05.04.1940
Sameinað þing: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (2459)

95. mál, lýðræðið og öryggi ríkisins

*Ísleifur Högnason:

Hv. 1. landsk. hefir nýlega gert grein fyrir málstað okkar þm. Sósíalistafl. gagnvart þessu máli, og hefi ég litlu við það að bæta. Þó vil ég ekki láta hjá líða að mótmæla síðustu orðum hv. þm. Barð. Hv. þm. vitnaði í fundinn 4. des., þar sem samþ. var að reka þm. Sósialistafl. úr Þingmannasambandi Norðurlanda. Þetta var lokaður fundur, þar sem engir þingskrifarar voru og engir áheyrendur. Hv. þm. sagði, að ég hefði þar komið með hótanir um að koma því til leiðar, að hingað kæmi rússneskur her, sem réðist á landið. Þetta lýsi ég vísvitandi ósannindi, sem borin eru fram aðeins af því, að á þessum fundi var ekkert ritað af því, sem gerðist, og engir áheyrendur nema hv. þm. sjálfir, sem ég býst reyndar við, eftir sannleiksást þeirra að dæma almennt, að muni staðfesta þennan framburð hv. þm. Barð. Ég gerði aðeins gys að þessum ásökunum á hendur okkur um landráð og æsingunum gegn Rússlandi og varpaði fram þeirri spurningu, hvort skoða bæri þessi læti sem stríðsyfirlýsingu á hendur Sovét-Rússlandi. Ég sagðist ekki hafa verið kallaður til vopna og kvaðst ekki vita, hvort ég ætti að vera í herdeild Ólafs Thors eða Hermanns, og kvaðst ekki telja mína afstöðu til Rússa landráð fyrr en ég hefði verið kallaður til vopna.

Hv. þm. Barð. sagði, að hæstv. félmrh. hefði lýst yfir því, að þessi nýja herferð, sem hér er hafin, væri framhald af herferð þeirri, sem hafin var 4. des., en eins og hv. 1. landsk. þm. hefir lýst, voru ekki viðhafðar neinar lýðræðislegar aðferðir í því máli. Þá var aðeins lesin upp yfirlýsing frá öllum þjóðstjórnarflokkunum, en engar umr. fengust um málið. En mér skildist, að við værum bornir þeim sökum að hafa tekið afstöðu í styrjöld Finna og Rússa. Með því að ég var ekki vel heima í þessum málum, ætlaði ég að reyna að gera mér grein fyrir því, hvernig málstaður Mannerheims er og annara hvítliða í Finnlandi. Ég fletti upp í alfræðibók, sem hér er í þinginu, Encyclopadia Britannica. Þetta er talið ágætt heimildarrit, og hv. þm. til uppbyggingar skal ég geta þess, að þar má lesa á 254. bls. í 9. bindi, um Finnland, að uppreisn rauða hersins finnska hafi leitt til hvítra ofsókna gegn finnsku þjóðinni, þar sem 15000 körlum, konum og börnum hafi verið slátrað, og í júní 1918 hafi 73915 rauðir uppreisnarmenn, þar af 4600 konur, verið teknir til fanga og settir í fangabúðir, og þetta undir stj. Mannerheims, þessarar þjóðhetju, sem hann er kallaður. Nú má nærri geta, þar sem ekki eru liðin nema 22 ár síðan þetta varð og hann hefir enn tekið að sér vörn og sókn fyrir borgarastéttina finnsku, að ekki muni öll finnska þjóðin geta verið sameinuð undir forystu þessa manns. Og vegna þess, að við höfum ekki tekið afstöðu með þessum frægasta böðli finnsku alþýðunnar, á að setja okkur utangarðs í þjóðfélaginu. Annars er þetta auðvitað ekki annað en yfirskinsástæða. Þjóðstj. var áður búin að vinna svo mörg svívirðileg verk, að hún þurfti að beina frá sér athyglinni á gengislækkuninni, gífurlegri hækkun tolla og skatta, skattfrelsi togarafélaganna o. s. frv., og þetta var talin heppileg leið til þess. Síðan hafa daglega borizt hingað nýjar og nýjar fréttir, þar sem saman var hrúgað óhróðri um Sovétríkin, en Mannerheim og hans lið dáð fyrir hreysti, hugprýði og aðrar dyggðir. Á þessu byggir svo hv. þm. Barð. dóm sinn um Sovétríkin. Hann blandar saman sósíalisma og fasisma, og hefir ekki við annað að styðjast en þessar lygafregnir, sem oft á hverjum sólarhring hafa verið sendar þjóðstjórnarblöðunum hérna.

Svo að ég víki nokkrum orðum að till. þeirra hv. þm. S.-Þ., hv. þm. Borgf. og hæstv. félmrh. á þskj. 250, þá viðurkenndi hv. þm. Barð., að hún væri gagnsýrð af fasisma, gagnstætt till. hv. allshn. Það er rétt, að þessar till. eru mjög ólíkar. Það er auðvitað ekkert á móti því, að fólk sé varað við ofbeldisflokkum, og það er líka rétt, að tryggja verður lýðræðið sem bezt, og þar sem till. hv. allshn. fer fram á, að hæstv. ríkisstj.. sé falið að láta fara fram athugun á því, á hvern hátt hið íslenzka lýðræði fái bezt fest sig í sessi og varizt með lýðræðisaðferðum, sé ég ekki að annað lægi nær, eins og nú er ástatt, en að tryggja það, að minnihlutaflokkar séu ekki ofbeldi beittir, tryggja það t. d., að Sósíalistafl. megi fá húsrúm fyrir fundi sína, sem honum er nú meinað, afnema það, að þjóðstjórnarflokkarnir geti haft með sér nokkurskonar þjófafélag um auglýsingar handa blöðum sínum, koma í veg fyrir það, að þm. verði fyrir kjaftshöggum af ráðh. í sölum Alþingis o. s. frv. Ýmsum slíkum breytingum myndum við fagna.

Annars mun ég greiða atkv. gegn báðum þessum till., aðaltill. og brtt. n., því að ég tel núv. ríkisstj. ekki færa um að bæta úr því misrétti, sem hér er um að ræða, og að samþ. að fela ríkisstj. þessi mál„ væri að votta henni traust í stað vantrausts, sem hún á skilið.