07.03.1940
Neðri deild: 12. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (2096)

45. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Fyrir síðasta þingi lá frv. til l. um innheimtu tekjuskatts og eignarskatts af vaxtafé, sem flutt var af fjhn. í Ed., en samið af milliþinganefnd í skatta- og tollamálum. Eftir að frv. þetta hafði verið til athugunar í báðum d. nokkurn tíma, urðu afdrif þess þau, að það var afgr. með rökst. dagskrá í Ed. 4. jan. síðastl. Byggðist sú afgreiðsla m. a. á þeirri ósk, að „málið kæmi í heppilegra formi fyrir næsta Alþ.“. Nú hefir ekki enn komið fram frv. um þetta efni að tilhlutun ríkisstj., og þess vegna höfum við hv. 2. þm. Skagf. komið með þetta frv., sem hér er til umr. og er á þskj. 58.

Þetta frv. er shlj. frv. því, sem afgr. var frá Ed. á síðasta þingi, en eftir það tók málið allmiklum breyt. hér í d.

Tilgangurinn með því að fá slíka löggjöf setta er að koma í veg fyrir, að verulegur hluti af tekjum manna af vaxtafé sleppi undan skatti, eins og nú á sér stað.

Þessum vaxtaeignum má aðallega skipta í tvennt: Innieignir í bönkum og svo verðbréf og skuldabréf.

Um innieignir í bönkum og sjóðum er það að segja, að skattanefndir munu hafa notað mjög mismunandi mikið þær rannsóknarheimildir, sem þær hafa samkv. skattalögunum, til þess að komast fyrir það, hverjir eigi slíkar eignir. Á ýmsum stöðum á landinu hafa skattanefndir gengið mjög ríkt eftir því hjá stjórnum sparisjóða að fá upplýsingar um innieignir einstaklinga. Aftur á móti er þetta talsvert öðruvísi með bankana, enda stórum óþægilegra að fá þar upplýsingar um þessa hluti. Þar mun vera talsvert af innstæðum, þar sem ekki eru tilgreindir eigendur með svo greinilegum nöfnum eða heimilisföngum, að hægt sé að átta sig á því, hvaða fólk er um að ræða. Einnig er þar talsvert af innstæðum, sem eigandi að er ekki nafngreindur.

Að þetta er framkvæmt svona mismunandi á ýmsum stöðum á landinu, veldur hinsvegar misrétti, sem illt er að haldist og þarf að fyrirbyggja. Milliþn. benti á 3 leiðir, sem mætti fara til lagfæringar á þessu. Í fyrsta lagi að setja ákveðin fyrirmæli bönkum og sparisjóðum um það, að taka ekki við fé nema skýrt sé tilgreint nafn og heimilisfang eigenda. Í öðru lagi, að upp væri tekin sú regla að skrá verðbréf og skuldabréf á nafn. Þessum leiðum vildi n. þó ekki mæla með. Hún benti einnig á þá leið, að leggja ákveðinn vaxtaskatt á allar þessar tekjur, en að þær væru að öðru leyti undanþegnar gjöldum. Ekki taldi n. þessa aðferð heppilega, en vildi hinsvegar mæla með þeirri leið, sem hér er lagt til, að farin verði, sem er sú, að taka ákveðinn hluta af vaxtatekjunum. En setja fyrirmæli um, að vaxtaskatturinn sé endurgreiddur þeim, sem telji fram vaxtatekjur á skattframtali. Að því leyti kemur þessi skattur ekki öðrum við en þeim, sem ekki telja fram.

Sumir telja að því er sparifé snertir, að það væri skynsamlegt að hafa litla eða jafnvel enga skatta á því, til að örva sparnaðarviðleitni almennings. Þó þessir menn hafi að vísu nokkuð til síns máls, en um þetta er skiptar skoðanir, þá verður tæplega um hitt deilt, að það sé óviðunandi ástand, að allmargir af þeim, sem eiga innstæður, greiði af þeim skatta, en fjöldamargir sleppi við þau gjöld, sem þeim ber að greiða samkv. lögum.

Þessar innstæður, sem hér er rætt um, munu yfirleitt vera smáar. Þær eru mjög margar, en yfirleitt hjá fáum um stórar fjárhæðir að ræða. Öðru máli gegnir með verðbréfin. Það er enginn vafi, að það fjármagn, sem í þeim liggur, er á fárra höndum. Og þeir, sem eiga þessi verðbréf, hafa oft meiri tekjur af þeim en vextina, þar sem kaupendur slíkra verðbréfa kaupa þau oft með miklum afföllum. Við flm. teljum, að óviðeigandi sé, að mikið af þessum eignum og tekjum sleppi við skatt.

Það hefir komið upp sá misskilningur í sambandi við þetta mál, að hér væri um nýjan skatt að ræða. Hér er alls ekki um nýjan skatt að ræða. Þetta er aðeins tilraun til þess að bæta innheimtuna á þeim sköttum, sem nú á l. samkv. að greiða.

Það er enginn vafi á því, að ríkissjóður mun á næstunni, vegna hins erfiða ástands, sem af stríðinu leiðir, hafa þörf fyrir auknar tekjur. Teljum við flm., að rétt sé að nota þær tekjulindir, sem fyrir eru, til hlítar, áður en til þess komi að leggja á nýja skatta. Af þessum ástæðum höfum við lagt til að bæta á þennan hátt innheimtuna á þeim gjöldum, sem nú elga að renna í ríkissjóð, en að því er stefnt með frv. okkar.

Ég vil svo óska, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.