19.04.1940
Neðri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (2081)

26. mál, gengiskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Fyrir nokkru síðan minntist ég á frv. það, sem við hv. 4. landsk. höfum borið fram um breyt. á l. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi, og hæstv. forseti lofaði mér, að hann skyldi ýta á eftir því, að málið kæmi úr nefnd og fengi að sjá dagsljós hér í deildinni. Forseti átti þá sjálfur frv. hjá sömu hv. nefnd og ætlaði að reka eftir því. Það held ég hafi tekizt. Nú þætti mér mjög vænt um að heyra, hvort nokkur von er til þess, að n. skili áliti um þetta mál. Eins og hæstv. forseti hefir oft látið í ljós, eiga nefndir að skoða sig sem verkfæri þingsins og leysa þau verkefni, sem þeim eru fengin, en ekki til þess kjörnar að sýna flokkslega hlutdrægni í því að afgreiða ekki mál. Þó að við. þm. Sósíalistafl., eigum ýmis önnur mál óafgr. í nefndum, tel ég þetta brýnast, vegna þess hve viðurhlutamikið það málefni er, og vonast eindregið til þess, að það verði bráðlega tekið á dagskrá.