22.04.1940
Neðri deild: 48. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

16. mál, vegalög

*Pálmi Hannesson:

Við þm. Skagf. höfum bæði á þessu þingi og fyrr á þingum borið fram brtt. við vegalögin. Að þessu sinni hafa till. okkar verið í þremur liðum: tveir þeirra hafa þegar verið samþ., en einn tókum við aftur, enda þótt það væri sá liðurinn í brtt. okkar, sem við lögðum einna mesta áherzlu á, að næði fram að ganga. Að við tókum till. þessa aftur hér í Nd. var aðeins til samkomulags. En nú er frv. komið aftur frá hv. Ed. og allmikið breytt frá því, sem Nd. afgr. það frá sér; þannig eru t. d. komnar inn í það brtt., sem teknar voru aftur hér í hv. Nd., og það till., sem við teljum hafa miklu minni rétt á sér en till. okkar, er við tókum aftur. Sumar þessar till. eru hinar furðulegustu, eins og t. d. till. um einhvern afskekktan útkjálkaveg, sem hv. þm. A.-Húnv. gat einhvernveginn smeygt inn í frv. Brtt. sú, sem við þm. Skagf. flytjum að þessu sinni og ég er að tala um nú, er um það, að 14 km. vegur frá Varmahlíð og fram að Mælifelli verði tekinn í tölu þjóðvega. Það, sem fyrst og fremst mælir með þessari brtt., er það, að vegarkafli þessi myndi tengja saman Skagfirðingabrautina og Kjalveg, en auk þess liggja að vegi þessum fjölbyggðar sveitir. Þegar um það er að ræða að mæta þörf dreifbýlisins, á slíkur vegur sem þessi fyllsta rétt á sér. Ég vil svo undirstrika það, að ég og samþm. minn leggjum mikla áherzlu á að fá þennan vegarkafla tekinn í tölu þjóðvega.