18.04.1940
Sameinað þing: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (2574)

24. mál, innflutningur á heimilisnauðsynjum farmanna

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég hefi orðið þess var af ræðum þeirra hv. þm., sem talað hafa um þetta mál, að ef sú till. verður samþ. að vísa því til ríkisstj., þá myndi verða litið þannig á af ríkisstj., að þingið ætlaðist til þess, að spornað væri við eðlilegri ósk sjómanna í þessum efnum. Ég vil taka það fram, að ef samþ. verður að vísa því til ríkisstj., mun hún greiða fyrir þessum innflutningi eftir því sem í hennar valdi stendur. Eins og kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl., þá lit ég svo á, að Alþ. hafi ekki viljað taka sér þau völd fram í tímann. að ákveða, hversu langt skyldi farið í þessum efnum. Ég álít, að þetta sé mjög eðlileg afstaða, þar sem erfitt er fyrir Alþ. að gera ákvarðanir á þessum breytilegu tímum. Ég mun fyrir mitt leyti líta svo á, að Alþ. hafi viljað taka þetta mál til gaumgæfilegrar íhugunar í framtiðinni, og ekki viljað hnitmiða það, hve langt væri eðlilegt að fara í þessum efnum. Ég álít, að það sé mjög erfitt fyrir Alþ. að ákveða þetta, og þetta sé eitt af því, sem verður að leggja á vald ríkisstj., hve langt hún telur fært að ganga.

Þetta vildi ég segja til þess að fyrirbyggja, að þm. héldu, að þeir, sem beggja til, að þessari till. verði vísað til ríkisstj., vildu ekki, að þetta mál fengi afgreiðslu eftir því, sem föng standa til.

Ég vil að lokum segja það, að það hefir alltaf verið reynt, eins og fram hefir komið í umr. um þetta mál, að sjá um, að innflutningsleyfi fengist fyrir varning, sem menn hafa vísað fram gjaldeyri fyrir, og ég hugsa, að enginn ágreiningur hafi risið út af því. Hinsvegar hefir það valdið ágreiningi milli forráðamanna útgerðarfyrirtækja og gjaldeyrisyfirvaldanna, hve mikið af kaupi farmanna skuli vera í erlendum gjaldeyri, og er það aðalatriðið í þessu máli, en um það fjallar þessi till. ekki. En út af því vil ég aðeins lýsa því enn einu sinni yfir, að eftir því, sem ég veit bezt, standa nú yfir samningar milli sjómanna og útgerðarfyrirtækja um það, hve mikinn gjaldeyri skuli greiða í erlendri mynt. Útgerðarfélögin munu leita upplýsinga um það, hvort þau muni geta fallizt á þær niðurstöður, sem útgerðarfélögin og sjómenn semja um við gjaldeyrisyfirvöldin, eða útgerðarmenn og útgerðarfyrirtæki eigi heldur að sækja um gjaldeyrisleyfi til þess að borga vörur. Þetta vil ég aðeins taka fram, enda þótt það komi ekki þessari till. beinlínis við.

Ég tel miklu eðlilegra, að þessu máli verði vísað til ríkisstj. með þeim upplýsingum, sem fram hafa komið á báða bóga, bæði frá minni hálfu og hv. flm., og meiri hl. n. mælir einnig með þeirri meðferð þessa máls.