30.03.1940
Efri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

84. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Jónas Jónsson:

Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp brtt. við þetta frv., á þskj. 275, sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. Reykv.:

„Við 2. Aftan við liðinn bætist: Þó er fjmrh. heimilt að greiða í þjóðleikhússjóð, ef fjárhagur ríkissjóðs leyfir, þann hluta af skemmtanaskatti ársins 1941, sem í sjóðinn hefði átt að renna samkv. nefndum l., en án álags samkv. síðari lagaheimildum.“

Eins og hv. þm. er kunnugt, þá hefir ríkissjóður síðan 1932 fengið allar tekjur af skemmtanaskatti, er áttu að renna í þjóðleikhússjóð, og hefir það leitt til þess, að þessi stóra bygging stendur enn alveg eins og hún var þá, og verður fyrir nokkrum skemmdum ár frá ári fyrir utan allt annað óhagræði, sem af því leiðir. Tap ríkissjóðs mun vera um 50 þús. kr. á ári við það, að húsið stendur ónotað. Þjóðleikhúsið myndi gefa af sér a.m.k. 50 þús. kr. tekjur á ári, væri það fullgert. Menn geta deilt um það, hvort rétt hafi verið að ráðast í þessa dýru byggingu, en um það tjáir ekki að sakast nú. Byggingin hefir nú verið reist á þeim stað, sem hún stendur nú, og var það gert samkv. heimiid frá Alþ. 1923, og lagður til hliðar skemmtanaskattur til að koma upp þessu húsi. Enginn vafi er á því, að ríkisstj. gerði hér réttar ráðstafanir til þess að koma upp veglegu þjóðleikhúsi, og ríkisstj. ætlaðist til, að byggingunni yrði haldið áfram og húsið fullgert. En hinn þröngi fjárhagur ríkissjóðs á undanförnum árum hefir valdið því, að skemmtanaskatturinn hefir verið látinn renna í ríkissjóð. Ég ætla ekki að fara út í það, hve mikii upphæð það væri, heldur skýra brtt. mína á þskj. 27 á þá leið, að hæstv. fjmrh. er gefin heimild til að skila þessu fé, ef svo skyldi takast til, að fjárhagur ríkisins yrði sæmilegur á árinu 1941. Ekki virtist rétt að fara þá leið, að fella þetta alveg niður að þessu sinni. Ég vænti þess, að hv. þm. hafi mjög glögga hugmynd um, hvernig fjárhagur ríkisins er orðinn, en samt er sýnilegt, að hér er um skuld að ræða, sem ríkið er í, og svo framarlega sem aðstæður leyfa, á ríkið að hætta að taka þetta fé. Ef svo til bæri, að hæstv. fjmrh. gæti borgað þetta framlag á árinu 1941 þá yrði það lagt í þjóðleikhússjóð og safnað saman þar til stríðinu er lokið, en þá yrði lokið við húsið.

Þessi till. er ekki beinlínis borin fram eftir ósk hæstv. fjmrh., því að það er ekki von, að hann óski eftir útlátum fyrir ríkissjóð. En þó er hún ekki borin fram án hans vitundar, og hann mælir með því, að hún verði samþ. Það má segja, að mestar líkur séu til þess, að hún verði samþ. Að sjálfsögðu þora menn ekki að spá neinu um það, að fjárhagur ríkisins verði svo góður árið 1941, að þetta verði framkvæmanlegt, en till. er áminning til þessarar þjóðar um það, að það er ekki hægt að halda því áfram til eilífðar að láta þjóðleikhúsið standa hálfgert. Mér þykir sennilegt, að á næsta Alþ. yrði e.t.v. hægt að bera fram till. skylda þessari, og fá hana samþ., um það, að Alþ. beiti sér að nýju fyrir því, að ríkið borgi þetta lán á næstu 2–3 árum eftir stríðið, svo að húsið verði fullgert.

Ég vil aðeins stuttlega drepa á, að síðari hluti till. á þskj. 275 gerir ráð fyrir því, að allur skemmtanaskatturinn, eins og hann var árið 1932, verði látinn renna í þjóðleikhússjóð, en ekki þær álögur, sem hefir verið bætt við skemmtanaskattinn á Alþ. síðan, svo að hann er nú miklu hærri en þá var. En þær viðbætur dettur þjóðleikhúsnefndinni ekki í hug að fara fram á, að renni í þjóðleikhússjóð; það hefir aldrei verið ætlazt til þess, að þær færu til þeirrar byggingar.

Ég vil svo ljúka máli mínu og vil vona, að þessari till. verði vel tekið af hv. Ed. og að málið verði afgr.