18.04.1940
Neðri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

119. mál, bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

*Sveinbjörn Högnason:

Ég vildi segja aðeins örfá orð. Frv. þetta er flutt af fjhn. og er í beinu sambandi við frv. um að fella niður skattfrelsi útgerðarfélaganna. Í lögum þeim, sem hér um ræðir, er það gert að skilyrði, að þau lög skuli gilda á meðan lögin um skattgreiðslur útgerðarfélaga eru í gildi. Nefndin leit svo á, að rétt væri, að stjórnin fengi að kveða á um það, hvort þessi lög um bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjörð ættu að falla alveg niður, og ég hygg, að útlitið í kaupstöðunum, bæði Hafnarfirði og annarstaðar, sé ekki svo glæsilegt, að bæjarfélögunum muni veita af sínu. Eins og segir í grg., er þetta frv. um að framlengja lögin, þrátt fyrir það, þótt frv. um að fella úr gildi skattfrelsi útgerðarfyrirtækjanna næði fram að ganga. Hefir ríkisstj. það í hendi sinni, hvort hún telur kaupstaðinn þurfa á þessum tekjustofni að halda eða ekki, og telur nefndin það rétt, að stjórnin hafa þessa heimild eins og nú er útlitið í kaupstöðunum.