18.04.1940
Neðri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Sú afgreiðsla, sem þetta mál fékk hér við 2. umr. í dag, var næsta furðuleg, þar sem hv. dm. fannst ekki þörf á að takmarka að neinu leyti, hvernig þessi dýrtíðaruppbót væri greidd, eða taka tillit til þess, hvort hennar væri þörf eða ekki, heldur skuli, eins og frv. liggur fyrir eftir 2. umr., ákveðin hæst dýrtíðaruppbót til þeirra, sem hæst hafa launin, en að sama skapi lægst til þeirra lægst launuðu. Þannig fær maður með 300 kr. mánaðartekjur aðeins um 27 kr. uppbót, en sá, sem hefir 1000 kr. á mánuði, fær um 50 kr., eða helmingi meira en sá, sem lifir við þurftarlaun. Það er ekki að sjá, að hv. þm. finnist þörf á því að fara sparlega með fé ríkisins eða gæta hófs um það, hvernig því er ráðstafað, þegar ákveða á þessar launagreiðslur, því að eins og nú stendur, eru þeir, sem hafa há laun, óneitanlega öruggastir með afkomu sína í þjóðfélaginu. Annars gæti vel svo farið, ef boginn er spenntur svona hátt um gegndarlausa fjáreyðslu, að kæmi að því, að skera þyrfti niður laun þessara manna, ekki síður en hæstv. fjmrh. óskaði nú heimildar til þess að skera niður um 35% framlög til verklegra framkvæmda, þar á meðal til landbúnaðarins, en þau framlög hafa gert sitt til þess að hjálpa mönnum til að haldast á jörðum sinum, svo að þeir þyrftu ekki að bætast í hóp atvinnuleysingjanna hér á mölinni, sem er ærinn fyrir.

Hv. deild vildi ekki fallast á till. fjhn. um að veita ekki uppbót nema á þau laun, sem væru svo lág, að þess þyrfti sérstaklega með, heldur skyldi verðlagsuppbótin ganga sem almenn launahækkun án tillits til þess, hvort um há eða lág laun er að ræða. Kemur uppbótin því að minna gagni fyrir þá, sem hafa lægst laun og mest þurfa hennar með. Meiri hl. fjhn. vill nú enn gera tilraun til þess að bæta þetta aftur að nokkru, þótt það verði hvergi nærri eins fullkomið og ef brtt. okkar við 2. umr. hefðu verið samþ., þannig að setja tvennskonar hámark á verðlagsuppbótina, svo að þeir, sem hafa yfir 8000 kr. á ári samanlagt, fái enga verðlagsuppbót skv. lögunum, og þeir einhleypir menn, sem á sama hátt hafa 4800 kr. á ári, fái heldur enga verðlagsuppbót. Ég get ekki skilið, að nokkur þm. geti litið svo á þetta mál, að þeir, sem hafa þessi laun, séu mjög þurfandi, miðað við fjöldamarga aðra í þjóðfélaginu, og vildi ég því óska, að hv. deild gæti fallizt á þessa till. okkar.

Þá hefir meiri hl. fjhn. flutt brtt. þess efnis, að dýrtíðaruppbótin skuli ekki reiknuð eftir sama mælikvarða, þegar um föst laun er að ræða, og uppbótin á laun verkamanna; það er vitanlega mikill munur á því að hafa tryggt starf yfir árið og fá föst laun eða að byggja afkomu sína á stopulli vinnu. Það er því ekki nema réttmætt, að dýrtíðaruppbótin á föstu launin sé lægri en á laun verkamannsins, sem ekki hefir vinnu nema endrum og eins. Við höfum því lagt til að draga 10% frá því, sem gert er ráð fyrir með þeim reglum, sem gefnar eru um greiðslu verðlagsuppbótar á verkakaup skv. gengisskráningarlögunum. Þótt þessar 2 brtt., sem meiri hl. fjhn. vill bera fram við 3. umr., verði samþ., er frv. frá okkar sjónarmiði hvergi nærri viðunandi, en með þeim eru þó sniðnir af því mestu vankantarnir.

Ég hygg, að hæstv. ríkisstj. megi gæta sín vel að stuðla ekki að því, að samþ. verði lög í þessu efni, sem eru til þess fallin að vekja beiskju hjá meiri hl. þjóðarinnar vegna framdráttarhagsmuna vissra stétta, sem þeir, er erfiðast eiga, telja, að hafi tryggasta aðstöðu til þess að sigra þá erfiðleika, er nú eru með þjóð vorri. Ég skal ekki neita því, að ríkisstj. hefir mikinn stuðning hjá þjóðinni og nýtur svo að segja óskipts trausts, á meðan hún brýtur það ekki af sér. Það er því skylda hennar að gera ekkert, sem geri þann almenning, er að baki henni stendur, vonsvikinn yfir þeim ráðstöfunum, sem hún gerir. Ef frv. verður samþ. eins og það er eftir 2. umr., er fátt betur til þess fallið að vekja gremju eða jafnvel beiskju hjá fjölda manna í garð stj. og þeirra, sem að slíkri samþykkt standa.

Framundan eru áreiðanlega mjög erfiðir tímar fyrir allan almenning. Bera till. hæstv. fjmrh. það með sér, að hann óttast, að svo muni verða, þar sem hann óskar eftir mjög víðtækum heimildum til niðurskurðar á miklum fjárframlögum úr ríkissjóði. Almenningur mun ekki sætta sig við, að gerðar séu ráðstafanir í þá átt, að hvað sem á gengur skuli embættismannastéttinni og starfsmönnum ríkisins tryggð hærri dýrtíðaruppbót en verkamönnum með stopula atvinnu, samtímis því sem ríkisstj. beiðist heimildar til þess að skera niður fjárframlög til þeirra, sem eru miklu verr settir.

Ég vona, að hæstv. ríkisstj. beri gæfu til þess að leysa mál þetta á þann veg, að hún brjóti ekki af sér traust alls almennings, en það myndi hún án efa gera, ef hún leggur inn á þá óhappabraut, að fylgja þessu frv. fram gegnum þingið eins og það nú er.