16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (2239)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

*viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vildi aðeins fara nokkrum orðum um þetta mál, þar sem í raun og veru er hér um stórmál að ræða, því að verði gengið öllu lengra en gert hefir verið með setningu lagaákvæða um kaupgjald þeirra, er hafa kollektíva samninga, er komið út á mjög hálan ís. Ræða hv. þm. V.- Ísf., þótt stutt væri, ætti að færa mönnum heim sanninn um það.

Hv. þm. Snæf. flytur þetta frv. út frá þeirri hugsun, að þar sem búið sé að setja lagaákvæði um dýrtíðaruppbætur handa þeim, sem hafa kollektiva samninga, sé eðlilegt, að þetta fólk, verzlunarmannastéttin, fái sömu kjarabætur, þótt það sé ekki bundið slíkum samningum. Með því að flytja málið á þessum grundveili er gengið út frá því, að verzlunarmannastéttin fái ekki sómasamlega samninga við sína atvinnurekendur. Nú mun þetta ekki fullreynt, og er því að ófyrirsynju fyrir löggjafann að gripa hér inn i, auk þess sem þjóðfélagsleg vandræði geta ekki af því hlotizt, þótt einhverjar deilur kunni að rísa í einstökum tilfellum. Ef við nú tökum málið á þeim grundvelli, sem hv. þm. Snæf. flytur það á, er ekki hægt að taka eina stétt manna út úr og lögfesta verðlagsuppbætur henni til handa, heldur verður Alþ. að sjá til þess, að öllum verði tryggður sami réttur, og hlyti því af þeim ástæðum að fylgja þeim till. er hv. þm. V.-Ísf. boðar. Það þýðir ekki að hafa það í flimtingum, það þarf alveg eins að tryggja starfsstúlkum, vinnumönnum, kaupafólki o. s. frv. þessi réttindi.

Ég álít ekki rétt, að Alþ. fari inn á þessa braut, og það verður að treysta svo á almennan þegnskap manna, að atvinnurekendur taki tillit til hins erfiða ástands og verði við sanngjörnum kröfum launþeganna. Hinsvegar er óhugsandi að flytja þetta mál á sama grundvelli og ákvæðin í lögum um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi, því að þau ákvæði voru sett sem neyðarúrræði til þess að koma í veg fyrir deilur, sem þjóðfélagsleg vandræði gætu hlotizt af. — Það kann að vera, að einstaka menn verði útundan um kjarabætur, ef þetta frv. nær ekki fram að ganga, en það er ekki nægilega sterk röksemd til þess, að Alþ. stígi það spor, sem í frv. felst.

Ég álít það fjarri lagi að kalla þetta afturhaldssjónarmið, eins og hv. þm. Snæf. gerði áðan, en annars mun hv. þm. v.-Húnv. svara fyrir sig. — Ég mun því greiða atkv. gegn þessu frv. og sömuleiðis tili. hv. þm. V.-Ísf.