07.03.1940
Efri deild: 12. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (1682)

46. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég ætla ekki að víkja neitt sérstaklega að deilumálinu í sambandi við innflutningshöftin, heldur aðeins víkja nokkrum orðum að frv. sjálfu og þeim breyt., sem það hefir að geyma á því skipulagi, sem nú gildir. Ég vil einnig greina afstöðu Alþfl. til þessa máls. Ég kem þá að höfuðatriðinu í frv., þ. e. hvernig nefndin skuli skipuð. Það er gert ráð fyrir, að það verði með nokkuð öðrum hætti en áður hefir verið. Það er gert ráð fyrir, að n. verði skipuð þrem mönnum, þannig að einn sé skipaður eftir tilnefningu verzlunarráðs Íslands, einn eftir tilnefningu S. Í. S. og einn með samkomulagi milli ráðh., og skal hann vera oddamaður. Í grg. frv. er talað um það, að þeir aðilar, sem hér eigi einkum hlut að máli, séu kaupmenn og kaupfélög. Þessari skoðun er Alþfl. ekki samþykkur. Hann álítur, að þetta mikla vandamál, innflutningurinn til landsins snerti miklu fleiri aðila en kaupmenn og kaupfélög. Þetta mál varðar ekki hvað sízt neytendurna í landinu. Það má líka minna á heilar stéttir, sem hafa hér mikilla hagsmuna að gæta, t. d. iðnaðarmenn og útgerðarmenn. Iðnaðarmönnum er það hagsmunamál að fá vörur til landsins, til þess að geta haldið áfram iðn sinni. Útgerðarmenn þurfa að fá vörur til þess að geta haldið áfram útgerðarstarfsemi sinni. Þess vegna held ég, að það sé ekki hyggilegt að miða innflutninginn eingöngu við kaupmenn og kaupfélög, jafnvel þó að einn maður væri oddamaður af ríkisins hálfu. En sá galli er á skipun þessa oddamanns, eins og hæstv. viðskmrh. benti á, að það gæti orðið nokkuð örðugt í framkvæmd að koma þessari skipun á. Það hefir verið þannig frá upphafi þessara mála, að í gjaldeyrisnefnd hefir verið einn maður, sem hefir varið sjónarmið neytenda í landinu, og ég álít, að hann megi alls ekki hverfa úr gjaldeyrisnefnd. En ég álít, að nokkur hætta geti verið á því, eftir þeirri skipun, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég vil þess vegna lýsa yfir þeirri skoðun Alþfl., að hann er ósamþykkur þeirri nýbreytni, sem hér er lagt til um skipun n. Rökin fyrir þessu máli eru þau, að það eru svo margir menn í landinu, sem þetta varðar, sem eiga rétt á því, að þeirra hagsmuna sé gætt. Alþfl. telur, að með þessari skipun n. geti réttur neytenda orðið algerlega fyrir borð borinn. Ég vildi strax í upphafi lýsa þessari almennu afstöðu Alþfl., án þess að víkja sérstaklega að þeirri deilu, sem staðið hefir milli kaupmanna og kaupfélaga um skiptingu innflutningsins milli þessara tveggja aðila. Ég sé ekki ástæðu til þess að víkja að því atriði nú sérstaklega. Ég álít, að það ætti að vera möguleiki til þess, að því yrði þannig fyrir komið, að báðir aðilar mættu við una.

Ég læt svo þessi orð nægja um afstöðu Alþfl. til þessa máls, að hann er andvígur þeirri skipun n., sem hér er farið fram á með þessu frv. A1þfl. telur, að leggja beri höfuðáherzlu á það, að það sé tryggt, að í n. sé fulltrúi almennings í landinu, sem gæti þess, að réttur hverrar stéttar um sig sé ekki fyrir borð borinn, og ekki ráði eingöngu sjónarmið þeirra manna, sem fyrst og fremst hugsa um innflutninginn sjálfan og sjá um dreifingu hans meðal landsmanna.