16.04.1940
Efri deild: 37. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

117. mál, veðurfregnir

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Ég vil aðeins taka það fram, að stj. hefir ekki látið í té neinar upplýsingar um það, sem liggur til grundvallar fyrir þessum ákvörðunum, aðrar en þær, sem getið er í grg., en mun reiðubúin að sjá til þess, að útsending veðurfregna byrji að nýju þegar unnt er, og eru þá líkur til, að þar geti orðið sjómönnum að meira liði en þær fregnir, sem nú er kostur á að birta. Það er eins og menn vita, að í seinni tíð hefir verið erfitt að spá um veður, vegna þess, að það hefir brostið upplýsingar síðan ófriðurinn brauzt út. Hefir þetta farið stöðugt versnandi, þannig, að það er skoðun þeirra, sem bezt þekkja þessi mál. að það sé erfitt að spá um veður svo öruggt sé, en án þess er þetta gagnslítill spádómur. Stj. hefir aðeins gert það, sem aðrir hafa gert. Hún mun hafa hliðsjón af því, sem þingmenn óska og þjóðin óskar, og stj. mundi óska þess, að sem fyrst verði hægt að hefja birtingu veðurfregna á ný, og þá fyrst og fremst að veðurfregnirnar gætu orðið öruggur leiðarvísir fyrir sjómenn.