19.04.1940
Efri deild: 42. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (1908)

16. mál, vegalög

*Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Ég held, að það sé óþarfi að fara að vísa þessu máli á ný til n., eins og hv. 1. þm. N.-M. talaði um. Fyrir það fyrsta er viðvíkjandi aðalatriðinu, sem hv. 1. þm. N.-M. talaði um, meiri hl. samgmn. sammála, því að ég, sem var í minni hl. að öðru leyti, vil nú skapa meiri hl., ef þess er þörf, með hv. form. n., um að styðja þessa till. Það kom til orða í n., að það væri sameiginlegur vilji til fyrir því að bæta inn svona „klásúlu“. Ég álít, eins og hv. 1. þm. N.-M., að þetta sé spor í rétta átt, sem gert hefir verið með þessum viðbótartill. En að því leyti, sem hv. 1. þm. N.-M. sér ekki ástæðu til að vísa þessu til n. og sagði, að þessu væri hraðað um of á síðustu stundu, þá er eins og menn, sem svona tala, hafi aldrei verið á þingi fyrr. Það ganga oft stærstu málin í gegnum þingið síðustu dagana með afbrigðum og næturfundum, og þetta er eitthvert það aumasta mál, samanborið við þau stórmál, sem verið er að afgreiða nú síðustu daga þingsins, án þess að menn geti um þau hugsað. Þegar svo þess er líka gætt, að meiri hl. samgmn. er fullkomlega andstæður málinu og hefir óskað að eyða því og hefir gert till. til að fella það, þá vil ég mótmæla því, að málinu sé vísað til n. til frekari rannsóknar. N. er þegar búin að sýna, að hún hefir ekki annan áhuga fyrir málinu en að stöðva það. Ég hefi ekki á móti því, að þetta mál verði fellt, ef verkast vill, eða látið daga uppi, af því að ekki vinnst tími til að afgreiða það, en að verið sé að leika sér með það á þennan hátt, því mótmæli ég, því að það eru engin skynsamleg rök fyrir því, að framhaldsathugun á málinu sé nauðsynleg, og þó menn kynnu að vilja athuga það nánar, þá er ekki nauðsynlegt, að það sé gert á þessu þingi.

Ég hefi ásamt 2 öðrum hv. þm. borið fram skrifl. brtt. um, að ekki einungis nýlagning vega, heldur einnig viðhald þeirra verði kostað af sýslunum þar til öðruvísi verður ákveðið, og þar með höfum við þessir þremenningar sýnt, að við viljum viðhalda sambandinu við sýslurnar og áhugann þar fyrir þessum málum, og þótti ekki ástæða til að skera þráðinn þarna á milli alveg sundur, eins og annars hefði verið gert.

Út af annari till. hv. 1. þm. N.-M. vil ég bera fram mótmæli, ekki einungis fyrir mína hönd, heldur einnig fyrir hv. þm. V.-Sk. og vegamálastjóra, því gr. um veginn í Vestur-Skaftafellssýslu er orðuð af vegamálastjóra og þessum hv. þm. og því engin ástæða til að vísa því til n.. af því að þessum atriðum óskar vegamálastjóri ekki, að sé breytt, því að eftir því, sem hv. þm. V.-Sk. segir mér, þá vill hann einmitt fá þennan veg, og það situr ekki á þessari hv. d. að fara að hræra í því.

Það er margt gott að segja um till. hv. 1. þm. N.-M. um veginn niður Fljótsdalshéraðið. Það er ein af fegurstu sveitum landsins og þarna má búast við, að komi brú á fljótið, áður en langt um líður, og verður þá vegakerfi Fljótsdalshéraðsins miklu betra en nú, þar sem eru tveir þjóðvegir, sinn hvorum megin við fljótið.

Mér þykir vænt um, að hv. 1. þm. Eyf. gat fallizt á að taka aftur till. sína um veginn á Árskógsströndinni, því að ef málið hefði þurft að fara þannig aftur til hv. Nd., hefði það getað fellt það. Þessi litla breyt., sem hv. 1. þm. Eyf. gerði, er réttmæt og eðlileg samgöngubót frá Bægisá yfir í Hörgárdal, og hún er vissulega til bóta. En ég mótmæli því kröftuglega sem nm. í samgmn., að málið verði sett til n., því það er aðeins til að drepa það, en menn verða þá að hafa hug til þess að drepa það í d.