15.04.1940
Efri deild: 35. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

8. mál, jarðhiti

*Magnús Gíslason:

Herra forseti! Hv. 2. þm. S.-M. hefir mælt gegn brtt. minni með þeim rökum, að hún mundi gera frv. ennþá ófullkomnara en það er. Ég skil þetta ekki. Í 4. gr. frv. sjálfs er gert ráð fyrir, eins og hv. þm. hefir viðurkennt, að meðeigandi geti eignazt forkaupsrétt á hitaorku. Þetta er að vísu nýmæli í okkar löggjöf. Yfirleitt hafa meðeigendur ekki forkaupsrétt í jörðum, heldur aðeins í þeim tilfellum, ef þeir eru ábúendur, að nokkru leyti eða öllu, á parti þeim, sem selja skal. En ef gengið er inn á þessi ákvæði 4. gr., skilst mér næsta sporið vera að veita meðeiganda forkaupsrétt á meira en orkunni, eins og ég legg til. Þó að meðeigandi geti eignazt hana, kemur honum það að mjög litlu liði, ef hann fær hvorki rétt til að kaupa né leigja land þar hjá, eins og þarf til nýtingar orkunnar. Ég held því, að brtt. mín sé til stórra bóta á frv.

Ég get ekki horfið frá því, að lögin eru illa undirbúin. Í fyrsta lagi er ég í mjög miklum vafa um, hvort þau geti náð til annars en jarðhitans sjálfs. Bæði fyrirsögn og 1. gr. frv. takmarka efni þess við hann einan. Í 3. gr. er farið að tala um að hagnýta „hveri og laugar“ „til heimilisþarfa, framleiðslu og iðnaðar“, en ekkert um önnur verðmæti, sem til kunna að vera í sambandi við jarðhitann. Í öðru lagi skortir flestar reglur um, hvernig eigi að nota orkuna, sbr. það, sem segir t. d. í vatnalögunum, að búþörf gangi fyrir heimilisþörf og heimilisþörf fyrir iðnaðarþörf o. s. frv. Þarna eru engar reglur, sem samsvari því, er í vatnalögum segir um vatnamiðlun, og engar reglur um það, ef nota ætti jarðhita til upphitunar á stórum svæðum, ekkert um það, ef félög ætla að notfæra sér hita í stórum stíl. Ég hefði kosið að vísa þessu máli til ríkisstj. til nýrrar og betri rannsóknar.

Ég geri það ekki að kappsmáli, hvort brtt. mín verður samþ. En ég tel, að það eigi að auðvelda mönnum að eignast jarðhita ásamt því landi, sem hann er í, eða veita þeim forleigurétt að hvorutveggja. Með því einu móti nær forkaups- eða forleiguréttarákvæði 4.gr. tilgangi sínum, og tel ég, að brtt. bæti nokkuð úr ágöllum frv.