þm. vildu gjarnan hafa eitthvert svigrúm til þeirra athugana. En ég vil samt mælast til þess, ef þetta frv. verður látið ganga áfram, að brtt. 116 verði samþ. En eins og ég hefi tekið fram, þá álít ég, að ef farið verður að róta við þessu á annað borð, þá ætti að gera það svo um munaði og gera breyt. á landsbankal., þannig að fólkið byggi við sama öryggi og aðrir að því er tryggingarnar snertir.